Minnir á atferli negrastráka í Kenýa.

Þegar keppt hefur verið í hinu magnaða Austur-Afríku safari ralli hefur það verið vandamál, að sums staðar á keppnisleiðunum hafa negrastrákar komið úr strákofaþorpun og farið í þann háskaleik, að stelast út á keppnisleiðirnar og standa það lengi kyrrir þar, að þeir yrðu síðastir til að forða sér.

Það er eitthvað að þegar vel menntað fólk stundar þann háskaleik sem stundaður er í Reynisfjöru.

Einhverjir eru kannski að þessu í meðvitaðri fífldirfsku en það er óhjákvæmilegt að álykta sem svo að það skorti enn á upplýsingagjöf og eftirlit.   


mbl.is Hlaupa hlæjandi í öldur Reynisfjöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalt Framsóknarvandamál.

Þegar litið er yfir stjórnarsetuferil Framsóknarflokksins frá upphafi stofnunar hans sést, að hann var 16 ár í vinstri stjórn, 7 ár í miðjustjórn og 31 ár í hægri stjórn.

Stjórn Gunnars Thoroddsens 1980-83 er þarna skilgreind sem vinstri stjórn, en ef hún er skilgreind sem miðjustjórn verða árin í vinstri stjórn enn færri en þarna er stillt upp. 

 

Því verður að líta á meðaltalið af stöðu flokksins sem hægra megin á miðjunni.

Vandamál flokksins í hundrað ár hefur verið að þurfa að sitja á víxl í vinstri og hægri stjórnum og vera "opinn í báða enda" eins og þessu ástandi flokksins var eitt sinn lýst.

Í sjónvarpsviðtali í gærkvöldi skein í gegn í lokin, að Benedikt Jóhannesson átti erfitt með að skilgreina stöðu flokksins í ljósi tilboðs Pírata um stjórnarmyndunarviðræður fyrir kosningar.

Benedikt reyndi að afneita framtíðarsamvinnu við Sjálfstæðisflokk og Framsókn án þess að taka endanlega jákvætt í hugmyndir Pírata um viðræður fyrir kosningar.

Þetta er gamalt Framsóknarvandamál, sem Sigrún Magnúsdóttir myndi jafnvel kalla "lúxusvandamál", - eða "vegir liggja til allra átta."  


mbl.is Allt á blússandi siglingu hjá okkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjúgverpill.

Bjúgverpill (boomerang), vopn frumbyggja Ástralíu, hlaut heimsfrægð þegar hvítir menn námu þá álfu. Vopnið ku vera kastvopn, sem hefur þann loftflæðisfræðilega eiginleika að taka beygju á fluginu og fljúga til baka til þess sem beitir því. 

Þess eðlis virðist sú ætlan Donalds Trumps hafa verið að skaða framboð Hillary Clinton með því að grafa upp gömul kvennavandræði manns hennar og klína þeim á hana.

Í upphafi skyldi endinn skoða og Trump sást yfir þann möguleika, að svipað yrði hægt að nota gegn honum.

Honum sást einnig yfir það, að nokkur munur var á stöðu hans og Bill Clinton.

Bill er ekki í framboði, þótt hann sé eiginmaður Hillary og myndi þar af leiðandi verða búsettur í Hvíta húsinu, ef hún yrði forseti.

Trump getur sjálfum sér um kennt, verði umræðan um kvennamál næstu búseta í Hvíta húsinu honum til tjóns. Hann hóf þessa umræðu.   


mbl.is „Ég trúi eiginmanni mínum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helsti gallinn er fólksfæðin og návígið.

Flestir Íslendingar kannast við það, að hafa ekki varað sig á því í umræðum um ýmis mál, að hugsanlega væri einhver nákominn flæktur í það mál sem talað væri um. 

Smám saman verður þetta til þess að það myndast einhvers konar smækkuð útgáfa af ástandinu í kommúnistaríkjum Evrópu á sinni tíð, þar sem ýmis mál verða tabú. 

Engin þjóð á hlutfallslega nálægt því eins mörg nöfn í Panama-skjölunum og Íslendingar. 

Og jákvætt viðhorf Íslendinga varðandi sjálfsbjargarviðleitni eykur á það, að horft sé fram hjá þessari nöturlegu staðreynd. 

Því að að með því að flytja auð sinn til útlanda eru viðkomandi að skapa sér hagstæða aðstöðu í erlendu myntkerfi á sama tíma og þorri fólks verður að una því að vera í hávöxtum íslenska krónuhagkerfisins. 

Að þessu leyti búa tvær þjóðir í landinu og misjöfn kjör þeirra eru ekki verjandi. 


mbl.is Aðrir lekar og engir felustaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband