Hverjar eru "kollsteypurnar"?

Þeir sem vilja halda í stjórnarskrá, sem er í grunninn stjórnarskrár Danmerkur 1849, tala um frumvarp stjórnlagaráðs á þann veg að sú stjórnarskrá muni "kollvarpa" íslensku stjórnskipaninni. 

Danir héldu í upprunalegu stjórnarskrána í rúma öld, en gerðu nýja fyrir rúmum 60 árum. Enginn hefur haldið því fram að þar hefði verið að kollvarpa stjórnskipan þeirra þótt nýja stjórnarskráin angaði af umbótum frá hinni fyrri.

Í Fréttablaðinu í dag eru nefnd fimm atriði, sem andstæðingar nýrrar stjórnarskrár túlka vafalaust sem "kollsteypu".

Í greinum um kosningakerfið er opnað á persónukjör og að öll atkvæði á landinu vegi jafnt.

Í greinum um náttúru og auðlindir er gerð krafa um sjálfbæra þróun í stað rányrkju og sagt að réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur. Þetta er í samræmi við aðild okkar að Ríó-sáttmálanum og Parísarsamkomulaginu.

 

Í greinum um stjórnkerfið er kveðið á um aukna valddreifingu og skerpt á þrígreiningu, til dæmis að ráðherra geti ekki setið á þingi á meðan hann gegnir ráðherraembætti.

Þannig má fara í gegnum nýju stjórnarskrána, sem angar af umbótum, og undrast, hvernig andstæðingar nýrrar stjórnarskrár horfa á hana þeim augum, að hún "kollvarpi" samfélagi okkar. 

 

Prófessor einn hélt því á fundi í fyrra, að með nýju stjórnarskránni væri horfið frá þeim atriðum sem einkenna norrænar og evrópskar stjórnarskrár.

Þetta er alrangt. Helstu umbætur eiga einmitt fyrirmyndir í nýjustu norrænu stjórnarskránum og nýlegum stjórnarskrám í Norður-Evrópu.

  


mbl.is Mikilvægt að ræða hlutverk stjórnarskráa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig er hægt "að sigla niður strönd"?

Í sjónvarpi í gær las fréttamaður, að skipi hefði verið "siglt niður ströndina." 

Af fréttinni mátti ráða að upphaf þessarar furðulegu og óhugsandi siglingar hefði verið norðaustan við Skotland.

Hvernig í ósköpunum er hægt að sigla niður strönd?  

Samkvæmt orðanna hljóðan er um tvennt að ræða:

1. Að sigla á þurru landi niður eftir strönd. En það er ekki hægt. 

2. Að sigla ströndina niður, það er að sigla svo harkalega á hana að hún verði fyrir spjöllum og sökkvi. En það er heldur ekki hægt. 

Einhvern veginn var það ekki í orðaforða fréttamannsins að hægt væri að sigla suður með ströndinni.  


Meira en 40 ára verkefni ólokið.

Í afar fábreyttu efnahagsumhverfi á Íslandi í kringum  1970 markaði bygging álvers við Straumsvík og stórvirkjunar við Búrfell tímamót. 

Yfir 95% gjaldeyristekna þjóðarbúsins höfðu komið frá sjávarútvegi og vegakerfi landsins var að mestu leyti frumstæðir malarvegir. 

Á þeim tíma hefði varla þurft sérstaka úttekt á efnahagslegum áhrifum  af því að hefja stóriðju, nauðsyn þess að skjóta fleiri stoðum en sjávarútvegi undir þjóðarbúið blasti við.

Nú eru liðin 46 ár frá opnun 33 þúsund tonna álvers í Straumsvík, sem þætti næsta smátt stóriðjufyrirtæki á okkar tímum, þar sem lágmarksstærð álvera til að bera sig hefur reynst vera 360 þúsund tonn.

Þjóðarframleiðsla og þjóðartekur hafa margfaldast og efnahags- og atvinnulíf er gjörbreytt.

Hjá erlendum nágrannaþjóðum þykir mikilvægast og árangursríkast að byggja efnahagslífið á vel menntuðum mannauði, sem er undirstaða skapandi greina.

Eru Danir í orkusnauðu og málmasnauðu landi sínu gott dæmi um það.

Á síðustu árum hafa þær rannsóknir fræðimanna á áhrifum og gildi stóriðjunnar á efnahagslífið, sem gerðar hafa verið, bent til miklu minni jákvæðra áhrifa en áður voru.

Og samanburður á því hvað fæst fyrir fjárfestinguna í kringum stóriðjuna annars vegar, og hvaða arð aðrar greinar gefa, hefur ekki verið stóriðjunni í vil. 

Það hefði því verið fróðlagt að sjá niðurstöður úttektar á efnahagslegum áhrifum starfsemi álversins í Straumsvík á bæjarfélagið Hafnarfjörð og taka umræðu um það. 

Nú er upplýst rétt si svona að þessi úttekt, sem átti að skila í vor, hafi ekki verið kláruð og verði ekki kláruð. 

Má furðu gegna eftir 46 ára sögu álversins að ekki sé hægt að skoða jafn sjálfsagt mál, birta niðurstöður slíkrar úttektar og ræða forsendur hennar og niðurstöður. 


mbl.is Úttekt á álverinu aldrei kláruð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður samsæriskenninganna.

Donald Trump virðist sjá samsæri í hverju horni, svo sem svindl í forsetakosningunum og það, að bandarískir hershöfðingjar séu að sækja að Mosul til þess að laga stöðu Hillary Clinton.

Nokkur umræða spannst um stöðuna í Írak og Sýrlandi og Trump taldi Bandaríkjamenn vera að hygla Írönum á alla lund með stefnu sinni þar.   

Svipað hefur komið upp áður skömmu fyrir kosningar.  

Hrakfarir Bandaríkjamanna vegna byltingarinnar í Íran 1979 og í gíslatökumálinu þar í kjölfarið, auk misheppnaðri árásar Kana til að frelsa þá átti stóran þátt í því að Jimmy Carter sitjandi forseti tapaði fyrir Ronald Reagan 1980. 

Gíslarnir voru látnir lausir eftir að Reagan tók við embætti og ýjað var að samsæri í því sambandi. 

Hillary vitnaði í það álit málsmetandi manna að Donald Trump væri ekki treystandi til að fara með úrslitavald varðandi beitingu kjarnorkuherafla landsins og höfðaði þannig til kjósenda, sem óar við mistökum eða misbeitingu í því sambandi.  

 


mbl.is Mun Trump ekki una niðurstöðunni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar botninum er náð er aðeins ein leið.

Botninum í sögu kappræðna frambjóðenda fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum var náð í síðustu kappræðu Hillary Clinton og Donalds Trumps, sem varð að dapurlegum leðjuslag. 

Þess vegna eru fyrstu viðbrögð þau við síðustu kappræðu þeirra, sem var að ljúka þegar þetta er skrifað, að eftir að hafa verið á lægsta mögulega plani síðast, hafi varla verið hægt annað en að ummræðan yrði ögn skárri nú.

Engu að síður voru umræðurnar áfram neikvæðar og oft lágkúrulegar, enda óhjákvæmilegt annað en að tala um helstu ásakanir Hillarys og Trumps, sem dunið hafa í fjölmiðlum undanfarna tíu daga.

Fleirum fannst Trump standa sig verr en Hillary síðast, ef marka má skoðanakannanir þar um, og það fer sjálfsagt talsvert eftir almennum stjórnmálaskoðunum fólks, hvað því finnst í þetta sinn.

Fyrsta tilfinning síðuhöfundar er að Trump hafi ekki haft betur í þetta sinn frekar en í hinum kappræðunum tveimur.

Ásakanir hans á hendur Hillary varðandi heilsufar hennar lágu í láginni í kvöld, enda var ekki á henni að sjá á frammistöðu hennar að þessar dylgjur hefðu bit.  


mbl.is Stefnir í hörkuviðureign í Vegas
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband