Flokkar hafa jafnað sig áður á klofningi.

Átök og klofningur í Framsóknarflokknum eiga sér margar hliðstæður í íslenskri stjórnmálasögu, og oftast hefur flokksfólk jafnað sig á eftir og tekið höndum saman. 

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði illa 1980 og hluti þingflokksins gekk til stjórnarmyndunar við Alþýðubandalag og Framsóknarflokk, var ýmsum áhrifamönnum mjög heitt í hamsi og vildu reka Gunnar Thoroddsen og hans menn úr flokknum. 

Framsýni Geirs Hallgrímssonar og fleiri réð þó ferðinni, og í kosningunum 1983 gekk flokkurinn einhuga og heill til kosninga og var í ríkisstjórn í fimm ár eftir það. 

Fordæmi hafði raunar verið gefið 1944 þegar hluti flokksins studdi ekki Nýsköpunarstjórn Ólafs Thors með sósíalísku flokkunum tveimur en Ólafur vildi ekki erfa það við þessa þingmenn. 

Sjálfstæðisflokkurinn skiptist í tvær álíka stórar fylkingar á landsfundi 1991 rétt eins og Framsókn nú en flokkurinn jafnaði sig og Þorsteinn Pálsson varð ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar á uppgangsárum flokksins á tíunda áratugnum. 

Fleiri dæmi mætti nefna, en auðvitað veit enginn örugglega fyrirfram hver eftirmál verða innan Framsóknarflokksins nú. 

Oft hafa flokkadrættir innan vinstri flokkanna skapað klofning eins og 1930, 1938, 1956, 1970, 1987 og 1994, sem leitt hefur af sér stofnun og síðar dauða nýrra flokka.

Kjör Sigurðar Inga Jóhannssonar ætti að gefa Framsóknarflokknum betra tækifæri til þess að verða áfram í ríkisstjórnarsamstarfi af einhverri gerð en ef Sigmundur Davíð hefði verið kosinn. 


mbl.is „Fullur þakklætis og auðmýktar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhannes útskýrari ber það viðurnefni með rentu.

Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fékk fljótlega viðurnefnið útskýrari þegar hann stóð í ströngu við að útskýra illskiljanlega hluti við upphaf Wintrismálsins og í framhaldi af því.

Hugsanlega hafði hann fengið viðurnefnið fyrr vegna svipaðra aðgerða sinna eins og til dæmis þegar Sigmundur Davíð fór ekki til Parísar eins og flestir evrópskir leiðtogar.  

Glettnin á bak við þessa nafngift nýtur sín reyndar betur munnlega en skriflega vegna þess að einfalt í er viðurnefni Jóhannesar skírara en ý í viðurnefni Jóhannesar Þórs, en framburðurinn er í í báðum tilfellum. 

Já, Jóhannes útskýrari fékk heldur betur nóg að gera í vor og sýndi fram á nauðsyn starfs síns. 

Í gær var sagt í ljósvakamiðli að tæknileg atriði hefðu valdið því að aðeins ræða Sigmundar Davíðs en ekki ræða Sigurðar Inga hefði verið send út af flokksþinginu. 

Þessi útskýring er gamalt og vel þekkt fyrirbæri, - "tæknin er að stríða okkur", - heilkennið, þannig að flestir keyptu það vafalaust að um tæknilega bilun hefði verið að ræða.

En í dag hefur Jóhannes útskýrari sýnt að hans er full þörf til að útskýra, að það hafi verið á ábyrgð forystu flokksins að þetta gerðist í gær en ekki vegna bilunar eða mistaka tæknimanna.  


mbl.is Fóru að fyrirmælum flokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvíeðli Framsóknarflokksins.

Framsóknarflokkurinn hefur á 100 ára sögu sinni verið að meðaltali með rúmlega 20 prósenta fylgi kjósenda. Samt hefur flokkurinn átt aðild að ríkisstjórn í 67 ár en verið í stjórnarandstöðu í 33 ár. Strax í upphafi kom í ljós að stefna hans þá, rétt eins og nú, er að vinna til hægri og vinstri á víxl í þeim eina tilgangi að komast í ríkisstjórnarsamstarf eftir kosningar. 

Ágætur rithöfundur hefur lýst þessu þannig að það hefði verið alveg sama hvað hann kaus í kosningum, alltaf kaus hann þannig að það lyfti Framsóknarflokknum til valda! 

Flokkurinn lék sér að því að eiga samstarf við Alþýðuflokkinn 1927, víxla yfir í Sjálfstæðisflokkinn eftir kosningarnar 1931, síðan yfir í vinstri stjórn 1934, þjóðstjórn 1939, mið-hægri stjórn 1947-1950, hægri stjórn 1950-56 og vinstri stjórn 1956-58. 

Svo lunknir voru forystumenn flokksins í að sinna þessu tvíeðli flokksins, að eftir mesta ósigur hans fram að því 1978, varð formaður hans forsætisráðherra í vinstri stjórn, sem tók við af hægri stjórn, sem flokkurinn sat í og fékk hroðalega útreið í kosningunum 1978.

Flokkurinn sat samfellt í hægri og vinstri ríkisstjórnum frá 1980-1991 og aftur frá 1995-2007. 

Sigurður Ingi Jóhannsson segir berum orðum, að hann byggi framboð sitt til forystu í flokknum beinlínis á því að hann sé betur til þess fallinn að sinna þessu tvíeðli flokksins og fá traust annarra flokka til vinstri og hægri til stjórnarþátttöku eftir kosningar heldur en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. 

Hann vonast til að geta endurtekið þann leik og Hermann Jónasson lék 1934, að fella fyrrum forsætisráðherra á heimavelli og tryggja sjálfum sér og flokknum með því setu í stjórn.

Sigmundur Davíð veifar þeirri gulrót framan í fulltrúa á flokksþinginu að beita sér fyrir róttækri uppstokkun fjármálakerfisins. 

Þetta er ekki nýtt í sögu flokksins. Flokkurinn vann mjög á og fékk fyrsta þingmann sinn í Reykjavík 1949 með því að tefla fram Rannveigu Þorsteinsdóttur, sem hét því að "segja fjárplógsstarfseminni stríð á hendur." 

Eftir kosningarar fór flokkurinn í samstarf við þessi sömu öfl í hægri stjórn með Sjálfstæðisflokknum sem tryggði eitthvert harðsvíðasta helmingaskiptabandalag sögunnar á sviði fjármála og valda! 

 

Í ljósi sögu flokksins verða kosningarnar á flokksþinginu í dag því mjög sögulegar, hvernig sem fer.  


mbl.is Ásmundur hjólar í Sigmund Davíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heillandi maður sem hreyfir við manni.

Davíð Þór Jónsson er maður sem hreyfir við fólki með því sem hann segir og gerir. Hann gefur fólki eitthvað til að tala um, skiptast á skoðunum, rökræða og lyfta sér upp úr hversdagslegum doða og hugsunarleysi.

Hann hvetur okkur til að taka afstöðu og vera óttalaus. 

Slíkir menn eru nauðsynlegri á okkar tímum en oftast áður.

Um hæfileika hans þarf ekki að efast.

Þótt hann kunni að vera umdeildur þurfa þjóðkirkjan og nútíma þjóðfélag á slíkum mönnum að halda.  


mbl.is Henti gamla lífinu í ruslið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband