Hætta á óförum hjá flokkunum fimm ef þeir ná ekki saman.

Það er sígilt fyrirbrigði í átakamiklum stjórnmálum og hernaði að þegar margir hafa sameinast um að fella einn sterkan óvin, brestur á ósætti og sundrung hjá sigurvegurunum sem geta ekki komið sér saman um hvernig vinna eigi úr sigrinum og missa þar með tökin. 

Ágætt dæmi er þegar veldi Napóleons Bonaparte veiklaðist svo mjög eftir hina misheppnuðu herför til Rússlands, að hann hrökklaðist frá völdum og fór í útlegð.

En gullið tækifæri sigurvegaranna rann þeim úr greipum vegna þess að þeir gátu ekki komið sér saman um hvernig ætti að vinna úr sigrinum.

Þegar þetta ástand hafði varað nógu lengi, greip Napóleon tækifærið og marseraði til Parísar fyrirhafnarlaust til að taka völdin þar að nýju.

Hersveitir, sem sendar voru á móti honum til þess að handtaka hann, gengu í lið með honum.

Ef flokkarnir fimm, sem tóku meirihlutann á þingi af Sjöllum og Framsókn, klúðra tækifærinu til að mynda ríkisstjórn í stað þeirrar, sem nú er minnihlutastjórn, er hætta á að stór hluti þeirra kjósenda sem kusu þessa fimm flokka, finnist þeir hafa verið snuðaðir um valdaskipti.

Á þessum grunni er hugsanlegt að Bjarni Benediktsson byggi stóiskt svar sitt um að nýjar kosningar verði engin katastrófa.

Í kosningabaráttunni fyrir slíkar kosningar mynd hann hamra á ímynd Sjálfstæðisflokksins sem kjölfestu og bera þá ímynd saman við "sundrungarliðið" sem ekki geti myndað stjórn eins og dæmið hafi sannað.

Þótt út af fyrir sig sé rétt hjá Pírötum að kosningarnar um daginn hafi verið haldnar vegna Panamaskjalanna, er hætt við að kjósendur séu fljótir að gleyma því þegar þeir horfast í augu við veruleikann í núinu.

Og hugsanlega munu Píratar sjá eftir því að hafa útilokað Framsóknarflokkinn fyrirfram vegna hins eitraða Wintris-eplis í flokknum.

Það var nefnilega með samvinnu við Sigurð Inga Jóhannsson og fleiri Framsóknarmenn sem tókst að afgreiða að mestu án vandræða ýmis mál í sumar og haust, þar sem það kom sér vel að grasrótin í þessum aldar gamla flokki er meðvituð um félagslegar þær félagslegu áherslur sem enn má finna í stefnu hans.

Eftir kosningarnar 1978 sáu forystumenn A-flokkanna að útilokað var að mynda ríkisstjórn án þáttöku annað hvort Sjalla eða Framsóknar.

Þeir völdu Framsókn af því að hún var nær miðju en Sjallarnir og fyrirfram var enginn möguleiki á stjórnarsamstarfi útilokaður.  


mbl.is Kosningar „engin katastrófa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskt sleifarlag gott afspurnar?

Allir eiga að vera jafnir fyrir lögunum samkvæmt íslensku og vestrænu réttarfari. Sé sleifarlag landlægt á því sviði hér á landi ættu því allir landsmenn að vera jafnir fyrir því. 

En það er spurningin hvort þetta eigi við þegar um útlendinga er að ræða, því að landkynningin sem slíkt hefur í för með sér getur orðið býsna þung í skauti, þótt við sjálf látum ýmislegt yfir okkur ganga.

Í þessu ljósi má vel skoða það þegar erlent ferðafólk kvartar yfir sleifarlagi yfirvalda eins og greint er frá í tengdri frétt á mbl.is

Raunar ætti sexföld fjölgun ferðamanna á sex árum að vera okkur áminning um að hreinsa til hjá okkur á ýmsum sviðum þar sem viðgengist hafa  sleifarlag, kæruleysi og á stundum hrein undanbrögð.

Annars er hætt við að áhrifin á útlendinga geti slegið hressilega á orðstír lands og þjóðar, sem hægt er að yfirfæra í gríðarlega fjármuni í formi glatðaðrar viðskiptavildar.  


mbl.is Kvarta yfir seinagangi yfirvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein atlagan að Benz-BMW-Audi.

Á síðustu 40 árum hafa þrjú þýsk gæðamerki, Benz, BMW og Audi verið í stöðu eins konar þriggja tinda í gerð lúxusbíla. 

Ekki verður tölu komið á þær atlögur sem Citroen, Renault, Peugeot, Jagúar, Toyota, Ford, GM og Volkswagen hafa gert að stöðu þrístirnisins þýska.

Dæmi um misheppnaðar tilraunir til að tylla lúxusbílum á toppinn voru Opel Kapitan, Cadillac Brougham, Lincoln Town Car og Citroen XM. 

Alvarlegasta atlagan var gerð 1990 með Lexus lúxusbíl Toyota, en sú atlaga sendi hönnuði og bílasmiði Mercedes-Benz á harðahlaupum að teikniborðunum til að að þróa andsvar.

Síðan þá hefur Lexus verði gjaldgengur, til dæmis sem þjóðhöfðingjabíll eins og hér á Íslandi.

Volkswagen Phaeton var gæðabíll en mistókst að hreiðra um sig í hópi hins útvalda þríeykis.

Heitið Volkswagen vinnur auk þess gegn ímynd lúxusbíls, svo að ólíklegt er að Arteon komist á verðlaunapall lúxusbíla í Þýskalandi. 

Volkswagen verður líklega að láta sér það nægja að eiga Audi-verksmiðjurnar og rækta Audi A8 sem best. 

Passat hefur aldrei verið skilgreindur sem lúxusbíll heldur sem "obere mittelklasse" í Þýskalandi.

 


mbl.is Arteon - nýtt toppmódel frá VW
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrslitakostir BNA gerðu árás Japana óhjákvæmilega.

Sigurvegarar skrifa oftast söguna af styrjöldum og átökum og það hefur meðal annars verið gert varðandi árás Japana á Pearl Harbour 7. desember 1941.

Við heimsókn forsætisráðherra Japans þangað síðar í þessum mánuði er ekki úr vegi að huga að því sem raunverulega gerðist í samskiptum Japana og Bandaríkjanna á árunum 1937 til 1941. 

Í kjölfar árásarinnar á Perluhöfn hélt Roosevelt Bandaríkjaforseti fræga ræðu um "dag óhæfuverksins" ( day of infamy) og síðan þá hafa þjóðir heims almennt litið á árásina sem tilefnislaust níðingsverk og að Japanir hafi ekki haft neina ástæðu til að fara í stríð við Bandaríkin. 

En þegar atburðarásin í samskiptum þjóðanna næstu mánuði á undan er skoðuð sést vel, að úrslitakostir Bandaríkjamanna í viðræðum þeirra við Japani um ástandið við Kyrrahaf og aðgerðir til að viðhalda friði ollu því að Japanir áttu aðeins um tvennt að velja, úr því sem komið var þegar staðið var frammi fyrir þessum úrslitakostum: 

1. Að ganga að þeim úrslitakostum að draga innrásarlið sitt til baka frá Kína. 

2. Að hafna úrslitakostunum og fá yfir sig þvílíkar viðskiptalegar refsiaðgerðir, að japanski herinn yrði eldsneytislaus eftir þrjá mánuði. 

Úrslitakostirnir þýddu í raun, að ef herlið Japana yrði dregið frá Kína, hefðu Bandaríkin unnið stríðið sem þar geysaði, án þess að hleypa af einu einasta skoti.

Og ef úrslitakostunum var hafnað, gátu Japanir ekki viðhaldi vígbúnaði sínum og haldið Kínastríðinu áfram.  

Einangrunarstefnan sem ríkt hafði í Bandaríkjunum síðan 1919 byggðist á því að beita ekki hervaldi utan Ameríku og á yfirborðinu litu úrslitakostir við samningaborð ekki út sem hernaðaraðgerð.

En úrslitakostirnir voru hernaðarlegir í eðli sínu, því að herforingjaklíkan, sem öllu réði í Japan á þessum tíma, hugsaði aðeins á hernaðarlegum og heimsveldislegum nótum og stefndi að því að tryggja Japönum nauðsynleg hráefni til að viðhalda hernaðarmættinum með þeim landvinningum sem þyrfti til að hafa öruggan aðgang að auðlindum Suðaustur-Asíu og setja á fót heimsveldi andspænis breska heimsveldinu. 

Roosevelt spilaði með úrslitakostum sínum á Samúræja hugsunarhátt japönsku hershöfðingjanna og Bandaríkjamenn gerðu það aftur árið eftir þegar þeir drápu Yamamoto hershöfðingja, sem hafði skipulagt og látið framkvæma árásina á Perluhöfn. 

Japanskur hershöfðingi gat ekki horfst í augu við þá auðmýkingu sem fólst í uppgjöf fyrir úrslitakostum. Ef hann gekk að þeim og beið með því ósigur í stórri styrjöld án þess að nýr mótherji hefði hleypt af skoti, yrði hann að fremja kviðristu eða láta fallast á sverð sitt. 

Ýmsar samsæriskenningar hafa verið viðraðar varðandi það að Roosevelt hafi vitað fyrirfram af árásinni á Pearl harbour, því að erfitt sé að finna skýringu á eindæma lélegum viðbúnaði hersins hina örlagaríku daga í desemberbyrjun 1941. 

Þær samsæriskenningar eru ósennilegar en hitt er líklegt að Roosevelt hafi vitað, að Japanir myndu telja sig tilneydda til að hafna úrslitakostunum og fara í stríð við Bandaríkin.

Yfirmenn hersins hafi hins vegar ekki verið viðbúnir hinni óvæntu og stórfelldu árás á Pearl Harbour, sem byggðist á því, að Japanir áttu þá einir þjóða orrustuflugvél, Mitsubishi Zero, sem var hægt að hafa á flugmóðurskipum og voru samt jafnokar bestu landflugvéla annarra hervelda. 

Þær voru auk þess léttar og langfleygar og hægt að senda meira en 300 stykki um langan veg af flugmóðurskipum til árásarinnar. 

Með árásinni tóku Japanir áhættu varðandi það að Kanarnir væru með flugmóðurskip í höfninni og töpuðu því spili, því ekkert flugmóðurskip var þar. 

Ýmsir sagnfræðingar hafa leitt af því rök að skynsamlegra hefði verið fyrir Japani að hafna úrslitakostunum en fara út í aðrar aðgerðir til þess að tryggja yfirráð sín yfir nauðsynlegum hráefnum. 

Hin "svívirðilega árás" á Pearl Harbour varð nefnilega alger vendipunktur í hugsunarhætti Bandaríkjamanna, sem snerust á augabragði úr hikandi hlutleysisþjóð í bálreiða stríðsþjóð. 

Svo bálreiða, að Roosevelt fékk það fram að stríðið við Þjóðverja skyldi hafa forgang framyfir Kyrrahafsstríðið.

Að lokum er rétt að taka það skýrt fram, að ef eitthvert stríð var svívirðilegt á árunum 1937-1945 var það hin grimmdarlega árás Japana á Kína, þar sem tugir milljóna voru drepir í einhverjum mestu stríðsglæpum allra tíma. 

Að því leyti áttu Japanir alla sök á styrjöldinni milli þeirra og Bandaríkjamanna. 

 

 

 


mbl.is Fyrstur til að heimsækja Pearl Harbor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband