Skammsýnin allsráðandi.

Lítil börn þurfa að reka sig oft á til þess að læra af óförum sínum. En þetta virðist ekki bundið við aldur.

Fyrir liggur að á þessari öld munu margar af auðlindum og hráefnum jarðar ganga til þurrðar en það virðist ekki hafa minnstu áhrif.

Olíuframleiðslan er til dæmis aukin og verðið lækkað með of miklu framboði til þess að torvelda samkeppni nýrra orkugjafa.

Ekki einn einasti maður virðist hafa áhyggjur af því að takmarkaða magn sé til af hinu bráðnauðsynlega efni, sem fosfór er.

Í gerð rafeindatækja af ýmsu tagi virðist krafan um endingu fokin út í veður og vind.

Þykir ósköp eðlilegt að sum þeirra endist ekki nema í tvö ár og það vekur spurningu um það hvort slíkt geti talist til framfara á 21. öldinni.

Þúsundum ef ekki milljónum manna er haldið í vinnu við stanslausar breytingar og "uppfærslur" á hvers konar varningi sem oftast reynast óþarfar í svona miklum mæli.

Markaðshlutdeild virðist oft byggjast á endalausum breytingum á atriðum eins og útliti sem skipta engu meginmáli.

Þetta hefur reyndar lengi verið svona, einkum í Ameríku. Hlálegt er til dæmis að sjá sumar bílaauglýsingar áranna 1941 til 1948 þegar orðið "NEW!" með stórum stöfum og upphrópunarmerki þurfti að birtast sem allra víðast í auglýsingunum, stundum í 9-10 "new!" upphrópunum í röð niður eftir auglýsingasíðum.

Á þessum árum ríkti stöðnun í bílaframleiðslu vegna áhrifa stríðsins en samt voru aldrei oftar auglýstar nýjungar en þá, - einmitt þegar fæstar þeirra gátu talist til nýjunga.

Síðan verðum við alltaf jafn hissa þegar hráefnisskortur kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti, samanber frétt um farsíma og snjallsíma á mbl.is


mbl.is Ekki lengur titringur í farsímum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kári er einstakur.

Það er ekki neinn venjulegur maður sem kemst á ákveðnum tímapunkti í að vera útnefndur sem einn af 100 áhrifamestu mönnum í heiminum í læknavísindum.

Óvenjulegir menn fara oft ekki varhluta af því að ýmsir hafi horn í síðu þeirra og maður hefur heyrt um Kára að hann geti verið skapmikill og jafnvel hrokafullur.

Engar sönnur hef ég heyrt færðar fyrir því en hitt blasir við að hann getur bæði verið hreinskilinn, raunsær og auðmjúkur.

"Forsætisráðherra hefur unnið þessa lotu tíu-núll" segir hann um klaufaleg ummæli sín, sem túlkuð voru sem ósæmilega niðrandi um ráðherrann.

Og bætir við að ráðherrann sé bæði skýr, skemmtilegur og glæsilegur ungur maður.

Greining hans á stöðunni í málefnum heilbrigðiskerfisins er raunsæ og heiðarleg og það er ekki alltaf sem menn sem standa í eldlínu eru færir um að hafa slika yfirsýn.

Kári er einstakur maður.  

 


mbl.is „Þessi skítur er á minni ábyrgð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með mestu þjóðflutningum.

Á fimmta áratugnum bjuggu 56 þúsund manns fyrir vestan Kringlumýrarbraut. Aðeins 20 árum síðar hafði þeim fækkað um 20 þúsund manns og var þetta mesti fólksflótti landsins.

Nú búa 130 þúsund manns austan Elliðaáa og sunnan við Fossvog og til eru þeir sem halda því fram að þessi þróun byggðar sé eingöngu Reykjavíkurflugvelli að kenna, svona rétt eins og það hefði verið hægt að troða meira en 100 þúsund manns á flugvallarsvæðið.

Þegar Hekluumboðið fer í Mjódd verður það síðasti Móhíkaninn hvað bílaumborð varðar, en þau voru lungann af síðustu öld nær öll á svæðinu frá Arnarhóli (Austin), Hlemmi (Willys, Studebaker og Sveinn Egilsson), austur til vestasta hluta Suðurlandsbrautar (B og L ).

Hekla var fyrst við Hverfisgötu en síðar á núverandi stað.

Farartæki og fólk sogast að stærstu krossgötum, það er lögmál.

Stærstu krossgötur landsins eru á svæðinu Elliðavogur-Mjódd.

Þess vegna verða Suzuki og Peugeot ein eftir í Skeifunni og við Sundahöfn, en öll hin umboðin og bílasölurnar komnar austur fyrir Elliðaár og suður fyrir Fossvog.

Ártúnshöfði, Mjóddin og Smárinn eru vaxtarbroddar verslunar og þjónustu og hún er að miklu leyti á leiðinni þangað.

Gamla miðborgin er hins vegar orðin að ferðamannasvæði en útlendingar fara ekki til Íslands til að kaupa bíla.   


mbl.is Hekla flytji í Mjódd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. febrúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband