Fáfengilegur samanburður.

Sá samanburður og leikur með tölum um þessar mundir, sem miðar að því að bera saman verk og árangur síðustu tveggja ríkisstjórna, er afar fáfengilegur vegna þess hve þessar tvær ríkisstjórnir hafa unnið við gerólíkar aðstæður. 

Engin ríkisstjórn síðan 1947 hefur tekið við eins öðrum eins vandamálum af völdum efnahagshruns og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.

Rústabjörgun er alveg ósambærileg við það að endursmíða hið brunna og flytja inn ný húsgögn.

Meginlínan er sú að á síðari hluta valdatíma hennar var efnahagsbati farinn af stað og núverandi ríkisstjórn hefur unnið úr honum. 

Ég man þegar stjórnir Stefáns Jóhanns Stefánssonar og Steingríms Steinþórssonar þurftu að vinna úr gríðarlegu áfalli eftir að Nýsköpunarstjórnin hafði eytt öllum stríðsgróðanum og gjaldeyrisforðanum á aéins rúmlega tveimur árum. 

Nýsköpunarstjórnin naut þess ljóma sem var við það að endurnýja fiskiskipaflotann og fleira og leyfa þjóðinni að njóta skammvinns góðæris. 

Stjórnirnar, sem tóku við, hafa hins vegar orðið að sætta sig við það orðspor sem hlaust af fádæma höftum, skorti og skömmtunum, sem fá ráðstafanirnar 2008-2010 til að blikna í samanburðinum. 


mbl.is „Við höfum farið rétt með“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki mun af veita fyrir Rooney, en dugar það samt?

Sú var tíð að Manchester United átti einhvern leiknasta og litríkasta leikmanninn í sögu ensku knattspyrnunnar, George Best.

Hann var valinn besti knattspyrnumaður Evrópu 1968 og var jafnaldri Hemma Gunn.

Þegar horft er á myndskeið með bestu tilþrifum hans minna þau á Maradona og Lionel Messi. 

En hann varð snemma frægur fyrir drykkjuskap og kvennafar, var óreglusamur og sukksamur, drakk sig út úr boltanum og lést um aldur fram.

Frægt varð svar hans þegar hann var spurður, hvað hefði orðið um allan þá gríðarlegu peninga, sem hann aflaði sér sem knattspyrnumaður, og hann svaraði:

"Ég eyddi miklu í vín og konur og restin fór í einhverja bölvaða vitleysu." 

Wayne Rooney hefur verið á niðurleið og einn vegvísirinn til þess að sitja á bekknum var ömurleg frammistaða hans í leiknum fræga við Ísland á EM. 

Nú eygir hann samt möguleika á að komast á spjöld sögu ensku knattspyrnunnar með því að skora mark fyrir Manchester United og verða þar með markahæstur á útivelli. 

En meira þarf til svo að hann geti endurheimt sinn fyrri sess. 


mbl.is Slær Rooney met í kvöld?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt á sömu bókina lært.

Þótt fádæma uppgrip séu í þjóðfélaginu vegna dæmalausrar fjölgunar ferðamanna og hálfgerðs sprengiástands í ferðaþjónustunni eru lappirnar dregnar áfram hvað varðar innviði, stjórnun og þjónustu, sem nauðsynleg er til að forða því að í algert óefni stefni varðandi áföll og jafnvel hrun vegna þess að okkur hefnist fyrir það sambland af græðgi og nísku sem ræður ríkjum.

Það er ekki eitt heldur allt og hættuleg vanræksla lögreglu er ekki eina ástæðan.

Lítið dæmi var nefnt hér á síðunni fyrir viku:Lokuð hálendisleið

Þótt verið hafi samfellt sumarblíða á landinu í meira en mánuð nú í haust, og veðurfræðingur í sjónvarpinu talað um júní- eða júlíveður í október, og þrátt fyrir að talað sé um nauðsyn þess að lengja ferðamannatímann og dreifa ferðamannastraumnum, hafa tvær hálendisleiðir, sem hafa verið greiðfærari allan þennan tíma en nokkru sinni fyrr á þessu ári, verið lokaðar.

Á skiltum er því logið til að þær séu ófærar, en hin raunverulega ástæða er, að það er ekki til fjármagn til að halda uppi svo miklu sem einum manni á hvorri leið sem landverði. Lokuð hálendisleið(2)

Eru þó tveir aðilar, sem þar ættu, ef allt væri með felldu, að geta lagt eitthvað til; - Vegagerðin og Vatnajökulsþjóðgarður.  


mbl.is „Þetta er grafalvarleg staða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband