Gömul staka rifjast upp: "Æðstu menn alveg sér gleyma..."

Við að fylgjast með umræðum um hæstaréttardómara rifjast upp staka, sem varð til hér um árið, þegar í ljós kom að handhafar forsetavalds höfðu sankað að sér tollfrjálsu áfengi í svo miklu magni, - í hundraðatali, -  þegar forsetinn fór til útlanda, að þáverandi forseti hæstaréttar sagði af sér og forseti Alþingis var í vanda með að útskýra fjölda flasknanna sem höfðu ratað til hans.

Þá varð þessi vísa til.

 

Æðstu menn alveg sér gleyma, - / 

áfengi hamstra og geyma, - / 

en fengju sér færri / 

flöskur og smærri  / 

ef Vigdís hún væri´alltaf heima.  


mbl.is Segja Markús ekki hafa farið að reglum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lúlli Karls var líka ótrúlegur.

Það er búið að nefna það hérna á síðunni hve ótrúlegur golfárangur Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur er, og beina útsendingin og myndirnar sem bárust frá keppninni staðfestu það. Skal ítrekuð aðdáun mín á henni og hennar mikla afreki. Lúlli Karls á bikini og sandölum

Fyrir tilviljun þótti ýmsum það full ótrúlegt á sama tíma, að í Ferðastiklum í gærkvöldi skyldi vera sagt frá ótrúlegu uppátæki Lúðvíks heitins Karlssonar við glóandi rennandi hraunstraum úr eldgígum við Heklurætur sumarið 1970, hvernig hann hljóp eftir örþunnri sjóðheitri skán á yfirborði hraunstraumsins og stökk af skáninni þegar farið var að rjúka úr sandölununm!

Gleymi aldrei veinunum og skrækjunum í þýsku kellingunum, sem stóðu þarna í hóp og horfðu á þessi ósköp!

En síðan bárust mér í morgun óvænt tvær ljósmyndir sem Leifur Magnússon tók.

Efri myndin er tekin skammt frá vettvangi hraunstraumskánarhlaupsins upp við Heklurætur og sést á myndinni að einhver að vísu lánað Lúlla bol, og hann er kominn með fáránlega kollu á hausinn, en á myndinni sést líka að hann er berfættur í sandölum og í neðri hluta af bikini, og á þessu tvennu, sandölunum og bikininu hljóp hann sitt fáránlega hlaup.Lúlli Karls að setja bensín á TF-GIN

Ég stend við bíl minni, R-7670, sem var Fiat 850, en í baksýnn sést blár Bronkó, væntanlega bíllinn sem Lúlli var á. 

Takið eftir hraunmylsnunni, sem Lúlli stendur á berfættur eins og indverskur fakír.

Nú rifjast upp fyrir mér að mér fannst það ekki síður merkilegt hvernig hann gat sprangað um berfættur á hinni egghvössu hraunmöl.

Hugsanlega voru sandalarnir orðnir ónýtir ef myndin er tekin eftir hlaupið!

Mörg uppátæki og ævintýrir Lúlla voru jafn lygileg og spunasögur þessa óviðjafnanlega sagnameistara sem tókst oft að spinna þannig í frásögnum af eigin ævintýrum að maður trúði að lokum öllu í krafti orða Indriða G. Þorsteinssonar, að góð saga megi ekki líða fyrir sannleikann! 

Á neðri myndinni af bensínddælingu niðri á Helluflugvelli sem Lúlli hjálpaði mér við, er klæðaburður minn lítt skárri en Lúlla, ég er uppáklæddur í dökk sunnudagajakkaspariföt með lakkrísbindi, en í hvítum strigaskóm.  

Flugvélin var sú fyrsta í minni eigu, TF-GIN, sem enn er til, en hana notaði ég til að draga svifflugur á loft á Íslandsmótinu á Hellu 1970 og eru ýmsar sögur til af því. 

   


mbl.is Ótrúlegt afrek hjá Ólafíu Þórunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir svolítið á þingsköpin hér.

Á Alþingi hefur verið við lýði grein, sem heimilar að langdregnar umræður séu stöðvaðar og gengið til atkvæða. Svo langt er síðan þessari grein hefur verið beitt að hvorki ég né aðrir muna nákvæmlega eftir því hvenær það var gert. 

Vegna þessarar tregðu á að beita heimildinni hefur málþóf viðgengist og stundum tafið störf þingsins um of. 

Á kjörtímabilinu 2009-2013 kom til umræðu á útmánuðum 2013 að beita greininni en af því að þáverandi stjórnarmeirihluti skynjaði, að hann myndi lenda í stjórnarandstöðu eftir kosningarnar, annað hvort báðir flokkarnir eða annar þeirra, varð ekki úr því að 77. greinin yrði notuð. 

Í fyrra kom til umræðu hjá stjórn Framsóknar og Sjalla að beita ákvæðinu en það var ekki gert, enda lá í loftinu að stjórnin myndi missa meirhluta sinn í næstu kosningum og þá væri vissara að hægt yrði fyrir báða flokkana eða annan, að geta beitt málþófi. 

Þegar Sigurður Ingi Jóhannsson varð forsætisráðherra í vor, voru hins vegar tekin upp vinnubrögð samstarfsvilja og málamiðlana og við slík skilyrðí varð málþóf óþarft og sömuleiðis engin ástæða til að íhuga beitingu 77. greinarinnar. 

Hliðstætt ástand gildir stundum í samskiptum Bandaríkjaþings og forseta landsins, og báðir stóru flokkarnir vilja horfa til framtíðar varðandi möguleikana á að þingið eða hluti þess geti tafið fyrir forsetanum í einstökum málum ef svo ber undir. 


mbl.is Demókratar ætla að gjalda líku líkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sami vandi og hér á landi?

Þegar minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við völdum í febrúarbyrjun 2009 gerðu þingmenn Framsóknarflokksins það að skilyrði, að löggjöf yrði samin um stofnun sérstaks stjórnlagaþings, sem gerði það, sem Alþingi hafði mistekist í meira en 60 ár, að efna loforð landsfeðranna 1943-44 um að Íslendingar sjálfir semdju alveg nýja stjórnarskrá í samræmi við draum Jóns Sigurðssonar á Þjóðfundinum (stjórnlagaþinginu) 1851. 

Þegar farið var í það að efna loforð stjórnarinnar í þessu efni kom fljótlega í ljós að hugur fylgdi ekki máli, því að Alþingi vildi eftir sem áður ekki gefa neitt eftir mað það vald sem það hafði og hefur enn varðandi stjórnarskrárbreytingar. 

Á komandi ári verða fimm ár liðin frá því að tveir þriðju hlutar atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá stjórnlagaráðs féllu á þá lund að hafa skyldi stjórnarskrá Íslands í samræmi við þetta frumvarp. 

Þegar litið er til upphafs stjórnarskrármálsins íslenska árið 1851 hefði mátt ætla að tekið yrði tillit til úrslita þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu.

En hinu íslenska þingi hefur tekist það sem hvorki Bretar né Ítalir hafa látið sér til hugar koma að gera, að hunsa þjóðaratkvæðagreiðsluna þannig að málið hefur í raun ekki þokast spönn. 

Hjá Bretum og Ítölum var þetta öðruvísi. Viðkomandi forsætisráðherrar sögðu af sér og þegar litið er á vanda Breta, er hann ekki vegna vilja þingsins til að hunsa úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar, heldur vegna lagatæknilegrar útfærslu á að fara að þjóðarviljanum, eins og hann kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni. 

Á Ítalíu eru þetta skýrt: Forsætisráðherran sagði af sér og úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar verða skilyrðislaust virt. 

Nú verður fróðlegt að fylgjast með framvindu málsins hjá Bretum og hvort það stefni í íslenskt ástand þar á bæ. 

 

 


mbl.is Brexit til meðferðar í Hæstarétti í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband