Ekki sú fyrsta sem verður fyrir barðinu á svona löguðu.

Arna Ýr Jónsdóttir er ekki fyrsta konan, sem verður fyrir barðinu á fordómum varðandi vaxtarlag. Ef ég man rétt, varð ein af þrjátíu bestu fimleikakonum heims á síðustu Ólympíuleikum fyrir aðkasti og gagnrýni fyrir að vera of feit. 

Var hún þó undir 60 kílóum að þyngd. 

Baráttan gegn offitu á ekkert skylt við tilfelli eins og þessarar fimleikakonu og Örnu Ýrar, því að sú ímynd sem Nadia Comanechi fimleikadrottning skóp á sínum tíma og margar fyrirsætur og tízkusýningarkonur virðast aðhyllast hefur leitt af sér ofstækisfulla kröfur um vaxtarlag.  


mbl.is Cosmopolitan hrósar Örnu Ýr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Því skýrari línur fyrir kosningar, því betra fyrir kjósendur.

Í flestum nágrannalöndum okkar er leitast við að hafa línur sem skýrastar fyrir kjósendur áður en gengið er að kjörborði. 

Slíkt var uppi á teningnum í kosningum hér á landi 1963, 1967 og 1971. 

Þáverandi stjórnarflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur, hétu því að vinna áfram saman eftir kosningar, ef þeir héldu meirihluta sínum. 

1967 vofði samdráttur yfir í kjölfar stórfells aflabrests í síldveiðum og verðlækkunar á sjávarafurðum erlendis. 

Sigur Viðreisnarflokkanna varð tæpur, og kannski hefðu þeir tapað í kosningunum, ef þeir hefðu þá verið búnir að fella gengi krónunnar tvisvar í takt við gengisfellingu breska pundsins eins og þeir gerðu. 

1971 var hagvöxtur hafinn að nýju, en stjórnarflokkarnir gerðu þau mistök að vilja ekki færa út landhelgina og standa í hvívetna við samkomulag um hana við Breta frá 1961. 

Ég kaus stjórnarflokkana 1963 og 1967, en Samtök frjálslyndra og vinstri manna 1971 og var ekki einn um það. 

Ég sakna þeirra tíma þegar línurnar voru hreinar þegar gengið var að kjörborði. 

Hannibal Valdimarsson og Björn Jónsson voru tilbúnir að íhuga að fara í samstarf við Viðreisnarflokkana um stjórnarsamstarf og útfærslu landhelginnar, en vegna afdráttarlausra úrslita kosninganna, varð ofan á að skipta alveg um stjórn. 

Í því að reyna að gera línurnar skýrar fyrir kosningar felst ekki neitt yfirlæti um það að búið sé að frekjast til að ráðskast með atkvæði kjósenda eins og sumir halda nú fram. 

Þvert á móti er verið að leitast við að gefa kjósendum skýrar línur til þess að velja eða hafna og þannig vilja menn hafa það í flestum nágrannalöndunum. 


mbl.is Flokkarnir funda aftur á fimmtudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gyðingar, rómafólk og fatlaðir voru hinsegin fólk nasistanna.

Enginn maður fæðist vegna þess að hann hafi beðið um það eða borið ábyrgð á því. Ekkert mannsbarn ræður því í hvers konar líkama sál þess þarf að dvelja í jarðvistinni. 

Frá blautu barnsbeini þurfa þeir sem eru ekki "eins og fólk er flest" oft að þola einelti, sem er annað orð yfir stríðni, sem oft getur snúist upp í hreinar ofsóknir. 

Frá fyrstu árum í barnaskóla man ég eftir því að nemendur voru "hinsegin" máttu þola illkvitnislega stríðni og áreiti vegna þess að útlitið var ekki eins og hjá okkur hinum. 

Það er eins og það sé einn þáttur í hjarðeðli mannsins að finna einhverja sem hægt er sameinast um að ráðast á. 

Ein merkasta menningarþjóð Evrópu lét ofstækismann fylkja sér um ofsóknir gegn Gyðingum, rómafólki og fötluðum og heyja gereyðingarstríð gegn rúmlega tíu milljón manna þjóðflokki. 


mbl.is Bakslag komið í baráttu hinsegin fólks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband