Tímanna tákn.

Það er tímanna tákn að forsetaframbjóðendurnir í Bandaríkjunum skuli báðir vera þeir óvinsælustu eða verst þokkuðu í sögu landsins. 

Deigla óróa, óánægju og óþol okkar tíma á líklega meiri þátt í þessu heldur en að þau Hillary og Trump séu svona arfa slæm. 

Þó verður að segjast að auðjöfur sem virðist hafa komið sér hjá því að borga tekjuskatt í átján en réttlætir það með því að hann sýni sínum nánustu ábyrgðartilfinningu og að hann sé óánægður hvernig skattpeningar eru notaðir, sýni merki siðblindu, auk þess sem margt annað sem hann hefur látið frá sér fara,  hefur vakið hjá manni hroll, enda sumt í svipuðum anda og náði flugi í aðdraganda Seinni heimsstyrjaldarinnar. 


mbl.is Clinton bætir við sig eftir kappræðurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vestrænt þjóðskipulag víðs fjarri í raun.

Eþíópía státar af glæsilegri fornaldarmenningu, allt frá tengslum drottningarinnar af Saba við Salómon hjá Ísrael.

Eþíópíumenn tóku kristni nokkrum öldum á undan Íslendingum og menning Koptanna svonefndu er svo rótgróin og heilög í landinu, að engu hefur skipt hvort alræðið var á vegum Haile Selassie keisara, kommúnistans Mengistus eða núverandi alræðisstjórnar.

Eþíópímenn þekkja ekkert annað en einræði og harðstjórn og í tveimur ferðalögum um landið, 2003 og 2006, kom vel í ljós hve órafjarri þetta snauða þjóðfélag er frá vestrænum þjóðfélögum.

Þá var hagkerfið álíka stórt og hagkerfi Íslands, þar sem næstum 300 sinnum færri íbúar eru.

Meðaltekjur hvers Íslendings á dag eru því kannski álíka og meðaltekjur hvers Eþíópíumanns á einu ári. 

 

Í fyrra ferðalaginu var flogið í einshreyfils vél um landið, en þá voru aðeins tíu einkavélar í landinu og flugbann á vissum svæðum.

Stjórnarherrarnir hafa gætt þess að halla sér að Bandaríkjamönnum og koma sér í svo mjög í mjúkinn hjá þeim, að bandaríski flughverinn gerði loftárásir að beiðni stjórnvalda á uppreisnarmenn Sómalíumegin við landmæri þess lands og Eþíópíu.

Nú hefur byrjað straumur erlendra fjárfestinga inn í landið sem býr yfir gríðarlegri jarðvarmaorku, en áhrif þessa verða kannski ekki alveg jafn jákvæð og ef þarna væri skaplegt stjórnarfar, heldur hugsanleg að það muni ýta undir ólgú á borð við þá sem nú hefur kostað mörg mannslíf.   


mbl.is Þriggja daga þjóðarsorg í Eþíópíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerðu fyrrum formenn Framsóknar?

Tryggvi Þórhallsson var forsætisráðherra jafnframt því að vera formaður Framsóknarflokksins 1927-32. 

Ágreiningur varð til þess að hann klauf flokkinn og stofnaði Bændaflokkinn 1933, sem bauð fram í kosningum 1934 og fékk þrjá þingmenn, en Tryggvi féll sjálfur fyrir hinum kornunga Hermanni Jónassyni. 

Jónas Jónsson frá Hriflu, líkast til stjórnmálamaður 20. aldarinnar, dómsmálaráðherra 1927-32, var afar umdeildur og kom sér þannig út úr húsi hjá mörgum, að Alþýðuflokkurinn gerði það að skilyrði 1934 að hann væri ekki í ríkisstjórn flokkanna tveggja og var hann þó formaður Framsóknarflokksins.

Jónas hafði áhrif bak við tjöldin við myndun Þjóðstjórnarinnar 1939 en varð samt ekki ráðherra og áhrif hans fóru dvínandi.

Var hann þó framsýnastur allra íslenskra stjórnmálamanna varðandi nauðsynlegt samstarf um öryggismál landsins við "Engilsaxa", Bandaríkjamenn og Breta. 

1944 hætti hann sem formaður flokksins, en sat áfram á þingi, bauð sig fram fyrir flokkinn 1946 í sínu heimakjördæmi Suður-Þingeyjarsýslu og sat á þingi til 1949.

Jónas klauf ekki flokkinn eins og Tryggvi Þórhallsson hafði gert, en nýtti sér sterka stöðu sína á heimaslóðum til að sitja á þingi.

Vangaveltur um það að Sigmundur Davíð eigi að kljúfa Framsóknarflokkinn og bjóða fram sér, eða að ganga til liðs við einhvert annað framboð, eru afar óraunsæjar.

Eins og staðan er nú veitir flokknum ekki af öllu sínu til þess að endurheimta það mikla fylgi sem hann hefur misst.

Ef staða Sigmundar Davíðs er jafn sterk og hún virtist vera í vali listans í Norðausturkjördæmi, sýnist skásti möguleiki hans vera: "If you can´t beat them, join them", það er, að taka þátt í því að auka fylgi flokksins og nýta sér jafnframt stöðuna á heimavelli.

Velja frekar viðbrögð Hriflu-Jónasar en Tryggva Þórhallssonar.

 

Gallinn er bara sá, að þegar litið er á sinnaskipti fjölda fulltrúa á flokksþinginu, til dæmis Ásmundar Einars Daðasonar, er ekki lengur jafn víst að þeir sem studdu SDG í Norðausturkjördæmi og veðjuðu á það, að þar með væru þeir að fá mann, sem gæti hyglað mörgum í kjördæminu í stíl við það sem hann hefur gert, kunna að byrja að efast í ljósi nýrrar heildarstöðu.

Því miður glutraði Sigmundur Davíð niður næstum hálfs árs umþóttunartíma til þess að gera upp við mistök sín og taka nýjan kúrs, heldur hélt fast við dramb, ofmat og samfellda afneitun og firringu allt fram til loka flokksþingsins örlagaríka.

  

 

 


mbl.is Svekktur yfir niðurstöðu kosninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband