"Peningarnir urðu til í bankanum."

Maður tekur eftir því að það eru nýprentaðir peningaseðlar í umferð hér á landi og aukin peningaprentun er trix sem notað er í Evrópu. 

Hér um árið keypti Seðlabanki Íslands eitt sinn fjölda dýrra málverka fyrir mikla peninga. 

Þetta vakti gagnrýni þess efnis að bankinn væri ekki stofnaður til að reka listaverkasöfn heldur til að halda utan um peningamál þjóðarinnar, sem ætti hann, og nota peningana í það. 

En þáverandi Seðlabankastjóri vísaði þessu á bug með frægum orðum: "Peningarnir, sem notaðir voru í þetta, urðu til í bankanum." 

Svipað virðist hafa verið uppi á teningnum í Landbankanum varðandi kaup á dýrustu lóð borgarinnar og byggingu glæsimusteris peninganna á henni. 

"Peningarnir urðu til í bakanum" er hugsunin á bak við þetta. Peningarnir eru ekki lengur tákn og afsprengi verðmæta, sem fólk hefur skapað með vinnu sinni, heldur orðnir að sérstökum verðmætum, sem eru óháð fólkinu, þjóðinni, sem á bankann. 


mbl.is „Frestun breytir engu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hve lengi á þessi blekking að endast?

Tveir ungir Bandaríkjamenn ákváðu að á leið sinni reiðhjólum frá Bandaríkjunum til Frakklands væri viðeigandi að hjóla um Ísland og koma við í Hellisheiðarvirkjun, af því að hún væri dæmi um nýtingu endurnýjanlegrar orku. 

Kinnroðalaust höldum við Íslendingar áfram að blekkja útlendinga hvað varðar þessa virkjun og nýtingu jarðvarmans til raforkuframleiðslu. 

Hinu sanna er haldið leyndu, að í Hellisheiðarvirkjun fer fram óþörf ofnýting og græðgisfull rányrkja á jarðvarmanum sem þegar veldur því að orka virkjunarinnar hefur fallið á fáum árum um 40 megavött eða um 13% og á eftir að halda áfram að minnka, enda aðeins gert ráð fyrir 50 ára endingartíma í forsendum virkjunarinnar. 

Samt er búið að gera samning um sölu orku hennar rétt eins og hún haldist jafnmikil. 

Olíuvinnslusvæði, sem entist aðeins í 50 ár, þætti ekki dæmi um endurnýjanlega orku og sama gildir um orkuframleiðslu Hellisheiðarvirkjunar.

 


mbl.is Frá Bandaríkjunum til Parísar á hjóli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurtekin rökin fyrir kjarnorkuárásunum.

Í heimildarmynd um kjarnorkuárásirnar á Hiroshima og Nagasaki á Stöð 2 í gærkvöldi voru rökin fyrir árásunum endurtekin án nokkurra mótraka. 

Staðhæft var að með árásunum hefði verið bjargað milljónum mannslífa, sem annars hefði verið fórnað í innrás í Japan og áframhaldandi bardögum annars staðar. 

Einnig var sagt að B-29 vélarnar hefðu komist óáreittar að skotmörkum sínum af því að japanskar orrustuflugvélar hefðu ekki komist upp í jafnmikla hæð og bandarísku flugvélarnar flugu í. 

Þetta er ekki rétt. Japönsku orrustuflugvélarnar komust upp í allt að 6000 feta meiri hæð en B-29. 

Hvers vegna voru þær þá ekki sendar á móti bandarísku vélunum?

Svarið er einfalt: Japanir voru búnir að missa lendur sínar og aðgang að auðlindum utan Japans, sem þeir höfðu unnið í byrjun stríðsins, og bjuggu við slíkan eldsneytisskort, að þeir gátu ekki notað leifarnar af flugflota sínum og skipaflota. 

Landið lá hjálparvana og varnarlaust fyrir fótum bandaríska hersins sem gat sprengt japönsku þjóðina aftur á steinöld án nokkurrar mótstöðu og klárað þann helming japanskra borga, sem eftir var að leggja í rúst. 

Það er rétt að japönsku hermálayfirvöldin hefðu heilaþvegið japönsku þjóðina svo algerlega, til slíks átrúnaðar á keisarann, að hann orðaði það svo í uppgjafarávarpi sínu að þjóðin yrði að sætta sig við það sem væri óhugsandi og umbera það sem væri óbærilegt.

Japanski herinn gafst ekki upp að eigin frumkvæði heldur var það keisarinn sjálfur sem tók af skarið. Hafi það verið að undirlagi hersins, sem það var gert, gerði Samurai hefðin það óhugsandi að hershöfðingjarnir hefðu átt neitt frumkvæði.

En á móti kom, að vegna átrúnaðarins á keisarann urðu hershöfðingjarnir að hlýða skipun hans. 

Að sögn keisarans sjálfs var það mannfallið í brennandi borgum landsins, þar á meðal höfuðborgin Tokyo þar sem 100 þúsund voru drepnir í einni árás, sem réðu úrslitum um það að hann fyrirskipaði uppgjöf.

Þegar í vörn fyrir kjarnorkuárásirnar er sífellt vitnað í bann hersins við uppgjöf er gengið fram hjá einu persónunni sem gat aflétt þessu banni og gerði það að lokum, en það var keisarinn.

Bandaríkjamenn gátu lokið stríðinu án kjarnorkuárása með því að draga úr hernaðarátökum og einbeita sér að hafnbanni og árásum, sem Japanir gátu ekki varist.

Það blasti við að hægt var að svelta þjóðina til uppgjafar og að keisarinn myndi ekki geta varið það fyrir sjálfum sér að láta mannfallið heima fyrir og eyðingu borganna viðgangast lengur.

Japanir höfðu hafið samningaumleitanir áður en kjarnorkuvopnin voru notuð og kjarnorkuárásirnar og innrás Rússa voru fyrst og fremst gerðar til að styrkja stöðu þessara risavelda í fyrirsjáanlegri togstreitu þeirra og keppni um völd að stríði loknu. 

 

 


mbl.is Japanir tvístígandi gagnvart kjarnorku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt skref hjá Icelandair.

Velgengni Icelandair á þessari öld hefur byggst að miklu leyti á því að félagið hefur haft í notkun vélar af gerðinni Boeing 757, sem er með mikla rekstrarhagkvæmni en jafnframt dugnað á erfiðum flugvöllum umfram Boeing 737, sem er með talsvert minni vængi og þess vegna þörf fyrir lengri flugbrautir. 

Þegar Icelandair tók stærstu 757 vélar sínar í notkun var það eina áætlunarflugfélagið sem notaði slíkar vélar á jafn löngum flugleiðum og eru milli Íslands og áfangastaða inni í Bandaríkjunum á borð við Denver og Minneapolis. 

Aðeins svonefnd pakkaflugfélög, sem tóku að sér ódýr leiguflug á löngum leiðum notuðu á þeim tíma 757. 

757 er með sömu skrokkbreidd og hafði verið tekin upp fyrir 60 árum á fyrstu Boeingþotunni, Boeing 707, og miðaðist við meðalstærð fólks á þeim tíma, og þegar búið er að hrúga hátt í 200 manns inn í langan skrokk slíkrar vélar getur umhverfi farþeganna gefið þeim tilfinningu um þrengsli á löngum flugleiðum. 

Boeing 767 gefur farþegum allt annað og rýmra umhverfi á löngum flugleiðum með sinn breiða og rúmgóða skrokk. 

Með því að bæta slíkum vélum í flotann tekur Icelandair mikilvægt skref í að víkka út möguleika sína til að ná til sín nýjum markhópum viðskiptavina. 


mbl.is Fyrri breiðþotan af tveimur komin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband