"Engey, gulli slegin."

Steinþór Birgisson birtir þessa mynd á facebook með textanum: "Engey, gulli slegin." 

Í tilefni af því urðu til þessar hendingar: 

 

Það er ekki furða´að okkar þjóð sé afar fegin  /  

að ættin bæði og Engey séu gulli slegin. 

Engey, gulli slegin


Bílvelta varð, útafakstur varð, lögregluaðkoma varð...

Já, "bílvelta varð" segir enn í texta frétar í stað þess að segja einfaldlega: Bíll valt.

Í samræmi við það orðalag mætti halda fréttinn áfram og segja:

Stjórnunarmissir varð svo að útafakstur varð, ofanaíáhöfnun varð, því að hálkumyndun hafði orðið, lögregluaðkoma varð og undankoma varð frá meiðslum enda hafði bílbeltanotkun orðið.    


mbl.is Fór á hvolf ofan í Hvammsá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkuverðið er enn of lágt. Nú vantar Ketil.

Enn er langt frá því að undið hafi verið ofan af dagskipuninni leynilegu frá 1995 þegar Íslendingar sendu stóriðjufyrirtækjum heims tilboð, sem þau gátu ekki hafnað: "Lowest prices!", "Lægsta orkuverð!" og bætt var við: "Sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum." 

Stóriðjufyrirtækin komast áfram upp með það að borga allt of lágt orkuverð og nýjasta uppákoman varðandi raflínurnar fyrir norðan og kröfu fyrrverandi forsætisráðherra um að setja bráðbirgðalög sem hrindir því að farið sé að almennum lögum varðandi lagningu þeirra sýnir líka, að tilboðið um "sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum" er enn í gildi, þrátt fyrir það að við séum í orði kveðnu skuldbundin af alþjóðlegum sáttmálumm, svo sem Ríósáttmálanum frá 1992, um sjálbæra þróun og að náttúran skuli njóta vafans þegar um slíkt er að ræða. 

Þar að auki var þannig gengið frá samningi við Alcoa, að atriði hans um tekjuskattskil ganga í raun framar landslögum og tryggja, að fyrirtækið þurfi ekki að borga tekjuskatt af miklum gróða sínum í 40 ár. 

Hér á Moggablogginu hélt Ketill Sigurjónsson út svonefndu Orkubloggi, sem bar af að innihaldi vegna mikillar þekkingar og rannsóknarvinnu Ketils.

Ketill hafði mikinn áhuga á orkumálum og lengi vel sá hann þau í ljóma, en eftir því sem hann kafaði betur ofan í þau, komu fram atriði, sem voru stóriðjunni hér á landi ekki hagstæð.  

Álfyrirtækin hófu þá herferð á hendur Katli og tókst að hrekja hann í burtu með skrif sín með hótunum og ofbeldi.  

Hsns er sárt saknað, því að þekking hans var nauðsynleg og upplýsingarnar, sem hann veitt, oft ómetanlegar.  


mbl.is Raforkusamningurinn felur ekki í sér ríkisaðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draugur úr fortíðinni vakinn upp til heimabrúks?

Hvað skyldu vera liðin mörg ár síðan bráðabirgðalög voru sett á Íslandi?  Hvers vegna er svona langt um liðið? 

Það liggur í augum uppi. Þegar ríkisstjórnir þessa tíma settu bráðabirgðalög voru samgöngur allt aðrar og lélegri en nú er og því var hægt að fela ráðríki framkvæmdavaldsins á bak við það að ekki gæfist tími né aðstaða til þess að þingið fjallaði um viðkomandi mál. 

Allt aðrar aðstæður eru nú. Miðað við hve fáir þingmenn greiddu atkvæði með búvörusamningnum á dögunum ætti ekki að vera neinn vandi að kalla þing saman til að afgreiða þá lagasetningu sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson krefst nú að verði afgreidd. 

Töfin, sem hann telur að þar með yrði eytt við framkvæmdir vegna lagningar háspennulína handa stóriðju á Bakka, yrði í raun varla meira en örfáar vikur, - nú er að leggjast vetur að og hvort eð er ekkert unnið við línu frá og með seinni hluta nóvember og ekki byrjað aftur fyrr en í maí næsta vor.

Á sínum tíma þegar SDG tók við völdum í Framsókn var geipað þar mikið um bætt lýðræði og Framsóknarflokkurinn setti það sem skilyrði fyrir að verja minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur vantrausti að sett yrði á fót stjórnlagaþing til að semja nýja stjórnarskrá til að fá fram bætt og aukið lýðræði og fleiri umbætur. 

Krafa Sigmundar um að vekja upp gamlan, ljótan draug úr fortíðinni, til heimabrúks fyrir hann í kosningabaráttu er enn eitt dæmið um það hve óralangt hann er kominn í átt til einræðis- og ofríkistilburða framkvæmdavaldsins. 

En svona í lokin nokkur orð um annað áhugaefni okkar Sigmundar Davíðs, sem varðar annan draug úr fortíðinni, sem er fyrirhugaður bútasaumur þjóðarsjúkrahúss við Hringbraut:

Ég tel brýnt að horft sé nokkra áratugi fram í tímann varðandi þjóðarsjúkrahús framtíðarinnar hér á landi. 

Í sérstakri ferð til að skoða sjúkrahúsin í Osló og Þrándheimi í Noregi 2005 og ræða við lækna um þau blasti við að það var rétt sem sagt var við mig þar:  Sjúkrahúsið í Osló var reist á auðri lóð og er fyrirmynd sjúkrahúsa í Evrópu, en í Þrándheimi var ákveðið að taka upp svipaðan bútasaum og gert hefur verið á Íslandi. Það sjúkrahús sögðu Norðmenn vera "víti til varnaðar." 

Jafnframt því sem bráðnauðsynlegar framkvæmdir við Hringbraut verði ekki stöðvaðar ætti að kanna rækilega, hratt og vel, hve mikið hægræði og sparnað væri samt hægt að fá fram í heild á næstu hálfu öld og í framtíðinni með því að fara að dæmi Norðmanna varðandi þjóðarsjúkrahús. 


mbl.is Vill bráðabirgðalög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband