Panamaskjölin aðeins örlítill hluti af dæminu?

Lekinn í Panamaskjölunum er aðeins frá einni skrifstofu. Hvað um allar hinar?

Þegar starfsmenn 60 minutes könnuðu umfang peningaþvættis í Washingtonborg einni var leitað með tálbeitu til 16 lögmannsskrifstofa ef ég man rétt.

Aðeins ein vildi ekki hjálpa til við að þvo illa fengið fé frá uppdiktuðum einræðisherra í Afríku, sem vildi kaupa snekkju, húseignir og þotu án þess að hægt yrði að rekja straum fjárins til Afríku.

Allar hinar skrifstofurnar voru til í tuskið, ef nógu vel yrði greitt fyrir greiðann.

Ágiskunartölurnar, 1000 milljarða tap þjóðarbús Íslands, og 900 þúsund milljarða tap alls á heimsvísu, eru stjarnfræðilega háar.

Ef til vill langt frá því að vera allur pakkinn og Ísland hlutfallslega í fremstu röð! 


mbl.is 400 leitir á sekúndu í gærkvöldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jafnvel margra alda gamlar óuppgerðar sakir.

Í kvöld hefst Evróvision-söngvakeppnin. Hún er dæmi um viðleitni til þess að þjóðir álfunnar geti átt sér sameiginlegan grundvöll og þátttaka Ástralíu og Ísraels er dæmi um, að hugsunin um áhrif Evrópu nær út fyrir álfuna.

Full þörf er á fyrirbæri sem þessu, en það leiðir líka hugann að því hve erfitt það er að viðhalda friði og jafnvægi.

Í ófriði á Balkanskaga í upphafi og aftur við lok síðustu aldar kom í ljós, að það, sem kalla má "óuppgerðar sakir" frá því fyrir mörgum öldum, er oft sem fleinn í sambúð þjóða og þjóðabrota.

Stríðsglæpir í Kosovo og annars staðar á Balkanskaga í lok aldarinnar byggðust á eftirmálum atburða fyrir sjö öldum.

Stofnun Ísraelsríkis var afleiðing af brottrekstri Gyðinga frá Palestínu fyrir næstum tveimur árþúsundum.

Hefndarhugur er eitthver skæðasta og illvígasta fyrirbærið í hug manna og þjóða og endurnýjun átaka milli múslima og kristinna manna sem hófust upphaflega fyrir meira en tólf hundruð árum er dæmi um það hve skammt hefur miðað í baráttu fyrir sönnum friði í aldanna rás.


mbl.is Ekki hægt að treysta á frið í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir á umræðuna um jarðvegseyðinguna.

Í áratugi hefur verið þrætt um það hvort mesta jarðvegs- og gróðureyðing sem þekkist í nokkru landi hafi verið af mannavöldum eða að náttúrulegum völdum.

Færð hafa verið þau rök að jarðvegseyðingin hafi verið vegna eldgosa og kalds tíðafars en ekki vegna ofbeitar.

Það er út af fyrir sig rétt að eldgos og kuldar hafi haft slæm árhrif, en einmitt þess vegna, var enn nauðsynlegra en ella að minnka beitarálag á landið.

Svipað er að heyra varðandi Mývatn. Ekki sé sannað að dauði lífs í vatninu sé af mannavöldum í sveitinni sjálfri, heldur af völdum hlýnandi veðurfars og náttúrulegra þátta.

En einmitt þess vegna er meiri nauðsyn en ella að ráðast gegn mengun vatnsins af völdum margfalds ferðamannastraums og umsvifa og drepa málinu ekki á dreif með því að skella skuldinni á annað.

Raunar hefur hvorki verið sannað né afsannað að aðförin að lífríki vatnsins heima fyrir, allt frá byggingu Kísiliðjunnar, sé orsakavaldur, og þess vegna á einfaldlega að fara að ákvæðum Ríó-sáttmálans og Ramsar-samningsins og grípa til harðra ráðstafana nú þegar.  


mbl.is Stjórnvöld liðsinni við Mývatn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. maí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband