K.S.: Kahn að gera það sem Hitler tókst ekki?

Adolf Hitler ætlaði að knésetja Breta með loftárásum á London haustið 1940 en tókst ekki.

Nú má sjá á bloggsíðu Kristinna stjórnmálasamtaka, að Sadic Kahn, nýkjörinn borgarstjóri Lundúnaborgar, sé að takast það, sem Hitler tókst ekki, og sé í slagtogi með mönnum, sem hafa sagt, að Hitler hafi verið mikilmenni.

Á síðunni er birt myndband samtakanna "Britain first" en í því er Kahn spyrtur saman við hryðjuverkafólkið, sem gerði árásina á London hér um árið og einnig við hryðuverkasamtök Íslam bæði nú og áður.

Kahn hafi velþóknun á þessum samtökum og öfgamúslimum um allan heim.

Myndbandið hefst á kvikmyndum af loftárásum nasista og er skreytt með árásum hryðjuverkamanna á London og New York.

Niðurstaðan og lokaorðin á íslensku vefsíðunni eru skýr:

"London er fallin. Bara byggja mosku og flytja inn nóg af múslimum og Ísland fellur. Þá yrði kannski stofnað "Ísland fyrst". Er það þetta, sem við viljum eða ætlum við ekki að læra af reynslu neinna annarra? Stjarnfræðileg heimska."

Reyndar er "Ísland fyrst" ekki alveg ný hugmynd. Í aðdraganda Seinni heimsstyrjaldarinnar var kjörorð íslenskra þjóðernissinna "Íslandi allt!" 

Af hverju ekki að nota það aftur? Hinn hreini aríski kynstofn.

Þegar maður les um íslenska þjóðernissinna fyrir 80 árum og ber málflutning þeirra saman við þann málflutning, sem nú er í gangi varðandi "Ísland fyrst" verður maður hugsi.

Þegar ég byrjaði að lesa um stjórnmál um 1950 undraðist ég hvernig menn höfðu getað fallið fyrir málflutningi brúnstakkanna en huggaði mig við það að slíkt myndi aldrei endurtaka sig.

En er sagan að endurtaka sig? "Íslandi allt!" á ný?


mbl.is Trump mildast í garð múslima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klíkuskapur þjóða?

Meintur klíkuskapur þjóða hefur lengi loðað við Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og athygli vekur að aðeins eitt land í vesturhluta Evrópu komst áfram í kvöld.

Ef Tékkland er talið í þeim hópi, þótt það hafi verið austan Járntjaldsins í Kalda stríðinu, komust aðeins fjögur lönd úr vestanverðri álfunni áfram í hóp þeirra tuttugu landa sem standa á sviðinu í úrslitakeppninni.

Þegar hallar á vesturhliðina og engin Norðurlandaþjóð kemst áfram, Svíar bjargast vegna þess að vera gestgjafar, finnst ýmsum að Austur-Evrópulöndin hygli hvert ööru, en þá er þess að gæta, að í gegnum árin hafa íslensku þulirnir talað tæpitungulaust um það hve eðlilegt það sé að "vinir okkar" á Norðurlöndunum gefi okkur stig og að Norðurlandaþjóðirnar gefi hverjar öðrum stig.

Í fyrrakvöld var skortur á liðsinni frændþjóða okkar fyrirfram talið há íslenska laginu.

Lyktin af meintum klíkuskap nágranna- og frændþjóða má sjá og hefur lengi mátt sjá um alla álfuna, en að hluta til er skýringin líka sú, að smekkurinn fer oft eftir land- og menningarsvæðum.

Á þeim síðustu árum, sem þátttökuþjóðum hefur fjölgað mikið í austanverðri álfunni, hafa góð lög frá vestur- og norðurhlutanum stundum komist alla leið, lög Svía, Dana og Norðmanna.

Til dæmis hefur ekkert fyrr eða síðar fengið slíka yfirburðakosningu og lag Norðmannsins Alexanders Rybaks fyrir nokkrum árum.

Vonandi verður það svo, að afburða góð lög fái verðskuldaðan framgang í keppninni.  


mbl.is Löndin sem komust áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Róbótablaðamennska og kranablaðamennska.

Jónas Kristjánsson kom á sínum tíma fram með nýyrðið kranablaðamennska, sem táknar þau vinnubrögð fjölmiðla að taka við fréttatilkynningum eða áróðurstexta almannatengsla og birta hann að mestu óbreyttan án þess að hrófla neitt við textanum.

Oftast gerist þetta vegna tímaskorts fréttamanna eða mannfæðar fjölmiðla, og slyngir áróðursmeistarar kunna að nýta sér þetta.

Mannfæð og skortur á fróðum, afkastamiklum og vandvirkum fjölmiðlamönnum veldur því að þeir eru oft ragir við að spyrja krefjandi spurninga, vegna hættu á að viðmælendurnir svari á þann veg að það komi upp um vanþekkingu frétta- eða blaðamanns.

Síðustu 15 ár hefur orðið mikill atgervisflótti frá fjölmiðlum. Öflug fyrirtæki og fjársterk valdaöfl gera þeim fjölmiðlamönnum, sem þeim sýnist vera bestir, tilboð, sem þeir geta ekki hafnað. 

Þetta versnaði stórum í Hruninu og voru tilraunir fjölmiðla til að spara með hressilegum niðurskurði oft vanhugsaðar, þegar ómetanlegir reynsluboltar og viskubrunnar voru slegnir af, en ráðnir sem ódýrastir starfskraftar staðinn, þar sem sem jafnvel tveir eða þrír afköstuðu minna og lakara verki en þessi eini sem þeir leystu af hólmi.

Kranablaðamennska og vanmáttur fjölmiðla er ein helsta ógnin við umbætur í stjórnmálum og efnahagsmálum.

Róbótablaðamennska getur reynst gott verkfæri fyrir öfluga blaðamenn, en ekkert kemur í staðinn fyrir hæfni þeirra sem nýta sér hana. 


mbl.is Róbótablaðamennska sífellt útbreiddari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líkamsform Gylfa Þórs verður mikilvægt á EM.

Líkamsform bestu íþróttamanna gengur oft í bylgjum og nútíma þjálfunaraðferðir taka mið af því.

Afar mikilvægt er að viðkomandi íþróttamaður "toppi á réttum tíma" eins og stundum er sagt, þ. e. að líkamsform hans sé í hámarki þegar mest þarf á því að halda.

Það verður mjög mikilvægt fyrir íslenska liðið á EM að lykilmenn eins og Gylfi Þór Sigurðsson séu þá í hámarks formi.

Gylfi Þór virðist þegar vera með þetta í huga. Hann dró sig í hlé vegna meiðsla fyrir um viku að því er tilkynnt var, en það fylgdi einnig sögu að meiðslin væru ekki alvarlega og að þau ættu að vera að baki þegar stóru stundirnar fara að renna upp eftir mánuð.

Varkárni af þessu tagi kann að vera liður í því að sem minnst truflun verði á þjálfunarrytma Gylfa, sem byggist á því að einblína ekki á núverandi form hans, heldur hvernig það getur orðið sem best á EM, þar sem hann þarf "að toppa á réttum tíma."


mbl.is Gylfi Þór rakaði inn verðlaunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. maí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband