Eru þessar tvær staðreyndir ekki nóg?

Stórskemmtilegur og fræðandi þáttur um sykur var í Sjónvarpinu í kvöld. Dýrlegt var að sjá gamlar myndir af talsmönnum tóbaksiðnaðarins á sínum tíma halda því fram af mikilli sannfæringu fyrir framan bandaríska þingið að tóbaksneysla væri ekki ávanabindandi. 

Nú er það hins vegar viðurkennt að ekkert fíkniefni er erfiðara að hætta að neyta en nikótín, ekki einu sinni heróin.

Ævinlega grípur viðkomandi stóriðnaður til yfirburða í fjármagni og aðstöðu til þess að verja hagsmuni sína.

Hve margar milljónir mannslífa skyldi vel heppnuð varnar-áróðursherferð tóbaksiðnaðarin hafa kostað?

En tvær staðreyndir blöstu við í þessari heimildarmynd um sykurinn.

1.  Róttækasta breyting í sögu mannsins varðandi neyslu, fjórföldun á neyslu sykurs á örfáum áratugum.

2.  Fjórföldun á tíðni sykursýki.

Eru þessar tvær staðreyndir ekki nóg? Tvær fjórfaldanir og enn verra framundan?

Jónas Kristjánsson ritstjóri benti á það fyrir mörgum, mörgum árum, að hvítasykur væri lang hættulegasta fíkniefnið.

Vona að hann hafi séð þessa sjónvarpsmynd, sem og Pálmi, sonur hans, en við Pálmi erum báðir sjúklega fíknir í Kók og Prins og erum meðvitaður um það.


mbl.is Biggest Loser bjargaði lífi mínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Píratar, - flótti frá óhjákvæmilegum viðfangsefnum?

Á síðustu árum hefur orðið vaxandi þungi í þeirri umræðu að þau viðfangsefni stjórnmálanna séu orðin úrelt og óæskileg, sem tengjast hægri - vinstri,  markaðs/frjálshyggju annars vegar og velferðar/félagshyggju hins vegar.

Þau stjórnmál séu ekki bara úrelt séu öll stjórnmál orðin úrelt og spillt og í staðinn eigi að koma alveg ný nálgun og fersk, sem sniðgengur hin gömlu og úreltu stjórnmál.

Það eigi sem sagt að vera hægt að hafa áhrif á þjóðfélagið og stjórnun þess án þess að "lenda í pólitík". 

Orðin "flokkur" og "flokkapólitík" þykja ljót og bráðnauðsynlegt að útrýma slíkum fyrirbærum og koma með "hreyfingar" og önnur ný orð í staðinn.

Og ef orðið flokkur sé notað sé það kannski verjandi ef í því felst "djók" og húmor eins og í nafninu Besti flokkkurinn.

Ef stefnuskrá einhvers flokks snertir í engu pólitísk viðfangsefni eins og opinberan rekstur og einkarekstur, halda margir, að nú sé búið að leysa öll vandamál og viðfangsefni og að engu skipti hvort menn séu hægri eða vinstrimenn, aðhyllist frjálshyggju eða félagshyggju.

Þess vegna nægir að "aðhyllast grunnstefnu Pírata" og skiptir til dæmis engu hvort menn eru feministar eða ekki.

Nú síðast í kvöld var greint frá því í útvarpsfréttum, að taka þyrfti afstöðu til þess hvort áfram eigi að vera opinber rekstur á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli eða hvort taka eigi þar upp einkarekstur.

Samkvæmt orðum þingmanns Pírata má ætla að það nægi að aðhyllast grunnstefnu Pírata í þessu viðfangsefni, rekstri skíðasvæðisins, og þá muni allt leysast af sjálfu sér, væntanlega án þess að þurfa að taka afstöðu til einkareksturs eða opinbers reksturs. Eða hvað?

Gömlu "óhæfu" stjórnmálaflokkarnir eru stimplaðir sem "einsmálsflokkar", Samfylkingin með aðeins eitt mál, inngöngu í ESB, og Sjálfstæðisflokkurinn fyrir þá sem vilji "græða á daginn og grilla á kvöldin".

Þó eiga báðir þessir flokkar, sem hér eru nefndir sem dæmi, sér stefnuskrár um fjölmörg svið stjórnmála og þjóðlífs.

Og greinir meira að segja á um þau mörg.

Þannig er til dæmis lagst gegn fyrirhugaðri olíuvinnslu í lögsögu Íslands í stefnuskrá Samfó, en ekki í stefnuskrá Sjalla.  

Samfylkingin heitir raunar líka "Jafnaðarmannaflokkur Íslands" og í því einu felst krafan um að skilgreina nánar á ýmsum sviðum í hverju stefna flokksins, sem hefur norræna velferðar- og jafnaðarstefnu að fyrirmynd, felst í ýmsum málaflokkum.

Í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins nálgast stefnuskráin, samþykkt á landsfundi, það viðfangsefni hvernig stefnan sem setur einstaklingsfrelsi sem flestra í öndvegi,( með nauðsynlegum takmörkunum þó varðandi það að frelsi eins endar þar sem frelsi annars byrjar ) verði best útfært í samfélagslegu tilliti í hinum ýmsu málaflokkum.

Píratar halda að vísu marga fundi um þessar mundir þar sem farið er yfir hina ýmsu málaflokka, og er vonandi að þar átti fólk sig á því, að líka Píratar eigi á hættu að áhrínsorðin um "einsmálsflokk", sem notað er um flokka, sem sannanlega marka sér stefnu í mörgum málum, geti lent á Pírötum sjálfum nema þeir taki afstöðu í krefjandi álitaefnum og úrlausnarmálum, þar sem mismunandi grunngildi varðandi einstaklinga og samfélag vegast á, þeirra á meðal spurningarnar um vinstri-hægri, frjálshyggju-félagshyggju, einkarekstur-opinber rekstur.  

  


mbl.is Frjálshyggjumenn alltaf verið í Pírötum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreinn hernaðarlegur ósigur Breta 1976.

Lokasigur Íslendinga í þorskastríðunum 1976 byggðist á því, að vegna heildar hernaðarhagsmuna NATO gátu Bretar ekki beitt fallbyssum herskipa sinna, en hins vegar gátu Íslendingar beitt fallbyssum varðskipanna.

Ef Bretar hefðu getað beitt herskipunum til fulls hefðu þeir unnið hernaðarsigur strax haustið 1958.

En það hefði þýtt það að Íslendingar hefðu gengið úr NATO og þar að auki hefði meginhugsunin  að baki NATO, sem hernaðarbandalags gegn utanaðkomandi ógnun, verið gereyðilögð.

Það merkilegasta við úrslit þorskastríðsins 1976 var það að vegna mikils tjóns á bresku freigátunum í árekstrum við íslensk varðskip og íslenska skuttogara, sem voru útbúnir sem varðskip, höfðu Bretar ekki lengur nógu mörg herskip til að halda baráttunni áfram.

Pétur Guðjónsson skrifaði fanta góða blaðagrein þetta vor og fór yfir það hvar bresk herskip væru að störfum á heimshöfunum til að gæta hernaðarhagsmuna sinna og bresku samveldislandanna. 

Niðurstaðan var skýr: Of mörg herskip voru dottin út vegna skemmda á Íslandsmiðum, og var freigátan Falmouth eitt magnaðasta dæmið um það eftir áreksturinn við Tý.

Falmouth yrði úr leik út árið og missir þess skips var dropinn sem fyllti mælinn.

Bretar voru í engri stöðu í viðræðunum til að halda fram kröfum sínum.

Niðurstaðan var, svo ótrúlegt sem það virðist, hernaðarlegur sigur Íslands. 

 


mbl.is Töldu kröfur Íslands brandara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reikna þarf dæmið í heild.

Lækkað verð á olíu á heimsmarkaði hefur reynst grundvöllur þess að hægt hefur verið að hamla eitthvað gegn verðbólgu hér á landi. 

Minni eldneytiskostnaður hefur líka hjálpað til við að hækka gengi krónunnar, en það á líka að geta skilað kjarabótum til almenning

Varla er þó hægt að ætlast til að seld vara eða þjónusta fylgi eldsneytislækkun algerlega eftir, því að launakostnaður hefur hækkað með hærri launum.

Mikilvægt er að fylgja því vel eftir að sparnaður vegna eldsneytiskaupa skili sér til neytenda, en ekki er síður mikilvægt að reikna út heildardæmið og taka alla kostnaðarliði seljenda með í reikninginn.

Síðan er umhugsunarvert, að atriði eins og breyting á kjarnorkuáætlun Írana skuli hafa jafn afgerandi áhrif á efnahag og stjórnmál hér við ysta haf og raun ber vitni.

Svo virðist sem lágt olíuverð muni haldast áfram næstu misserin þegar olían frá Íran bætist við oliuframleiðslu á heimsvísu og það geta haft áhrif á næstu Alþingiskosningar ef kjarasamningar halda.

Þess ber þó að gæta að sama lága eldsneytisverðið áfram þýðir að áhrif sífelldrar lækkunar hverfa og þá virðist vöxtur ferðaþjónustunnar verða það eina sem geti viðhaldið auknum kaupmætti hér á landi.


mbl.is Lágt olíuverð skilar sér ekki í verð farmiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efndir fylgja enn ekki orðum.

Í hitteðfyrrahaust var haldin ágætis ráðstefna á vegum Verkfræðingafélags Íslands um komandi útskipti á orkugjöfum hvað varðaði rafbíla.

Hástemmdar yfirlýsingar heyrðust hjá forsætisráðherra og forseta Íslands og gefin loforð um átak í þessum efnum, til dæmis varðandi það að setja upp hraðhleðslustöðvar á hringveginum sem gerði það kleyft að aka hann allan án þess að stöðvast vegna orkuþurrðar.

Kaupendur rafbíla eru óánægðir með það að komast ekki einu sinni á milli Reykjavíkur og Akureyrar.

Og þar að auki verður ekki hraðhleðslustöð í Varmahlíð, heldur á Sauðárkróki, svo að rafbílum verður að aka um Þverárfjall 25 kílómetrum lengri leið en öðrum bílum.

Milli Sauðárkróks og Borgarness eru 217 kílómetrar sem er of langt fyrir alla rafbíla nema Tesla, sem er langdýrasti rafbíllinn og raunar svo mikill lúxusbíll, að forsetaembættið ætti að nota slíkan á Suðvesturlandi.

Hvers vegna í ósköpunum er ekki komin hraðhleðslustöð í Hrútafirði á þessum kafla, sem á vantar til að brúa bilið?

Á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur eru ellefu bensínstöðvar.Hiti á jörðinni og ÍslandiHiti á jörðinni og Íslandi

Og síðan heyrir maður íslenska ráðamenn halda fast við það að við Íslendingar verðum olíuþjóð og leggjum okkar skerf til meiri olíuvinnslu og þar með meiri olíunotkunar.

Á meðfylgjandi línuritum sést hitinn á jörðinni frá 1900 á rauðri línu og hitinn á Íslandi á sama tíma.

Bláu hitatölurnar sýna hitann á Íslandi en rauðu setja núll við aldamótin 1900 og síðan þá hefur sá hiti hækkað um meira en heila gráðu.

Þessi línurit segja allt sem segja þarf, til dæmis það, að hitinn á Íslandi, sem er innan við 0,01% af flatarmáli þurrlendis jarðar, sveiflast miklu meira en meðalhitinn á jörðinni.

Af tæknilegum ástæðum fóru línuritin tvisvar inn á síðuna hjá mér, en Emil Hannes Valgeirsson birti þau nýlega á bloggsíðu sinni, skýringarnar við þau eru hans og ég bendi í bloggpistil hans ef menn vilja kynna sér hann nánar.

 


mbl.is Fráleitt að halda olíuvinnslu áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. febrúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband