Þjóðstjórnin 1939-42 var við allt aðrar aðstæður en nú, neyðarstjórn.

Þegar Þjóðstjórnin svonefnda var mynduð í apríl 1939 hrönnuðust óveðursský upp á himin evrópskra stjórnmála. Þjóðverjar sviku Munchenarsamningana og tóku Tékkóslóvakíu og Ítalir réðust inn í Albaníu og lögðu hana undir sig. 

Stórveldin í Evrópu vígbjuggust af ofurkappi. 

Vegna lokunar saltfiskmarkaðar á Spáni náði heimskreppan nýrri lægð á Íslandi þetta ár og ríkissjóður var á barmi gjaldþrots. Sagt var að hinn enski Hambros banki ætti landið í raun. 

Neyðarástand blasti við ef allt færi á versta veg. 

Þjóðverjar báðu íslensk stjórnvöld formlega fá aðstöðu á Íslandi til flugs yfir Atlantshaf, og hefði það verið samþykkt á svipaðan hátt og aðrar þjóðir létu undan kröfum Hitlers, er hugsanlegt að rás atburða hefði orðið geigvænleg. 

Sem betur fór hafði íslenska ríkisstjórnin góðan ráðgjafa í flugmálum, Agnar Koefoed-Hansen, sem var öllum hnútum kunnugur í fluginu í Evrópu, hafði flogið bæði í Noregi og með Lufthansa í Þýskalandi og var þar að auki svo kunnugur innstu koppum í búri hjá nasistum, að litlu munaði að hann færi í einvígi í skotfimi á einni samkomu þeirra við sjálfan Heydrich! 

Agnar reyndist Hermanni Jónassyni hollráður þegar hann sagði, að Íslendingar yrðu að hafna beiðni Þjóðverja, annars myndu stórfelldar framfarir í flugvélasmíði verða til þess að landið drægist beint inn í yfirvofandi styrjöld.

Þótt það merkilegt erlendis að hin litla þjóð hefði staðið uppi í hárinu á Hitler þegar fréttist af neitun Íslendinga. 

Allir þingmenn á Alþingi nema 3 þingmenn kommúnista studdu því þjóðstjórn og þjóðstjórnir voru líka myndaðar í nágrannalöndunum. 

Aðeins einu sinni síðan hefur tillögu um þjóðstjórn á neyðarstundu verið varpað fram. 

Það gerði Davíð Oddsson, þáverandi Seðlabankastjóri þegar bankarnir féllu í októberbyrjun 2008.

Slíkt hefði verið neyðarúrræði í stíl við Neyðarlögin svonefndu. 

Hugmynd Davíðs var kaffærð í fæðingu. 

Þjóðstjórn nú er alls ekki tímabær enda engin neyð yfirvofandi eins og er. 1942 þegar Þjóðstjórnin sundraðist, var hættan á innrás Þjóðverja liðin hjá og landið tryggilega á valdi Bandaríkjamanna og Breta. 

Minnihlutastjórn Ólafs Thors sat mest allt árið 1942 og utanþingsstjórn 1942-44. 

 

 


mbl.is Hugsanlega þörf á þjóðstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkustu dagar sjálfstæðisbaráttunnar, 1. desember 1918 og 15. maí 1941.

Með gildistöku Sambandslaganna 1. desember 1918 rann upp fyrsti dagurinn í sögu þjóðarinnar síðan 1262 sem færði henni rétt til að segja sig úr sambandi við Danmörku og stofna lýðveldi. 

Fram að því hafði það verið óframkvæmanlegt. 

Þess vegna er 1. desember 1918 að mörgu leyti mikilvægari en 17. júní 1944 og á ekki skilið að hafa þokast jafn mikið í skuggann fyrir lýðveldisdeginum og orðið hefur. 

Fullveldið 1918 tryggði samt ekki stofnun lýðveldis eftir 25 ár, því að til þess þurfti atbeina þjóðarinnar þegar þar að kæmi, og lyktir gátu líka orðið þær að þjóðin nýtti sér ekki þennan rétt eða frestaði því að nýta sér hann. 

En 15. maí 1941 samþykkti Alþingi að segja upp sambandslögunum, rifta konungssambandi Danmerkur og Íslands og stofna lýðveldi í framhaldinu. 

Þetta var stórmerkur dagur, því að eftir þetta varð ekki aftur snúið og því grundvallarmunur á þessu og heimildinni, sem Sambandslögin höfðu gefið til uppsagnar og sambandsslita.  

 


mbl.is Íslandsklukkunni hringt 16 sinnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eggjabrandarinn heldur áfram. "Vistvæn landbúnaðarafurð." Djók.

Í morgun fékk ég mér eitt egg og sá þá á umbúðunum, að um var að ræða "vistvænt egg" og bæði utan og innan á umbúðunum sýnt þetta líka fína "viðurkennda" gæðamerki um þetta, eins og sést á meðfylgjandi myndum. Bónus egg

Þó var upplýst af ráðherra í Kastljósi að umrædd gæðavottun hefði aldrei verið í gildi og það meira að segja auglýst rækilega fyrir framleiðendum og seljendum. 

Sá brandari, sem felst í því að auglýsa "vistvæn egg" með sérstakri gæðavottun hefur því ekki aðeins verið í gangi síðustu árin, heldur er hann áfram í gangi.

Og ekki var annað að ráða af orðum ráðherra í Kastljósi í gær en að eggjaframleiðendum hefði ekki verið bannað að nota vottunarmerkið góða.

Hins vegar myndu þeir gera það á eigin ábyrgð án afskipta ráðuneytis.  Bónus egg (4)

Ef það heldur áfram og því kannski borið við, að það taki tíma og kosti peninga að breyta um áletranir á umbúðunum má geta þess að það er bæði afar einfalt og ódýrt að líma sérstaka miða utan á umbúðirnar:  

Nefnd vottun um vistvæna framleiðslu er ekki og hefur ekki verið gild.Bónus egg (2)

Eða að setja pínulítinn miða á viðeigandi staði með orðinu 

"djók!"

Vistvæn landbúnaðarafurð. Djók. 


mbl.is Segir Hringrás hafa brotið reglur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnst ein frétt á hverjum degi.

Þessa dagana dynur yfir að minnsta kosti ein frétt á hverjum degi um það hvernig bláeyg trú á það að gefa markaðsöflum sem lausastan taum leiðir til þess að undanbrögð af ýmsu tagi viðgangast, stundum jafnvel árum saman með tilheyrandi óréttlæti og misferli. 

Þessi trú á eftirlitsleysi, sem meðal annars skóp banka- og efnahagshrun fyrir átta árum, er svona svipuð eins og að í sparnaðarskyni væri hætt að hafa dómara á íþróttamótum og kappleikjum. 

Í dag fjallar fréttin um undanbrögð í formi gerviverktöku til að komast hjá því að borga opinber gjöld við byggingu kísilmálmverksmiðju og ná sér þannig í illa fengna markaðsstöðu gagnvart samkeppnisaðilum auk þess að hlunnfara opinbera íslenska sjóði. 

Í gær var það stanslaus síbylja okkar Íslendinga um hlut endurnýjanlegra orkugjafa í raforkuframleiðslu, sem haldið er að okkur sjálfum og allri heimsbyggðinni til þess að gefa okkur álit og aðstöðu út á við á kostnað annarra þjóða, þegar málið er skoðað ofan í kjöldinn. 

Í gær og undanfarna daga hafa verið daglegar fréttir af áralangri linkind varðandi eftirlit með blekkingum í samkeppni á eggjamarkaði. 

Í bruna á svæði Hringrásar, einum af sjö brunum á fáum árum, kemur í ljós að reglur um svæðið hafa verið gróflega brotnar og í engu sinnt tilmælum um að bæta úr því. 

Svona mætti halda áfram að rekja þessi fyrirbæri aftur í tímann og líklegast verður hægt að gera það áfram. 


mbl.is Skákað í skjóli gerviverktöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmi eru um mjög hraðar loftslagsbreytingar.

Hið versta við það, hvernig Donald Trump og fleiri afneita loftslagsbreytingum af mannavöldum er, að það eitt að mannkynið ruggi bátnum í þessum málum eins hressilega og gert er með mesta koltvísýringsmagni í lofthjúpnum í 800 þúsund ár, getur valdið ófyrirsjáanlegum keðjuverkunum sem leiða til miklu verri og hraðari breytinga um alla jörðina en hægt er að sjá fyrir. 

Þannig hlýnaði loftslag ógnarhratt þegar síðastu ísöld lauk fyrir 11 þúsund árum, og á sama hátt getur mjög hröð kólnun orðið á einstaka svæðum vegna truflana í hafstraumum, svo sem þegar mikið af tæru bráðunarvatni jöklanna truflar salta sjávarstrauma á borð við Golfstrauminn þannig að þeir sökkva og streyma ekki eins langt eftir yfirborðinu og áður. 

En það er fyrst og fremst snerting loftsins við yfirborð sjávar, sem hefur áhrif á lofthitann, eins og sífellt hefur mátt sjá glögglega í allt haust vegna hlýs sjávar fyrir Norðurlandi. 


mbl.is Kóralrifið „soðnaði“ í hlýindunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband