Allt annað Hálslón en á myndinni á mbl.is og mynd Lv.

Myndin af Hálslóni, sem er birt með frétt um það á mbl.is og er hér til hliðar sýnir allt annað Hálslón en hefur verið það sem af er sumri. Hálslón fullt

Umrædd mynd sýnir Hálslón stútfullt með yfirborðið í 625 metra hæð yfir sjávarmáli, líkast til í byrjun september.

Aðeins toppurinn á Sandfelli sést eins og lítil eyja í lóninu og lónið teygir sig langt inn eftir Sauðárdal til hægri á myndinni og leggst upp að Sauðárdalsstíflu, en það gerist venjulega ekki fyrr en í ágúst.

Hálslón jún-júlí leirfok

En þessa dagana er lónið allt öðruvísi, Sandfellið ekki umflotið og Sauðárdalurinn á þurru. 

Þegar ísa leysir af lóninu í júníbyrjun er yfirborð þess aðeins um þriðjungur þess flatarmáls sem lónið verður þegar það er fullt.

Tveir þriðju lónstæðisins er á þurru, þakið milljónum tonna af fíngerðum jökulleir, sem sest í lónið á hverju ári, alls um 10 milljón tonn sumar hvert. Hálslón, leirfok

Litinn vind þarf til að hreyfa hinn gríðarlega massa af hinum þurra leir á heitum og björtum dögum, þegar hnjúkaþeyr leikur um þetta svæði og þar væri dýrlegt að vera ef ekkert lónstæði væri þarna.

Í staðinn geysar leirfok þar við svona skilyrði sem gerir alla útvist ómögulega.

Myndirnar af leirfokinu og lóninu eru teknar fyrir nokkrum árum í miðjum júlí og þá var hæð lónsins svipuð og hún er núna í byrjun ágúst og leirfokið ekki eins mikið og það verður mest fyrst eftir að ísa leysir í júní. 

Raunveruleikinn er gráthlægilega ólíkur þeirri glansmynd sem Landsvirkjun dró upp í aðdraganda virkjunarinnar af þeirri nýju og stórkostlegu útvistarparadís sem lónið myndi skapa.Hálslón. Landsvirkjun

Glansmynd Landsvirkjunar fólst í þarna væri útivistarfólk af öllum toga, fjallaklifrarar, fjölskyldur, tjaldfólk, seglbrettafólk og siglingafólk og að á veturna myndi ísinn á lóninu opna nýja möguleika fyrir jeppamenn og skíðafólk og frábært aðgengi að jöklinum.

Svo hrein var glansmyndin, að á henni er lónið sýnt svo blátært, að það sést til botns.

Það stingur í stúf við mynd RAX þar sem lónið er drullubrúnt, enda svo aurugt að skyggni neðan yfirborðs þess er innan við 10 sentimetrar.Hálslón, leirfok, Kárahnjúkur

Á loftmyndinni hér neðar á síðunni, þar sem horft er út eftir lóninu í júlíbyrjun, sést rétt gilla í Sandfellið og Fremri-Kárahnjúk, en upp að honum liggja Kárahnjúkastífla og Desjarárdalsstífla, sem eru huldar í leirfokinu sem og vestasta stíflan, Sauðárárdalsstífla.

Á öðrum myndum má sjá hvernig lónið hefur rifið niður nokkurra metra þykka gróðurþekjuna, en 40 ferkílómetrum af einu best gróna landi hálendisins var fórnað fyrir Kárahnjúkavirkjun.

Myndin er tekin í júlí þegar lónið hefur ekki enn náð upp að Sauðarárdalsstíflu, sem sést í baksýn.

Á efstu myndinni er horft til suðurs eftir lónstæðinu en á hinum loftmyndunum til norðurs. 

Og á jörðu niðri er mynd sem tekin var í ferðalagi okkar þegar við flugum með vinahjónum okkar, lentum á Sauðárflugvelli og fórum að svæði við Kringilsá þar sem áður var iðagrænn gróður sem nú er grafinn í sand.

Sandur, áður gras við Kringilsá

Þótt lagður hafi verið malbikaður vegur að Kárahnjúkastíflu og sagt að með því myndi allt verða krökkt þarna af ferðafólki koma þangað mun færri langt fram eftir sumri en áður en þessi vegur var lagður.

Hvað varðaði hinn nýja og heillandi möguleika fyrir ferðamennsku, þar sem jeppamenn og skíðamenn gætu brunað eftir því alveg upp í jökul og til beggja átta gleymdist reyndar að lónið fellur niður um allt að 60 metra yfir veturinn og óyfirstíganlegar jakahrannir verða meðfram því í stað þess að áður var hægt að aka yfir Jöklu innst í dalnum. 

Þetta er nú öll paradísin og ferðamannamiðstöðin á sumri og vetri!   

Mér er ekki kunnugt um neitt annað miðlunarlón í heiminum sem hækkar og lækkar jafn hratt á hverju ári og Hálslón.

Né hefur eins svakaleg umhverfisáhrif og Hálslón, enda Jökla heitin líkast til aurugasta fljót heims. 

Til dæmis er sveiflan í Powell-lóninu fyrir innan Glen Canyon stífluna í Bandaríkjunum sjö sinnum hægari.  


mbl.is Kaldur júlí hefur neikvæð áhrif á vatnsbúskap
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einhver verður "óhollustan" að vera.

"Áfengisbölið verður að hafa sinn gang" var stundum sagt hér í gamla daga áður en Freeport, SÁÁ og Vogur komu til sögunnar. 

Býsna vonleysislegt tal. 

Ég sé að í umræðunni eru skoðanir skiptar um kleinuhringjastaðinn Dunkin" Donuts og að sumir hneykslast mjög yfir þeim vinsældum sem þessi bandaríska óhollusta nýtur. 

En þetta fer allt eftir því hve mikið hver og einn sækist eftir að innbyrða af þessu nammi. 

Ástarpungar og kleinur er víst eitthvert það óhollasta sem hægt er láta ofan í sig vegna hinnar óhemju miklu og neikvæðu gerðar af fitu, sem er í þessum matvörum.

Samt er það svo, að þegar ég á leið um Hrútafjörðinn stenst ég ekki mátið að kaupa mér einn ástarpung í Staðarskála þrátt fyrir meðvitaða viðleitni mína til þess að minnka neyslu á hvítasykri og transfitu.

Ég geri þetta undir þeim formerkjum að það sé liður í því að gera sér dagamun til þess að lita upp gráan hversdagsleikann og vísa til hliðstæðunnar, sem nefnd er í Biblíunni varðandi það að halda einn dag í viku heilagan sem hvíldardag.

Nokkrir ástarpungar á ári geta varla verið svona skaðlegir.

Að minnsta kosti í samanburðinum við ýmis sætindi sem hafa skolast niður í mann hversdagslega í syndsamlegum mæli í gegnum árin, samanber þessa vísu um mig dauðan:

 

Fallega Ómar flugið tók.

Fór um himna kliður.

Lykla-Pétur Prinz og kók

í panik læsti niður.

Og hugsanlega eru þeir sem voru í biðröðinni í morgun aðeins að sinna þörfinni fyrir að gera eitthvað sem maður gerir aðeins einu sinni á ævinni?  


mbl.is Bitist um kleinuhringina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf enn betri merkingar og fræðslu.

Þegar fólk, sem er óvant ferðum um óbyggðir, sér annars vegar stóran poll, sem ómögulegt er að sjá hvað er djúpur eða hvernig botn hans er, og hins vegar svæði utan pollsins, er skiljanlegt að hikið sé við eða hætt við að fara yfir pollinn. Þríhyrnings    leið

Á myndum í frétt á mbl.is um þetta sést, að enda þótt rétt leið sé merkt með venjulegum stikum og mjóu bandi, þarf meira til. 

Bæði sérstök upplýsingaskilti og meira áberandi merkingar á hverjum stað.

Dæmi um þetta má sjá á svonefndri Þríhyrningsleið sem liggur frá Brú á Jökuldal til vesturs yfir á Kverkfjallaleið, sem liggur Frá Möðrudal suður til Kverkfjalla.Þríh.leið merking

Þar mátti í fyrra sjá ljót og víðfeðm för eftir bíla sem höfðu farið út fyrir slóðina áður en settar voru upp áberandi merkingar.

Við upphaf og enda svona leiða ættu að vera stór og góð upplýsingaskilti með myndum og útskýringum á því af hverju leiðin beint yfir pollinn er sú besta og oft eina rétta.Þríhyrnings  leið pollur

Eini gallinn við merkingarnar á Þríhyrningsleið er sá, að upplýsingaspjöldin hefðu þurft að vera á stífum plötum sem ekki blöktu og lögðust jafnvel saman i vindinum.  


mbl.is Voru hræddar við pollinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvöldblíðan lognværa er líka gefandi afl.

Á þessum árstíma er allt Ísland gefandi afl og sálarefling, allt frá glæsilegum ljósagangi og flugeldum á Þjóðhátíð til kyrrðarinnar, sem eitt sinn var lýst í ljóði með orðunum "kvöldblíðan lognværa".Hvolsvöllur, kvöldblíða

Frá Eyjum er aðeins um tíu mínútna flug upp á Hvolsvöll, þar sem fuglasöngur, og lágþoka í ljósaskiptunum skapar gerólíka stemningu.

Um áratuga skeið hefur flugið gefið möguleika á að skjótast á örskammri stundu á milli þessara miklu andstæðna.TF-ROS, Fox, tungl,jðkull

Myndirnar tala sínu máli, annars vegar myndskeiðið á tengdri frétt á mbl.is af hámarki hátíðahaldanna í margmenninu í Eyjum, en hins vegar myndir úr "kvöldblíðunni lognværu sem kyssti hvern reit" uppi á fastalandinu á sama tíma.  

 


mbl.is Sunnudagur á Þjóðhátíð - myndskeið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjöllur/flautur á hjólum miklu nauðsynlegri en á bílum.

Á grundvelli reynslu minnar í ár af því að ferðast á reiðhjóli um hjóla- og göngustíga borgarinnar er óhætt að taka sterklega undir það, að stórbæta þarf umferðarmenninguna á þessum stígum. 

Reiðhjól og vélhjól eru þeim annmörkum háð miðað við bíla, að engin leið er að svipta hjóli til neitt í líkingu við bíl, ef óvænt árekstrarhætta skapast eða þörf fyrir snögga stefnubreytingu. 

Miklu fleiri hjól þurfa að vera með annað hvort góðar bjöllur eða flautur, sem seldar eru í reiðhjólaverslunum og auk þess baksýnisspegil, sem líka er hægt að fá. 

En ekki er nóg að vara með bjöllur eða flautur ef þær eru ekki notaðar og það er mjög áberandi hve lítið er um að gefa viðvaranir þegar farið er fram úr hjólum eða framhjá gangandi vegfarendum. 

Þetta með baksýnisspeglana á líka við á götum og þjóðvegum og jafnvel enn frekar vegna þess hraða sem bílar eru á.  


mbl.is Keppnishjólreiðar eiga ekki við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband