Eykur orðið "samnemandi" fjölbreytni málsins?

Í skoðanaskiptum um íslenskt mál hér á síðunni hefur það verið ein af röksemdum þeirra, sem vilja sem mest frelsi í töluðu og rituðu máli, að ýmis ný orð, sem málvöndunarmenn fetta fingur út í, "auki fjölbreytni málsins" og séu því til góðs.

Eitt slíkt nýtt orð hefur nú rutt sér svo rækilega til rúms, að það er á góðri leið með að útrýma fjölda eldri orða um sama hugtak, og ekki bara það, heldur að koma i veg fyrir að hægt sé að tala um þetta fyrirbrigði af einhverri nákvæmni ef það getur skýrt málavexti.

Þetta orð er orðið "samnemandi" sem er svo rækilega notað í fjölmiðlum, að það er orðið langt síðan ég hef heyrt notuð eldri orð um þetta hugtak.

Þau þykja greinilega ekki nógu fín, - eru ekki "in." 

Samnemandi og samnemendur á við alla, sem eru í sama skóla og sá nemandi, sem í hlut á.

En áður en þetta tískuorð kom til skjalanna var hægt að nota mörg heiti um samnemendur.

1. Skólafélagi.

2. Skólafélagar, ef um fleiri en einn er að ræða. 

3. Skólasystkin.

4. Skólabræður, ef um fleiri en einn karl eða dreng er að ræða.

5. Skólabróðir, ef um einn karl er að ræða.

6. Skólasystir, ef um eina konu eða stúlku er að ræða.

7. Skólasystur, ef um fleiri en eina konu eða stúlku er að ræða.

8. Bekkjarsystkin ef um nemendur í sama bekk er að ræða.

9. Bekkjarbróðir, ef um einn karl eða dreng í sama bekk er að ræða.

10. Bekkjarbræður, ef um fleiri en einn karl eða dreng er að ræða.

11. Bekkjarsystir, ef um eina konu eða stúlku er að ræða.

12. Bekkjarsystur, ef um fleiri en eina konu eða stúlku er að ræða.

Nú vinnur fjölmiðlafólk að því hörðum höndum að útrýma öllum þessum orðum og nota orðin samnemandi eða samnemendur í staðinn.

Ég hef heyrt og lesið fréttir þar sem orðið samnemandi er notað aftur og aftur í sömu fréttinni.

Og þetta er gert í nafni aukinnar fjölbreytni.

Áður hefur verið minnst á tískuorðlagið "með þessum eða hinum hætti" sem er á góðri leið með að útrýma orðunum svona, hinsegin, hvernig, þannig.

Sífellt les maður eða hlustar á orðræðu þar sem staglast er á að eitthvað sé með þessum eða hinum hættinum, eða með einum eða öðrum hætti.

Ef amast er við þessum orðalengingum og einsleitni í orðavali er svarið: Það verður að leyfa fjölbreytni í málinu.   

 


Að vera eða vera ekki frjálhyggjumaður í Pírötum, það er spurningin.

Fullkomnlega eðlilegar og fyrirsjáanlegar deilur eru komnar upp hjá Pírötum varðandi stefnu þeirra og fylgismanna þeirra og það, hverjir geti verið í flokki þeirra.  

Þær snúast um það hvort andstæðurnar frjálshyggja-félagshyggja, öðru nafni markaðshyggja-velferðarhyggja skipti máli fyrir flokk Pírata eða ekki.

Birgitta Jónsdóttir kapteinn Pírata sagðist um daginn vera hætt við að bjóða sig ekki fram í næstu kosningum af ótta við að frjálshyggjumenn yrðu of sterkir í flokknum.

Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður segir í gær að jafnt frjálshyggjumenn og félagshyggjufólk geti verið innan raða flokksmanna og nú segir formaður Frjálshyggjufélagsins óhugsandi að félagar í því geti stutt Pírata. 

Að vera eða vera ekki, það er spurningin, sagði Hamlet. Að vera eða vera ekki frjálshyggjumaður í Pírötum, það er spurningin núna.  


mbl.is Sögusagnir um yfirtöku frjálshyggjumanna úr lausu lofti gripnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jarðskjálftar í Bárðarbungu ekki lengur fréttnæmir.

Sjá má á korti Veðurstofunnar að jörð skelfur í Bárðarbungu og að tveir skjálftar um og yfir 3 stig hafa komið þar undanfarna tvo daga.Bárðarbunga 3. 8. 14. nr2

Einnig eru skjálftar á Öskju-Herðubreiðarsvæðinu.

Um hugtakið fréttir eru notuð orðin news og nyheder í málum nágrannaþjóða okkar.

Það verður að vera eitthvað nýtt á ferð til þess að það teljist fréttir.

Þess vegna eru þriggja stiga skjálftar í Bárðarbungu ekki lengur fréttir nema þeim fari að fjölga verulega sem og smærri skjálftum.


mbl.is Jarðskjálftinn fannst í Hafnarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. febrúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband