Verkstjórnin mikilvægust?

Fleyg urðu ummæli Jóns Gnarr borgarstjóra þegar hann var spurður um stefnu hans í flugvallarmálinu og hann sagðist ekki vera með hana á takteinum, - hann hefði enga reynslu af að flytja flugvöll.

Reynsla af stjórnarmyndunum er afar takmörkuð eða engin hjá formönnum flokkanna og þess vegna gætu þeir líklega gefið svipað svar og Jón Gnarr um það mál.  

Í fróðlegu viðtali, að mig minnir á Hringbraut, við Jón Baldvin Hannibalsson, sem er eldri en tvævetur í pólitík, rakti hann á afar áhugaverðan hátt stjórnarmyndunartilraunir 1987 og 1988 og taldi að misgóð verkstjórn stjórnmálamanna hefði ráðið úrslitum um það hvaða tilraunir tókust og hverjar ekki. 

Hann minntist ekki á stjórnarmyndunartilraunirnar 1974 þegar Geir Hallgrímsson fékk stjórnarmyndunarumboðið fyrstur eftir góðan sigur Sjálfstæðisflokksins. 

Vinstri stjórn Ólafs hafði sprungið og það virtist augljóst að Framsókn hefði brennt sig á því samstarfi og myndi því fara í stjórn með Sjálfstæðisflokkunum.

En viðræður þessara flokka fóru út um þúfur. 

Ólafur Jóhannesson fékk þá umboðið og einhenti sér í að klára það verk sem Geir hafði mistekist. 

Ólafur gerði ekki að skilyrðí að verða forsætisráðherra, heldur urðu lyktir þær að Geir varð það. 

En staða Ólafs styrktist engu að síður og gárungar töluðu um það að hann hefði myndað stjórnina fyrir Geir. 


mbl.is Viðreisn og Björt framtíð með lykilinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gallar upplýsingarflóðsins.

Ekki þarf að fjölyrða um kosti byltingarinnar í upplýsingamiðlun og notkun samfélagsmiðla á netinu.

En gallarnir eru líka stórir eins og sést á frétt á mbl.is um útbreiðslu uppdiktaðra upplýsinga.

Í vöxt fer stórfelld dreifing upploginna frétta og upplýsinga sem erfitt getur verið að kveða niður þegar hagsmunaaðilarnir, sem dreifa oft þessum upplýsingum, eru fjárhagslega öflugir og geta í krafti magns og síbylju kaffært það sem sannast er vitað.

Þannig eru ekki nema eitt til tvö ár síðan mokað var inn athugasemdum íslenskra kuldatrúarmanna í athugasemdum og langhundum "staðreyndum" og álitum "virtra vísindamanna og vísindastofnana þess efnis að hafísinn á Norðurheimskautinu væri í örum vexti og stefndi í met í þeim efnum.

Einnig var dreift þeim upplýsingum og staðreyndum sem sýndu, að loftslag á jörðinni "færi hratt kólnandi."

Þessar raddir hljóðnuð aðeins í bili, en þó kom grein í Morgunblaðinu nú í haust í þessa veru og margar greinar voru skrifaðar fyrir tæpu ári um 40 þúsund fífl, sem hefðu varið á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París um loftslagsbreytingar.

Nýleg frétt um yfirburði Íslands yfir allar þjóðir heims varðandi notkun endurnýjanlegra orkugjafa til raforkuframleiðslu er hluti af þessu fyrirbrigði og réttar upplýsingar um eðli jarðvarmavirkjana eru einfaldlega þagaðar í hel og hinu gagnstæða stanslaust haldið fram.


Norður-Dakota - Gálgahraun, athyglisverður samanburður.

Bandarískur sérfræðingur í jarðvarmavirkjunum líkti Yellowstone, lang orkumesta jarðvarmasvæði Norður-Ameríku, við "heilaga jörð" (sacred earth) þar sem aldrei yrði, svo mikið sem einn hver af 10 þúsundum, snertur þótt svæðið byggi yfir óheyrilegri orku. 

Utan um Yellowstone er verndarsvæði, "Great Yellowstone", sem er álíka stórt og allt Íslands. 

Á því svæði verða aldrei heimilaðar boranir. 

Hvorki það svæði né sjálfur þjóðgarðurinn Yellowstone flokkast sem eitt af helstu náttúruundrum veraldar, en hins vegar er hinn eldvirki hluti Íslands í þeim flokki. ("Iceland is a land like no other.") 

Vopnlausar og friðsamar aðgerðir aðgerðasinna á merkilegu svæði frumbyggja í Norður-Dakota hafa nú staðið í marga mánuði. Þar mætast annars vegar valdatæki þess kynstofns sem braut undir sig lands annars kynstofns með ofbeldi, vopnavaldi og fyrirlitningu sem staðið hefur til þessa dags.  

Fróðlegt er að bera þær saman við veru aðgerðarsinna í Gálgahrauni í rúman mánuð haustið 2013. 

Þar er um að ræða fremsta hluta eins merkilegasta hrauns Reykjanesskagans, Búrfellshraun, sem rann eftir ísöld úr Búrfellsgjá, eldgíg með magnaðri tröð, fyrir austan Garðabæ, niður í botna Skerjafjarðar og Hafnarfjarðar. 

Í landi Hafnarfjarðar og Garðabæjar er búið að raska þessu mikla og magnaða hrauni verulega, en þegar Gálgahraunsdeilan hófst, var um að ræða að verja allra fremsta hluta hraunsins þar sem það fellur ofan í Skerjafjörð og um hraunið liggja nokkrar fornar gönguleiðir og minjar á sagnaslóðum með nöfnum, sem minna á sögu þeirra, fólksins í nágrenni forsetasetursins og fyrrum aðsetur valdhafa landsins og athafna þeirra; Fógetastígur, Sakamannastígur, Garðastekkur o. s. frv.

Þar var aftökustaður eins og nafnið Gálgahraun bendir til. 

Í stað þess að leita auðveldra leiðar fyrir veg út á nesið með því að laga vegarstæði vegarins, sem annaði fyllilega umferð út á nesið og vel það, var ákveðið að blása til eins sakamáls í viðbót við hin gömlu í Gálgahrauni, með því að ráðast með 60 lögreglumönnum, vopnuðum handjárnum, úðabrúsum og kylfum gegn rúmlega 20 manna hópi fólks, sem sat hreyfingarlaust á ómerktu svæði í hrauninu. 

Fólkið var tekið með valdi, sumt handjárnað og jafnvel misþyrmt, því hent eins og sláturfé inn í fangaflutningabíl, þar sem íslenskar reglur um notkun bílbelta voru brotnar, og það fært í fangaklefa. Allt yfirbragð aðgerðanna þrungið fyrirlitningu og því að niðurlægja þetta fólk.

Auk sveitarinnar var stefnt gegn þessu fólki, sem sannanlega hafði aldrei gerst sekt um óspektir né neitt saknæmt, sumt orðið aldrað, stærsta skriðbeltatæki landsins, sem strax í kjölfar lögregluaðgerða var látið böðlast yfir tveggja kílómetra langt fyrirhugað vegstæði til þess að eyðileggja hið ósnortna hraun sem tryggilegast á sem skemmstum tíma og koma þannig í veg fyrir að hægt væri að ljúka lögbannsmáli þar sem ósnortið hraunið og söguslóðir þess var andlag. 

Með því að eyðileggja andlagið var lögbannsmálið líka eyðilegt. 

Í náttúruverndarlögum er ósnortið hraun, jafnvel þótt ekki sé sögulega merkilegt, sérstaklega verndað. 

Skoðum síðan það sem hefur gerst í Norður-Dakota. Þar hafa aðgerðir af svipuðum toga staðið margfalt lengur en í þær stóðu í Gálgahrauni. 

Ef bandarísku aðgerðirnar hefðu verið í samræmi við ofstopann og offorsið í Gálgahrauni, væri fyrir löngu búið að senda mörg þúsund manna her og skriðdreka gegn fólkinu í Norður-Dakota og ryðjast með skriðbeltatækjunum um leið fyrirhugaðrar olíuleiðslu og umturna þar öllu sem allra mest. 

Þó eru landslag og aðstæður þannig vestra, að hægt væri að bæta fyrir slíkar aðgerðir, en aldrei að eilífu verður hið ósnortna svæði, sem rústað var í Gálgahrauni, endurheimt. 

Já, samanburðurinn á þessum tveimur málum er athyglisverður og er þó ímyndin um vægðarlausa hörku lögreglu í Bandaríkjunum orðin ansi sterk. 

Það er nefnt að í málinu í Norður-Dakota hafi kjörinn forseti Bandaríkjanna átt peningalegra hagsmuna að gæta fram að þessu. 

Upplýsingar um hagsmuni í Gálgahraunsmálinu í DV á sínum tíma voru af svipuðum toga. 

 

 

  

 


mbl.is Hermenn til liðs við mótmælendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband