Ekki hægt að kenna málþófi um.

Varla er hægt að kenna málþófi stórnarandstöðu eða annarra um það, þegar þingstörf virðast vera lömuð vegna þess að mál koma ekki fram hjá ríkisstjórninni og því ekki einu sinni hægt að beita málþófi.

Þegar litið er yfir tímann, sem ríkisstjórnin hefur haft undanfarin ár til að koma fram málum, sem hún viðraði í upphafi, en hefur ekki komið frá sér, er augljóslega eitthvað athugavert við samkomulagið innan stjórnarflokkanna sjálfra frekar en að aðrir standi í vegi fyrir því að mál séu afgreidd.

Að vísu má sjá á einni bloggsíðunni þá skýringu að Birgittu Jónsdóttur sé um að kenna, af því að hún fái ekki að ráða starfsáætlun.

Það er skrýtin sýn. Birgitta er bara að kalla eftir því að ríkisstjórnin komi fram með áætlun um aflgreiðslu mála sinna.  

Ekki liggur fyrir að Birgitta hafi borið fram kröfu um starfsáætlun sína, heldur biður hún bara um að ríkisstjórnin viðri sína. 

Það er erfitt að botna í því hvernig hægt er að kenna Birgittu um stöðu mála. 

 

P. S.  Annar síðuhöfundur heldur því fram að það sé hælisleitendum að kenna að lögreglunám var flutt í háskóla. Halló! Hvað næst?


mbl.is „Þetta er bara stjórnleysi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju eru málin ekki skoðuð hjá sambærilegum borgarsamfélögum?

Áður hefur verið greint frá því að gerð hafi verið skýrsla fyrir næstum 20 árum með áhugaverðum samanburði á 16 norrænum borgum, þar af 9, sem voru álíka stórar og Reykjavík. 

Það nýjasta í þessum efnum er mikið ferðalag til stórra borga til þess að leita samanburðar og læra af því sem þar er að gerast. 

En hvers vegna eru málin ekki skoðuð líka hjá sambærilegum borgarsamfélögum?

Auk borgarsamfélaga á stærð við Reykjavík á Norðurlöndum má líka finna borgir á stærð við íslenska höfuðborgarsvæðið sem væri áhugavert að skoða og bera aðstæður þar saman við aðstæður hér þegar leitað er lausna á mörgum sviðum.

 


mbl.is Skiptar skoðanir um borgarlínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tæknileg utanbrautarlending.

Lýsingin "...lenti utan brautar" getur skapað misskilning þegar um er að ræða að flugvél hafi farið fram yfir svonefndan þröskuld brautar í lok lendingarbruns, því að í slíkri lendingu hefur vélin snert braut löngu fyrr. 

Á flugvöllum er skylt að hafa brautarenda þannig, að skráð lengd sé styttri en brautin er í raun og veru. Innanlands eru 30 metrar lágmark, sé brautin innan við 800 metra löng, en 60 metrar, sé hún 800 metrar eða lengri. 

Ástæðan fyrir mismunandi lengd er sú, að þær flugvélar sem geta lent á 799 metra löngum brautum eða skemmri, lenda yfirleitt á minni hraða en þær flugvélar, sem verða að nota lengri brautir, og skekkja í lendingarbruninu verður því ekki eins stór í metrum talið og skekkja sama eðlis hjá stærri flugvélum. 

Ekki er gert ráð fyrir því að þessir brautarendar séu reiknaðir eða notaðir í lendingum, heldur er hér aðeins um varúðaratriði að ræða til þess til þess að eiga upp á eitthvað að hlaupa, ef lendingarbrun verður lengra en reiknað var með, og til að tryggja að flugstjórar reikni ekki með fullri lengd þegar þeir ákveða að lenda á viðkomandi brautum. 

Svonefndir þröskuldar eru merktir á sérstakan hátt með ljósum en brautin engu að síður auð svo að hægt er að aka eftir henni yfir "þröskuldinn" ef svo ber undir.

Ágætt dæmi um þröskuld, sem er alllangt inni á braut er þröskuldurinn í aðflugi til vesturs á austur-vestur braut (13/31) á Reykjavíkurflugvelli.  

Hann er um 200 metra inni á brautinni vegna þess að aðflugið á stórum flugvélum er nokkuð bratt og hátt af því að flogið er yfir öxl Öskjuhlíðarinnar. 

Auðvelt væri að lenda minnstu flugvélum austan við þröskuldinn, en eitt verður þó yfir alla að ganga. 

Svo einkennilegt, sem það kann að virðast, eru skráðar lengdir brauta ekki alltaf þær sömu í báðar áttir á sömu braut. 

Á Sauðárflugvelli er til dæmis ein brautin, 18/36, skráð 160 metrumm styttri en hún raunverulega er. 

Ástæðan er sú að á norðurendanum er lítilsháttar alda á brautinni, sem getur verið varasöm í lendingu til suðurs á fullum lendingarhraða en kemur ekki að sök í flugtaki til suðurs, af því að í upphafi flugtaksbruns er hraði flugvéla mun minni en í upphafi lendingarbruns í sömu átt.

Í praxis er brautin því 770 metrar í flugtaki til suðurs og lendingu til norðurs, en 640 metrar í lendingu til suðurs.   

 


mbl.is Þota WOW lenti utan brautar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brenglað raunveruleikaskyn.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði lítið sem ekkert við blaðamenn þegar úrslit voru ljós á flokkþingi Framsóknarmanna og hann strunsaði fljótlega út, en þó var haft eftir honum að úrslitin hefðu komið sér mjög á óvart.

Augljóst var að hann hafði einfaldlega ekki gert ráð fyrir þeim möguleika að hann myndi tapa fyrir Sigurði Inga, svo mjög höfðu úrslitin í Norðausturkjördæmi villt um fyrir honum um hina raunverulega stöðu hans. 

Hann virðist hafa haldið að rétta leiðin til að ná upp fyrri styrk væri að einblína á það að fá sem flesta til fylgis við sig með öllum mögulegum ráðum og vanrækja bæði þingstörf og það að taka gjörðir sínar til rækilegrar endurskoðunar. 

Í staðinn lifði hann í afneitun og ofmati í það tæplega hálfa ár, sem Sigurði Inga hafði tekist að fá handa honum til að ná áttum. 

Framkoma hans í upphafi eftirminnilegs sjónvarpsþáttar með leiðtogum flokkanna afhjúpaði, að afneitunin fór vaxandi en ekki minnkandi, og allt fram í upphaf flokksþingsins réði hún orðum hans og gerðum. 

Hann ofmat stöðu sína æ meira, kenndi öðrum um allt sem miður fór, sá samsæri gegn sér í hverju horni og brást við með frekju og oflæti sem urðu honum að falli. eins og úrslitin í formannskosningunni bera glöggt með sér. 

Sigmundur Davíð býr yfir mörgum góða hæfileikum og er enn á besta aldri og gæti þess vegna átt eftir að vinna mörg ágæt verk á ýmsum sviðum. 

En hegðun hans minnir því miður um margt á hegðun fíkla, í þessu tilfelli valdafíkils, sem þurfa að fara í meðferð til þess að skoða allt frá rótum, rífa niður og fjarlægja það, sem hefur brenglað sýn og afvegaleitt hegðun, og byggja sig upp að nýju á traustum grunni. 


mbl.is Heppilegra ef Sigmundur hefði talað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband