Málamiðlun varðandi trúarjátninguna?

Í frétt mbl.is segir að alls 3.464 manns hafi týnt bana á vegum Frakklands síðasta ár.

Af því að orðalagið að týna lífi táknar að deyja, hlýtur orðalagið að týna bana að þýða endurholdgun eða upprisu.

Og þá kæmi kannski til greina að hægt verði að leysa gamla deilu um það hvort eigi að segja "upprisu holdsins" eða "upprisu mannsins" í trúarjátningunni með því að segja: "Ég trúi á ....fyrirgefningu syndanna, týndan bana og eilíft líf."

Nema að þetta sé prentvilla í mbl-fréttinni og eigi að vera: "Tíndu alls 3.464 manns banana á vegum landsins. Eða "týndu alls 3.464 manns banönum á vegum landsins.  

Sem reyndar er líka vafasamt orðalag því að það orðið banana gæti verið þolfall fleirtölu af orðinu bani, þ.e. þessir 3.464 tíndu alla þessa bana upp af vegunum eða týndu öllum þessum banönum á vegunum.

Síðan gæti enn ein útskýring bæst við en þó afar ósennileg og langsótt, en kannski í lagi með það af því að vegirnir eru svo langir, sem sé að 3.464 hafi fæðst á vegunum. Þar með er komið að því álitamáli hvenær hvert líf kviknar og skýringin verður sennilegri ef miðað er við getnað: 3.464 komu undir á vegum landsins.

 

 


mbl.is Banaslysum fjölgaði 2015
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vekur óhugnanlega minningu.

Fall kranabómu er sérstaklega hættulegt óhapp, því að þeir sem standa fyrir neðan þegar bóman fellur, hafa ekkert ráðrúm til að bregðast við, eru yfirleitt ekki að horfa upp fyrir sig á því augnabliki.  

Þetta þekki ég af eigin raun frá unglingsárum mínum þegar við Andrés Indriðason vorum við vinnu í húsgrunni við Bolholt þar sem rísa átti hús, sem í fyrstu hýsti eitt af hjólbarðaverkstæðum borgarinnar.

Frétt af byggingarkrana, sem féll í New York, vekur óhugnanlega minningu.

Sprengt var í grunninum við Bolholtið og við bárum grjótið eftir sprengingarnar upp í síló, ýmist einir eða tveir saman þegar steinarnir voru stórir.

Vorum að paufast við þetta undir krana sem notaður var við verkið.

Sem við bogruðum yfir steini við sílóið og réttum okkur upp eftir að hafa komið steininum fyrir, heyrðum við lágan smell, og á sama augnabliki féll bóma kranans niður alveg við hlið okkar.

Vír hafði slitnað og bóman féll svo skammt frá okkur að skuggalega litlu munaði að hún félli á okkur.

Værum við varla báðir, jafnvel hvorugur, til frásagnar um þetta ef þannig hefði farið.

Af því að við horfðum ekki upp fyrir okkur þegar bóman féll, var viðbragðstíminn enginn hjá okkur, - bóman var komin niður áður en ráðrúm gafst til að líta upp.

Úff!

 

 

 

 

 


mbl.is Krani féll til jarðar í New York
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagur veit hvað hann syngur.

Vel inni í síðari hálfleik Íslendinga og Hvít-Rússa var staðan 24:20 Íslendingum í vil.

Fullkomlega eðlileg staða og góð og búið í næsta leik á undan að vinna Norðmenn, sem síðar í mótinu urðu líklegir til að komast mjög langt.

Þá kom skelfilegur kafli hjá íslenska liðinu sem fékk á sig að mig minnir sex mörk í röð frá Hvít-Rússum.

Leikurinn var samt ekki tapaður fyrr en á síðustu mínútunni, því að Íslendingar héldu áfram að skora nær allan leikinn.  Það munaði svo grátlega litlu.

Það sama gerðist í næsta leik Íslendinga við Króata og í úrslitaleik Spánverja við Þjóðverja.

Spilið var búið og maður las vonleysið út úr svip íslenska liðsins í upphafi leiks og spurði sjálfan sig hvort þetta væri sama liðið og hafði unnið Norðmennina.

Það sem klikkaði var "þetta reddast"-hugarfarið, að hægt væri hvenær sem væri að galdra eitthvert kraftaverk út úr liðinu.

Það klikkaði að gera það, sem svo oft, já, of oft, hefur bjargað íslenska liðinu og komið því langt, "að fara Krýsuvíkurleiðina" í milliriðil og jafnvel undanúrslit.

Að ná einhverju svipuðu upp og gerðist undir stjórn Alfreðs Gíslasonar á móti Frökkum 2004.  


mbl.is Dagur blæs á gagnrýni á íslenska liðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misjöfn viðbrögð við litlu fylgi í aldar sögu jafnaðarmanna.

Árið 2016 er tvöfalt afmælisár í sögu krata á Íslandi, 100 ár frá stofnun Alþýðuflokksins og 60 ár frá stofnun Alþýðubandalagsins. Í hitteðfyrra voru 20 ár frá stofnun Þjóðvaka og nokkrum árum áður 30 ár frá stofnun Kvennalistans.

Allt voru og eru þetta tilefni fyrir Samfylkinguna til að skoða uppruna sinn og sögu og greina nýja strauma í stjórnmálum til að bregðast við þeim. En þessi tilefni hafa ekki verið notuð að því er virðist af gagnkvæmnri tillitssemi hinna fjögurra stofnaðila við hver annan.

Er það eitthvert feimnismál hvað felst í heitinu "Samfylkingin - jafnaðarmannaflokkur Íslands"?

Er eitthvert feimnismál að vera frjálslyndur jafnaðarmaður og leggja slíka stefnu fram á skýran hátt inn í viðfangsefni íslenskra stjórnmála?

Er eitthvert feimnismál að leggja því lið að yfirgnæfandi vilji þeirra sem kusu um nýja stjórnarskrá 2011 var henni í vil?

Eða á það að vera svo að Píratar geti einn flokka eignað sér stuðning við það?

Opin umræða er nauðsynleg fyrir hverja stjórnmálahreyfingu. Annars væri ekki haldið fram þeirri síbylju að Samfylkingin sé "einsmálsflokkur" sem hafi aðeins eitt mál á dagskrá: Að ganga í ESB.

Síðan hvenær eru kjörorðin "frelsi-jafnrétti-bræðralag-lýðræði" orðin úrelt og ónothæf?

Umrótið og klofningurinn nú í íslenskum stjórnmálum eru ekki einsdæmi og viðbrögðin við slíku ástandi hafa verið mismunandi eins og´sjá má á yfirliti yfir það í næsta bloggpistli á undan þessum.


mbl.is Landsfundur óraunhæfur á þessu ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allur gangur á viðbrögðum við litlu fylgi krata.

Alþýðuflokkurinn er einn þeirra flokka sem mynduðu Samfylkinguna og hafði alla sína tíð gegnt hlutverki jafnaðarmannaflokks Íslands, sem er nafn Samfylkingarinnar nú.

Nokkrum sinnum í sögu Alþýðuflokksins var fylgi hans lítið, jafnvel innan við 10 prósent.

Þegar Hannibal Valdimarsson klauf sig út úr Alþýðubandalaginu fyrir kosningarnar 1971 fór fylgi krata niður fyrir 10 prósent og rétt lafði í 10,5% í kosningunum.

Svipað gerðist í skoðanakönnunum eftir kosningarnar 1984 og þá bauð Jón Baldvin Hannibalsson sig fram gegn sitjandi formanni Kjartani Jóhannssyni með þeirri vestfirsku skýringu, að ef "karlinn í brúnni" fiskaði ekki, væri skipt um skipstjóra.

Og Jón Baldvin var kosinn.

Sjálfur stóð hann frammi fyrir því 1994 að fylgið fór langt niður fyrir 10 prósentin í skoðanakönnunum mánuðum saman eftir að Jóhanna Sigurðardóttir bauð sig fram gegn "karlínum í brúnni" en náði ekki kjöri og mátti Jón Baldvin horfa á styrkleikatölu veiks bjórs á tímabili.

Jóhanna klauf flokkinn með stofnun Þjóðvaka, en "karlinn í brúnni" hjá Alþýðuflokknum vék ekki og það þótti kraftaverk að flokkurinn fékk rúm 10% í kosningunum 1995 þannig að þáverandi stjórn hélt eins manns meirihluta á þingi.

Davíð fannst það tæpur þingmeirihluti og myndaði ríkisstjórn með Framsóknarflokknum.

Samfylkingin - jafnaðarmannaflokkur Íslands, hefur í raun klofnað með stofnun Bjartrar framtíðar, sem innbyrti Besta flokkinn, en hefur nú misst meirhluta fylgis síns til Pírata.

Klofningur í miðju- og vinstra fylgi hefur því enn einu sinni herjað á frjálslynda sósíaldemókrata á Íslandi.

Ofangreint yfirlit yfir brokkgenga sögu krata sýnir mismunandi viðbrögð við slíkum tíðindum.

Ekki var skipt um "karlinn í brúnni" fyrir kosningarnar 1971, en hins vegar skipt um skipstjóra þremur árum fyrir kosningarnar 1987 og honum haldið í brúnni þótt Vilmundur Gylfason stofnaði Bandalag jafnaðarmanna.

Ekki var skipt um karlinn í brúnni 1994-1995 við klofninginn þá, en Jón Baldvin hætti 1996.

Í sveiflum í fylgi krata fyrir 1960 var skipt um skipstjóra tímabundið á kjörtímabilinu 1949-53, þegar Hannibal Valdimarsson varð formaður en síðan fellur úr formannssæti árið 1954.

Í framhaldi af því gekk hann úr flokknum 1956 og stofnaði Alþýðubandalagið með sósíalistum.

Í vor verða 100 ár frá stofnun Alþýðuflokksins og saga hans er mestöll lituð af fylgissveiflum og klofningi á vinstri vængnum út og suður.

Nokkrum sinnum hafa menn farið á taugum og skipt um stjórnanda en oftast ekki.

Það er dæmi um viðkvæmni í Samfylkingunni að vegna þess að hún er mynduð við samruna fjögurra flokka á vinstri væng, þykir ráðlegast að á vegum flokksins verði ekkert sérstakt gert til að minnast aldarafmælis Alþýðuflokksins.

Skárra sé að láta það vera og þar með líka að láta það vera að minnast 60 ára afmælis stofnunar Alþýðubandalagsins, enda hafi 20 ára afmælis stofnunar Þjóðvaka ekki verið minnst árið 2014 og 30 ára afmælis Kvennalistans ekki verið minnst þar áður.

Það má deila um það af hverju það sé ekki sjálfsagt mál innan Samfylkingarinnar að kannast við uppruna sinn og efna til gefandi og hressandi umræðu um söguna á bakvið þau öfl sem sameinuðust um síðustu aldamót og að reyna að greina þá strauma, sem nú leika um íslenska stjórnmálaflokka.

Einu sinni, þegar Jón Baldvin og Ólafur Ragnar voru formenn Alþýðuflokks og Alþýðubandalags, fóru þeir í fundaferð um landið undir heitinu "Á rauðu ljósi" og veltu mörgu upp, þótt árangurinn kæmi ekki í ljós fyrr en áratug seinna.

 


mbl.is Landsfundur ræddur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. febrúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband