GPS má aldrei koma alveg í staðinn fyrir allt annað.

Marg sinnis kemur það fyrir að ofurtrú á gps tækjum leiðir fólk á villigötur.

Fyrir allmörgum árum tók ég á leigu bíl á Amsterdamflugvelli og ætlaði til Neckarsulm í Bæjaralandi.

Stillti inn og ók af stað. Það var ágæt tónlist í útvarpinu og um sitt hvað að spjalla þannig að það leið alltof langur tími þar til ég áttaði mig á því að eitthvað var ekki eins og það átti að vera.

Endalaus og tafsamur akstur um þrönga sveitavegi.

Loks hætti ég að fara eftir tækinu, fann góða hraðbraut og komst á gott skrið, en hafði tapað dýrmætum tíma.

Slökkti á gps tækinu og notaði bara gömlu kortalestursaðferðina. 

En fyrir bragðið hafði ég kynnst vel hinu raunverulega "blauta Hollandi" sem Jón Hreggviðsson skálmaði um á leið til Kaupmannahafnar.

Fann síðar út að tækið hafði verið stillt á stystu leið en ekki fljótförnustu leið.

Í fyrra býsnaðist ég yfir því við Inga R. Ingason, tengdason minn, sem var í heimsókn hjá mér austarlega í Grafarvogshverfi, að flugmálayfirvöld væru búin að láta fjarlægja gps tæki úr ýmsum einkaflugvélum, og það hefði komi sér illa daginn áður.

Þá hefði ein þeirra á leið frá Akureyri til Reykjavíkur meldað sig yfir norðanverðum Kjalvegi og sögðust flugmennnirnir ekki vitað hvar þeir væru og ætti aðeins eftir fimm mínútna flugþol.

Allt var sett í gang, Fokker beðinn að svipast um eftir vélinni, en skömmu síðar kom kall frá henni, og sögðu flugmennirnir að þeir sæju flugbraut framundan og myndu lenda á henni.

Kom þá í ljós að þetta var flugvöllurinn í Vík í Mýrdal.

Ingi hafði litla samúð með gpslausu flugmönnunum og sagði að auðvelt væri að nota góðan snjallsíma til að nota gps á honum.

Ég trúði honum varla, svo að hann tók upp snjallsímann minn og sýndi mér hvernig hann gæti virkað á staðnum sem við stóðum á, skammt frá Borgarholtsskólanum.

"Hér stendur meira að segja stórum stöfum, hvar þú ert niður kominn núna" sagði Ingi.

Ég leit á nafnið, sem blasti við, og svaraði: "Víst efa ég ekki að svona snjallsímar geti sýnt hvar maður er staddur svart á hvítu, en þótt þeir séu snjallir ættu þeir ekki að vera spá svona fram í tímann."

"Hvað meinarðu? spurði Ingi.

"Jú,",svaraði ég, "sjáðu hvað stendur hérna um það hvar ég er niður kominn:  GRAFARVOGSKIRKJUGARÐUR!" 

  


mbl.is Þar munaði um r-ið!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórmerk ljúflingskona.

Ég átti þess kost að ferðast með Ragnhildi Helgadóttur út á land í fyrsta skiptið sem ég fór út fyrir suðvesturhornið til að skemmta og þetta voru nokkurra daga ferðalög í bíl.

Þá var hún kornung, glæsilegur fulltrúi kvenna á Alþingi og bar með sér góðan þokka sem hreif alla sem sáu hana og heyrðu á héraðsmótunum.

Í svona ferðum myndast vináttubönd sem ekki bresta og það var ætíð gott að hitta þessa ljúflingskonu og rifja upp skemmtilegar sögur frá héraðsmótaferðunum.

Helga konan mín og móðir mín kynntust Ragnhildi í gegnum stjórnmálastörf kvenna í Sjálfstæðisflokknum og öll voru þau kynni á eina lund.

Stórmerk brautryðjendakona er gengin með Ragnhildi eins sjá má á yfirliti yfir æviferil hennar.

Ég sendi aðstandendum og ástvinum hennar samúðarkveðjur.


mbl.is Þingmenn minntust Ragnhildar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagur orðinn þýskur og Þjóðverjarnir Íslendingar.

Það hefur löngum verið keppikefli Þjóðverja að gera hlutina eins vel og unnt er og vera yfirvegaðir.

Vansvefta Dagur Sigurðsson eftir fagnaðarlæti næturinnar klikkaði ekki í morgunviðtalinu á ZDF og kláraði það með þeirri einbeitingu og rósemi hugans sem hann hefur tileinkað sér og hefur hrifið alla sem vitni hafa orðið að því.

Í grein i einu þýsku blaðanna er sagt að Dagur hafi afrekað það að gera hina ungu þýsku landsliðsmenn að Íslendingum.

Er þá átt við það, að Íslendingar eru þekktir fyrir einstakan baráttuvilja, leikgleði, stemningu og samheldni.

Það fer ekki fram hjá Þjóðverjum hve íslenskir handboltaþjálfarar hafa náð langt á alþjóðlegum vettvangi, Alfreð Gíslason, Dagur Sigurðsson, Guðmundur Guðmundsson, Aron Kristjánsson og fleiri, þótt stríðsgæfan hafi ekki alltaf fallið þeim öllim í skaut á mótum, þar sem mikið jafnræði er með liðum og munurinn stundum örlítill á milli sigurs og ósigurs.

Um þessar mundir standa þeir Dagur og Alfreð með pálmann í höndunum, en Dagur sendir skilaboð til sín sjálfs og annarra með því að enda stefnuyfirlýsingu sína með orðinu auðmýkt.  

Er ekki lítils virði fyrir okkar smáu þjóð að eiga slíkan fulltrúa á erlendri grundu.

Ef þýsku sjónvarpsmennirnir hefðu þett vel til íslenskrar dægurtónlistar hefðu þeir getað kvatt Dag með því að spila lagið "Megi Dagur hver fegurð þér færa."


mbl.is Þetta var ekki bara draumur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spyrja skal að leikslokum en ekki vopnaviðskiptum.

Ofangreind setning úr fornbókmenntumm okkar á við um vináttulandsleikinn við Bandaríkin þegar hann er skoðaður í samhengi við það sem framundan er hjá landsliðinu.

Það er auk þess engin skömm að tapa með einu marki fyrir bandaríska landsliðinu, sem keppti á HM síðast.

Staðan á stigalista FIFA er og verður aukaatriði fram yfir EM í Frakklandi.

Aðalatriðið eru samhengið í undirbúningnum og mótunin á liðinu og leikaðferð þess í leikjunum fyrir keppnina stóru, þar sem verður spurt að leikslokum í prófrauninni sem þar bíður liðsins.


mbl.is Fimm leikmenn léku sinn fyrsta leik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. febrúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband