Mælikvarði á lífvænlega byggð: Ungt fólk og konur með börn.

Í tæplega öld hefur myndast sú hefð varðandi íslensk byggðamálað taka mið af hreyfingu fólks á milli landshluta. Strax í upphafi myndaðist tilhneiging til að líta eingöngu á þá einföldu "atvinnusköpun" sem felst í vinnu í verkafólks í framleiðslufyrirtækjum.

Það er aðeins á síðustu árum sem önnur atvinnusköpun svo sem skapandi greinar, hefur komist á blað og einnig það að líta ekki eingöngu á fjölda starfa verkafólks heldur fremur á samsetningu mannfjöldans sjálfs.

Því engu skiptir hversu mörg störfin eru, ef inn í mannfjöldann vantar ungt fólk og konur á barneignaaldri.

Á sama hátt skiptir heildarmannfjöldinn í landinu ekki máli, ef þetta fólk vantar.

Þess vegna er það alvarleg stórfrétt ef kjör ungs fólks dragast svo aftur úr að hætta sé á að það flytji úr landi.

Fulltrúar gamals tíma amast mjög við því að litið sé á málin frá þessum sjónarhóli, - segja að þeir sem vilji breytingar til hins betra, séu að útmála "ónýta Ísland" og vilji að Íslendingar gefist upp og flýi á náðir ESB.

Slíkur málflutningur felur í sér flótta frá veruleikanum, gera lítið úr viðleitni til að gera sér grein fyrir ástandinu svo að hægt sé að bregðast við því.


mbl.is Unga fólkið dregst aftur úr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frankensteinar framtíðar?

Hugbúnaður er gott orð. Það felur í sér, að "dauður" búnaður geti framkvæmt hluti sem bankar í það að vera á pari við hugsun mannsheilans.

Eftir því sem munurinn á eðli heilastarfseminnar og tölvubúnaðar verður minni er hægt að ímynda sér að smám saman nálgist sú stund, að vélmenni með innbyggða hugarorku og hugarstarfsemi verði gædd vilja, sem á endanum geri þeim kleyft að rísa gegn skapara sínum.

Nokkur konar Frankenstein.

Þá gæti illt orðið nærri, rétt eins og í sögununni um Frankenstein.

Þess má geta, að 1983 var mannkynið næst því að tortíma sér í kjarnorkustyrjöld af völdum bilunar í tölvubúnaði.

Síðan þá hafa orðið stórstígar framfarir á þessu sviði, sem allt eins geta vakið ugg eins og bjartsýni.


mbl.is Stýrðu vélmenni með hugarorkunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægfara og hljóðlát kyrking og eyðing í Mývatnssveit.

Undanfarin 45 ár hefur einstakt lífríki Mývatns og Laxár þolað hljóðlátt líflát af mannavöldum.

Sótt hefur verið að vatninu og einstæðu lífríki þess og umhverfi úr þremur áttum.  

Eins og títt er um slíkt fyrirbæri, byrjaði þetta frekar sakleysilega og fékk að viðgangast vegna þess að hagsmunaaðilum tókst að koma því þannig fyrir, að í stað þess að náttúran nyti vafans eftir að Kísiliðjan var reis 1970 var þessu snúið við.

Í hvert skipti, sem nokkuð það gerðist sem gæti þýtt lokun Kísiliðjunnar, varð það að stærstu fréttinni, kallað úlfur! úlfur! og fullyrt að lokun hennar myndi þýða endalok mannlífs og byggðar í Mývatnssveit.

Svo hætti Kísiliðjan loks starfsemi fyrir rúmum áratug af markaðsástæðum og mannlíf og byggð héldu sínu striki, - úlfurinn kom aldrei. Og það þótti ekki frétt.  En skaðinn var skeður: Stórfelld hnignun lífríkis vatnsins.  

En nú kom tvenns konar vá til sögunnar í stað Kísiliðjunnar, annars vegar sprenging í ferðamannastraumi og hins vegar stórfelld áform um að gera austurbakka Mývatns og allt svæðið norðaustur af vatninu, allt norður í Gjástykki, að samfelldu virkjanasvæði.

Margföld umferð og umsvif við vatnið án viðhlítandi mótvægisaðgerða fær að viðgangast án þess að séð verði að nokkur hreyfi legg né lið.

Allir hugsa um það eitt að ná sem skjótfengnustum gróða, án nokkurra varnarráðstafana.

Og Landsvirkjun hefur ekki lagt til hliðar áform um 90 megavatta jarðvarmaraforkuvers skammt frá austurbakka vatnsins, og því síður áformaða aðför að Leirhnjúks-Gjástykkissvðinu í formi stórrar stækkunar Kröfluvirkjunar og eftirfylgni þess að samstarfsnefnd um skipulag miðhálendisins samþykkti einróma að Leirhnjúks-Gjástykkissvæðið skyldi verða að iðnaðarsvæði, virkjanasvæði.

Mat á umhverfisáhrifum virkjana á Kröflusvæðinu er þess eðlis með eindæmum er varðandi svæði sem á engan sinn líka á jörðinni, ekki heldur hér á landi.

 

Menn dreymir um fé og frama

í ferlegu umhverfisdrama,

með eyðingu og aðför 

við alvaldsins fótskör 

og öllum er andskotans sama.

  


mbl.is Áhyggjur af lífríki Laxár og Mývatns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. maí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband