Stjórn Steingríms var ekki óstöðug 1988-91.

Það er rétt að að öðru jöfnu sé margra flokka stjórn óstöðugri en tveggja flokka stjórn. En það er ekki algilt. Frá því að stjórn Steingríms Hermannssonar var myndið haustið 1988 sat hún tryggilega til enda kjörtímabilsins 1991. 

Þarna réði meira stjórnmálaleg samskiptasnilld Steingríms en aðrar aðstæður, því að í byrjun hékk stjórnarmeirihlutinn á einu atkvæði þótt fjögur framboð stæðu að stjórninni.

Síðar orðaði hann það svo að löngum stundum hefði jafn mikill tími farið í það hjá honum að semja við Stefán Valgeirsson einan en alla aðra til samans. 

 

Eftir að Steingrímur gat kippt hluta Borgaraflokksins inn í stjórnina stóð hún föstum fótum til enda kjörtímabilsins.

Það er heldur ekki rétt að forseti Íslands hefði aldrei haft áhrif við stjórnarmyndun, því að Ásgeir Ásgeirsson átti drjúgan þátt í myndun minnihlutastjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks í desember 1958.

Eftir kosningarnar 1974 var Ólafur Jóhannesson með stjórnarmyndunarumboðið og leiddi stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn.

Þær enduðu hins vegar með því að Geir Hallgrímsson varð forsætisráðherra og var sagt í hálfkæringi að Óli Jó hefði myndað stjórnina fyrir hann.

Steingrímur Hermannsson varð forsætisráðherra í ríkisstjórninni 1983 þótt Framsóknarflokkurinn væri snöggt um minni en samstarfsflokkurinn.

Það lítill munur var á fylgi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 2013 að það var engin goðgá að formaður Framsóknarflokksins fengi umboðið eftir fágæta fylgisaukningu hans.

Hins vegar má spyrja þeirrar spurningar hvort staðan væri önnur nú ef Bjarni Benediktsson hefði orðið forsætisráðherra.

Hann var límið sem hélt núverandi stjórn saman og óvíst er að uppljóstranirnar úr Panamaskjölunum hefðu haft sömu áhrif og þau höfðu ef Sigmundur Davíð hefði til dæmis verið fjármálaráðherra. 


mbl.is Forsetinn myndar ekki stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfitt að áætla fylgi Pírata.

Í þeim kosningum, sem Píratar hafa tekið þátt, hefur reynslan verið sú, að mun færri hafa haft fyrir því að fara á kjörstað til að kjósa þá heldur hafa sagst styðja þá í skoðanakönnunum. 

Þessu veldur að fleiri í þeirra röðum eru heillaðir af netheimum en meðal stuðningsfólks annarra framboða og myndu því vera með meira fylgi ef þeir kysu á netinu. 

Þótt þessu "netheimafólki" fjölgi líklega um á að giska 5% á hverju kjörtímabili sýnist líklegt að allt að helmingur þeirra, sem segjast myndu kjósa Pírata, séu ekki netheimafólk heldur fólk sem kosið hefur aðra flokka fram að þessu. 

Þá snýst spurningin um það hvort hik komi á þetta fólk að kjósa Pírata þegar í kjörklefann er komið. 

Píratar eru glúrnir eins og sést á því að þeir hafa þegar skipað þrjá fulltrúa sína til að fara með umboð til stjórnarmyndunar ef til slíks kemur. 

Ég hef kynnst nógu mörgu af áhrifafólki innan þeirra raða til þess að sjá, að þar er á ferð klárt og efnilegt fólk, sem virðist ákveðið í að verða "stjórntækt".  

Staða þeirra yrði sterkari í ríkisstjórn en í borgarstjórn Reykjavíkur ef þeir halda hinu mikla fylgi sínu. 


mbl.is Sjö flokkar á þing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt mesta þarfaþingið, Reykjanesfjallgarðurinn, getur breytt miklu.

Á korti veðurfræðings í sjónvarpinu i´kvöld mátti sjá að aðal regnsvæðið, sem spáð er, muni ekki ná til Reykjavíkur og þegar þetta er párað á öðrum tímanum í nótt, er ekki komin hin mikla rigning sem spáð er. 

Á vefnum vedur.is er spá 23ja millimetra heildarúrkomu á næsta sólarhring, sem þætti ekki í frásögur færandi á Kvískerjum. 

Ástæðan er eitthver mesta þarfaþing Reykjavíkur, Reykjanesfjallgarðurinn. Hann rís upp í 6-700 metra hæð á stórum kafla og rífur mesta rakann niður þegar hann steypist þar yfir í hvössum sunnan, suðaustan og austanáttum. 

Þess vegna eru veðurskilyrði umtalsvert betri á Reykjavíkurflugvelli en á Keflavíkurflugvelli, vegna þess að sá síðarnefndi er berskjaldaður fyrir rakri suðaustanátt. 

Áhrif fjallgarðsins eru ekki öllum ljós, sem hafa fjallað um Reykjavíkurflugvöll, eins og til dæmis áhrifum fjallgarðsins á flugvallarstæði í Hvassahrauni, sem er skapa mikla ókyrrð í hvassri suðaustan- og austanátt. 

En sú vindátt er algengasta vindáttin í Reykjavík og flest hvassviðrin koma úr þeirri átt. 

Hlálegasta er þegar menn halda að flugvöllur á Selfossi gæti gert sama gagn og Reykjavíkurflugvöllur sem varavöllur þegar lokað er vegna veðurs í þessari vindátt á Keflavíkurflugvelli. 

Selfoss er nefnilega á svipuðu veðursvæði og Keflavík í þessari vindátt. 


mbl.is Slökkviliðið við öllu búið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband