Það er ekki annað í boði.

Þegar við fæðumst og færir oss yl  /

framtíðar morgunroði  /

við engu´um það ráðum að erum við til,  /

það er ekki annað í boði. /

 

Þótt lánið oft hverfult í lífinu sé 

og lítið oft viðleitnin stoði

likami þinn var þér látinn í té,

það er ekki annað í boði.

 

Ef misgjörðir fortíðar mæða þinn hug.

Þótt mistökin öll við þig loði,

þá bættu þitt ráð, sýndu djörfung og dug, -

það er ekki annað í boði.

 

Ef hlutskipti betra þú þráir oft heitt

og þér ógna hættur og voði

engu um flest af því færðu hér breytt,

það er ekki annað í boði.

 

Hvernig sem vera þín veltur og fer

í veraldar basli og moði

njóttu þess hvers morgundags eins og hann er.

Það er ekki annað í boði.

 

Náttúra landsins er líf og er hel

og lífsnautn að fólk hana skoði,

sköpun og eyðingu, eilífðarvél, -  

það er ekkert betra í boði.

 

Því jarðlífið sveiflast sem hverfanda hvel.

Í heilsunni´er fjör eða doði.  

Er dauðinn þig tekur, þá taktu´honum vel,

þá er ekki annað í boði. 

 

Núið, hver stund, sem þú nota skalt vel, -

fæðing og lífshlaup, - fjörbrot og hel,

upphaf og endir, hluti´af eilífðarvél, -

það er ekki annað í boði.

 

Já, upphaf og endir í eilífðarvél,-

það er ekki annað í boði.


mbl.is „Styrkurinn felst í að vera óhrædd“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það besta, sem ég veit, er að gera ekkert..." sagði Púlli.

Páll Jónsson, sem gekk undir nafninu Púlli, var lífskúnstner, setti svip á lífið í miðbænum í Reykjavík og var þekktur fyrir lífsgleðin og áhyggjuleysi.

Haraldur Á. Sigurðsson leikari kunni fjölda margar skemmtilegar sögur af Púlla, sem hann sagði á héraðsmótum um allt land árið 1959 og ég hef geymt í huga mér síðan.

Nokkrar sögurnar fjalla um leti Púlla.

1. Auglýst var staða forstjóra Tjarnarbíós. Púlli hitti Harald á förnum vegi, sagðist ætla aö sækja um og bað Harald um meðmæli. "Komdu á skrifstofu mína og við græjum þetta,"svaraði Haraldur, en Púlli sagðist ekki nenna því akkúrat á þessu augnabliki og myndi koma siðar.

Þeir hittust nokkrum sinnum á gangi eftir þetta og Haraldur minnti Púlla á meðmælin, en Púlli svaraði: "Det haster ikke eins og Danskurinn segir."

Daginn áður en umsóknarfresturinn rann út hittust þeir enn og aftur á förnum vegi og Haraldur sagði við Púlla: "Nú verðum við að drífa í þessu, umsóknarfresturinn rennur út á morgun."

En Púlli svaraði: "Æ, ég er hættur við."

"Af hverju?" spurði Haraldur.

"Ég fór að hugsa um það að ég gæti kannski verið ráðinn," svaraði Púlli.

 

2. Púlli var eitt sinn spurður hvað væri það besta sem hann gæti hugsað sér. Svarið kom um hæl: "Það besta, sem ég veit, er að gera ekki neitt og hvíla sig svo vel á eftir."

 

3. Púlli var hjartveikur og gekk með pillur á sér, sem skyldi taka umsvifalaust ef hann fyndi fyrir óþægindum. Hann átti bróður í Vík í Mýrdal, sem lést einn góðan veðurdag.

Daginn eftir var Púlli í skemmtilegu kjaftasnakki í Austurstræti þegar hann var að segja skemmtilega sögu en fann fyrir óþægindum fyrir brjóstinu. En hann tímdi ekki að hætta rabbinu í miðju kafi og tók pillurnar of seint.

Þegar einu vini Púlla voru sögð tíðindin af andláti hans sagði hann: "Þetta var Púlla líkt. Ekki nennti hann að fylgja Böðvari bróður sinum til grafar." 

 


mbl.is Ætlar að gera „ekkert“ sem forseti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síbylja kollvarpskenningarinnar.

Síðustu misseri hafa andstæðingar nýrrar íslenskrar stjórnarskrár þulið síbylju um það að hún "kollvarpi" íslensku stjórnkerfi. Svo langt hefur verið gengið við að tala frumvarp stjórnlagaráðs niður að fullyrða að með frumvarpinu sé snúið baki við "hinu norræna módeli" og stjórnarskrám í anda þess besta sem gerist í Evrópu.

Þetta er fjarri sanni og í besta falli gróf vanþekking. Nýja stjórnarskráin viðheldur öllum meginþáttum íslenskrar stjórnskipunar, og við samningu hennar var höfð hliðsjón af því besta sem nýjar stjórnarskrár á Norðurlöndum hafa upp á að bjóða auk þýsku stjórnarskrárinnar.

Meira að segja verður stjórnarskrá Dana frá 1953 að teljast nýleg miðað við þá, sem þeir settu 1849 og er enn að meginstofni í gildi hjá okkur, 166 árum eftir að Jón Sigurðsson og hans menn hófu baráttu fyrir Þjóðfundinum 1851 og gerð nýrrar íslenskrar stjórnarskrár.

Ein af röksemdum kollvarpskenningarinnar er sú athugasemd Feneyjanefndarinnar að nýja stjórnarskráin myndi valda óróa og togstreitu á milli þings, framkvæmdavalds og forseta Íslands vegna málskotsréttar forsetans.

En þessi athugasemd Feneyjanefndarinnar á líka við um núverandi 26. grein um málskotsrétt forseta Íslands, sem vel hefur reynst, og margir hinir sömu, sem nú hamast gegn frumvarpi stjórnlagaráðs, hafa mært 26. greinina og beitingu hennar hástöfum!

Hamagangurinn gegn nýrri stjórnarskrá er beint framhald af því þegar Trampe greifi stöðvaði nýja íslenska stjórnarskrá Jóns Sigurðssonar og Þjóðfundarins fyrir 165 árum.  

1851 var það dönsk valdastétt sem hélt vörð um hagsmuni sína, en nú er það íslensk valdastétt.  

 

 

 


mbl.is Segir Guðna vilja kollvarpa stjórnarskránni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. maí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband