Gamli íslenski tvískinnungurinn.

Fyrir tveimur til þremur árum var haft hátt um komandi forystu Íslendinga á sviði rafbíla. 

Fenginn var einn helsti sérfræðingur Norðanna til þess að koma til landsins og halda þennan fína fyrirlestur um gang mála í Noregi, sem er forystuland á þessu sviði. 

Bæði þáverandi forseti Íslands og forsætisráðherrann tóku kröftuglega undir ráðleggingar og hvatningar norska sérfræðingsins. 

Nú átti að læra af frændum vorum og leggja hið snarasta net hleðslustöðva um allt land. 

Á þessari ráðstefn kom skýrt fram hve mikilvægt væri að standa vel að verki með framsýni í huga, og varðandi framsýnina var það skýr niðurstaða málþingsins að meðal höfuðatriða væri að gera áætlanir lengra fram í tímann en til eins árs. 

Allt hefur þetta reynst innistæðulítið orðagjálfur eins og sést tengdri frétt á mbl.is um rafbílamálin. 

Norðmenn eru komnir tífalt lengra en við á þessu sviði og á þó sennilega engin þjóð jafnauðvelt með að taka til hendi í notkun hreinna orkugjafa en við Íslendingar. 


mbl.is Rafbílasala myndi stöðvast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ein mikilvægustu réttindi hverrar manneskju.

Ein dýrmætustu réttindi hverrar manneskju er rétturinn til að vita hverjir eru kynforeldrar hennar. 

Þetta snýr að einföldustu atriðum lífs hverrar manneskju: Hver er ég? Hvaðan kom ég? Hvar er ég stödd í lífinu? Hvert stefni ég?

Stundum rekst þessi réttur á önnur réttindi og þá verða þau réttindi að vera afar sterk, ef þau eiga að ráða. 

Eins og flest sem tengist lífshlaupi gengins vinar míns, Gunnars Eyjólfssonar, var persónuleg saga hans í þessu efni afar hugnæm og athyglisverð. 


mbl.is 30 ára draumur rættist 2016
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengishækkun hefur tvisvar stuðlað að kreppu.

Tvisvar í sögu fullveldisins hafa aðgerðir ríkisstjórna til hækkunar gengis krónunnar átt þátt í efnahagshruni.  Í fyrra skiptið var það stjórn íhaldsmanna á þriðja áratugnum, sem hækkaði gengi krónunnar á uppgangsárum þess áratugar, sem stóðu hæst í Bandaríkjunum á "the roaring twenties." 

Sá uppgangur byggðist að stærstum hluta af loftbóluhagkerfi síhækkandi verðs hlutabréfa, sem sprakk fram í andlitið á heimsbyggðinni haustið 1929 með kauphallarhruninu í Wall street. 

Gengishækkun hægri stjórnarinnar í undanfara kreppunnar olli ekki hruninu beint hér á landi, en of hátt gengi gerði hins vegar mun erfiðara að glíma við kreppuna en ella hefi orðið. 

Síðari gengishækkunin var líka á vakt hægri stjórnar á árunum 2005-2008 og enn var það loftbóluhækkun hlutabréfa, sem í þetta skipti var knúin áfram af einhverri mestu lántökusprengingu allra tíma, sem varð til þess að hagkerfi heimsins varð á ný fyrir áfalli, sem hvergi varð meira en hér á landi. 

Nú sér maður pistlahöfunda draga fyrirfram upp dökka mynd af því að hugsanlegri vinstri stjórn hér á landi megi kenna um komandi hrun. 

Það er sem sagt fyrirfram verið að endurskrifa söguna þannig að hægri stjórnir komi aldrei nærri slíku fyrirbrigði þótt gengishækkanirnar verði á þeirra vakt.  

Broslegt er að sjá slíkar söguskýringar. Rústabjörgunarstjórnum 1931 og 2009 er kennt um tvær kreppur og fyrirfram búið að leggja drög að því að ef hrun verði núna, verði komandi rústabjörgunarstjórn kennt um það. 


mbl.is Gæti stefnt í annað hrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrann í "aðför að íslenskum landbúnaði"?

Þegar fjallað var um marklausar gæðamerkingar á eggjum og Brúneggjamálið í Kastljósi voru fyrstu viðbrögð furðu marga að um væri að ræða vísvitandi "aðför RÚV að íslenskum landbúnaði" og jafnvel nefnt í leiðinni að undirrótin væri þjónkun við íslenska ESB sinna og stórheildsala.

Þarna sæist enn einu sinni að á bak við væru þeir sem héldu fram kenningunni "ónýta Ísland" sem miðaði að því að niðurlægja þjóðina sem mest.

Samkvæmt þessari kenningu voru það sennilega Fjölnismenn, sem fyrstir manna, svo sem í ljóði Jónasar, "Ísland farsælda frón", héldu fram "ónýta Íslandi." 

 

Nú verður fróðlegt að sjá hvað sagt verður um sjálfsögð og eðlileg viðbrögð og ráðstafanir landbúnaðarráðherra varðandi rekstur og umhverfi Matvælastofnunar. 

Verður hann líka stimpaður sem handbendi skaðræðisfyrirbrigðisins RÚV, undirrótar alls ills?


mbl.is Úttekt gerð á starfsemi Matvælastofnunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband