Gert í Bretlandi en ekki hér.

Með því að samþykkja Brexit hefur neðri deild breska þingsins farið að þeim vilja, sem kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslu um málið í sumar þótt mjótt væri á munum í þeirri atkvæðagreiðslu.

Þetta gerir þingheimur, þótt hann hafi fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna verið talinn gegn Brexit og að færð hafi verið rök að því að lagatæknilega gæti þingið hugsanlega haft vald til að fara gegn úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar. 

Á okkar landi hafa verið viðhafðar þjóðaratkvæðagreiðslur fimm sinnum, tvisvar um áfengislöggjöfina og einnig um tvær stjórnarskrár, 1918, 1944 og 2012.

Í fjórum tilvikum hefur Alþingi farið eftir þeim vilja, sem kom fram í þessum atkvæðagreiðslu, en í einu tilfellinu, 2012 hefur enn ekkert gerst í meira en fjögur ár.

Athyglisverður munur á tveimur þjóðþingum.   


mbl.is Breska þingið samþykkti Brexit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilfinningar hafa alltaf vegið þungt í sögunni.

Ég held að ég hafi áður sagt frá því hér á síðunni þegar gömul rússnesk kona í um 5 þúsund manna bæ, Demyansk, sem ég hitti þar ríki rússneska vetrarins seint í febrúar 2006, sagði mér frá því að í 100 þúsund manna setuliði Þjóðverja sem var innilokað þar í fjóra mánuði hefðu að vísu verið innanum í þýska liðinu hrottar og villimenn. 

Enda var Hitler búinn að gefa út tilskipun um að hverjum þýskum hermanni væri leyfilegt að skjóta hvern þann Rússa, sem hann vildi, af því að Rússar væru ekki aðilar að Genfarsáttmálanum. 

En hún sagði jafnframt að verstu illmennin í setuliðinu hefðu ekki verið Rússar heldur Finnar. 

Norræn þjóð svona illskeytt? Hvers vegna?  Jú, vegna heitrar hefndartilfinningar eftir árás Rússa á Finna veturinn áður. 

Tilfinningar, sem ráða stefnu stjórnmálamanna og þjóða geta spannað allan skalann, allt frá göfugum til illskeyttra tilfinningum. 

Þekkt er hve heitar tilfinningar brutust út þegar Júgóslavía liðaðist í sundur og stundum var verið að hefna atburða, sem urðu þar fyrir 600 árum. 

Tilfinningar hafa stundum átt meiri þátt í velgengni stjórnmálamanna en margir vilja viðurkenna. 

Kennedyhjónin voru sennilega fyrstu bandarísku forsetahjónin sem líkja mátti við kvikmyndastjörnur og rokkstjörnur, og frjálslynd stefna Kennedys því ekki aðalatriðið hjá mörgum, heldur nokkurs konar bónus. 

Hrein hrifning á stjórnmálamanni og stjórnmálastefnu er auðvitað tilfinningamál ekki síður en málflutningur og framkoma. 

Ævareiðir Þjóðverjar eftir hraklega meðferð í Versalasamningunum flykktust til fylgis við Hitler, sem sefjaði þá með stórfenglegum risasamkomum þar sem öllum brögðum stórsýninga var beitt. 

Þegar Jón Ársæll talaðí 60 árum eftir stríðslok við einn af kafbátsmönnunum, sem sökktu Goðafossi, réttlætti hann stríðið með því að óvinir Þýskalands hefðu limað fósturjörðina í tvennt í Versalasamningunum og Þjóðverjar verið neyddir til að endurheima land, sem hafði verið þýsk jörð í minnst eina og hálfa öld, ef ekki lengur. 

Niðurlægingartilfinning fylgdi þessum manni greinilega til æviloka. 

Sjálfstæðisbarátta Íslendinga byggðist mjög á heitum og göfugum tilfinningum, sem Fjölnismenn og Jónas frá Hriflu í Íslands sögu sinni spiluðu á.

Roosevelt Bandaríkjaforseti og Winston Churchill nýtt sér ræðusnilld til að laða fram heitar tilfinningar hjá Bandamönnum.

Innreið Krists í Jerúsalem var tilfinningaþrungin frekar en að baki hennar lægi úthugsaður valdatæknilegur tilgangur.

Í fyrradag var því lýst hér á síðunni hvernig hermenn, sem sendur voru til að handtaka Napóleon þegar hann steig fáliðaður á land úr útlegð á Elbu, fengu í hnén af gamalli hrifningu og gengu í lið með honum. 

 

Mjög nýlegt dæmi um afl tilfinninga er það hvernig þverpólitísk samstöðubylgja myndaðist gegn hugmyndinni um náttúrupassa og steindrap hann án þess að neitt ráðrúm gæfist til að skoða reynslu annarra þjóða af þessu fyrirbæri eða þann tilgang, sem hann þjónar erlendis.

Töluðu jafnt harðir hægri menn og vinstri menn um að Íslendingar yrðu auðmýktir og niðurlægðir með náttúrupassanum.  

 


mbl.is Tilfinningar fram yfir staðreyndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband