Sérkennilegur spuni og afneitun.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson virðist vera kominn galvaskur til leiks í íslenskum stjórnmálum ef marka má digurbarkalegar yfirlýsingar hans bæði á Sprengisandi í morgun á Eyjunni í dag og þessar yfirlýsingar í báðum þáttunum gerðar upp í heild.

Hann sér ekki eftir neinu nema því að hafa verið of barnalega saklaus þegar hann hafi verið leiddur í lævíslega gildru í sjónvarpsviðtalinu fræga 11. mars.

Hann sakar forseta Íslands um að hafa rofið trúnað trúnað við sig varðandi einkaviðtal þeirra á Bessastöðum og að koma í bakið á sér með því að halda strax dæmalausan blaðamannafund, sem hefði átt að vera liður í leikfléttu forsetans sem miðaði að því að tryggja forsetanum setu í embætti í eitt kjörtímabil enn, hugsanlega með því að hann skipaði sjálfur sérstaka starfstjórn! 

Þessar spuni Sigmundar eru þvert á álit flestra, sem sjá ekki betur en að forsetinn hafi þvert á móti lagt sitt af mörkum til þess að Sjallar og Framsókn gætu haldið áfram stjórnarsamstarfi.

Svo blindur virðist SDG enn á Bessastaðaför sína að honum finnst eftir á ekkert athugavert við það að hann hafi "ítrekað" krafið forsetann um að lofa sér því fyrirfram að veita honum samþykki til þingrofs síðar.

Því lýsti forsetinn strax réttilega sem kröfu um að SDG gæti notað slíkt loforð sem svipu á samstarfsflokkinn í pólitískum aflraunum, en svo blindur er Sigmundur enn, að hann sér ekkert athugavert við þessa beiðni sína.

Sigmundur virðist vera í mikilli afneitun, ætlar að fara um landið og undirbúa áframhaldandi setu í embætti formanns og stefna að því að verða forsætisráðherra á ný!

 


mbl.is Snýr Sigmundur aftur með skegg?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafið gleymist allt of oft.

"Föðurland vort hálft er hafið..." var ort á sinni tíð. Og ef miðað er við flatarmál íslenskrar auðlindalögsögu (mun betra orð en efnahagslögsaga) er föðurland okkar margfalt stærra en það sem skilgreint er sem þurrlendi.

Alltof sjaldan er minnst á súrnun sjávar, hvað þá á minnkun súrefnis í hafinu og það að fiskistofnar flytji sig.

Þar sem um er að ræða mesta magn koltvísýrings í andrúmsloftinu í 800 þúsund og hraðari vöxt þess en dæmi eru um, gildir máltækið um að í upphafi skyldi endinn skoða.

Því miður er mikið til í því sem Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands hefur sagt, að vegna hinna tröllauknu verkefna náttúruverndarfólks megi segja að náttúruverndin nái aðeins niður í flæðarmál, og að verndun hafsins verði því of mikið útundan.

Því þarf að breyta, bæði í umræðunni og í aðgerðum.


mbl.is Hlýnunin gæti skapað súrefnisþurrð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tsunami umhverfis jörðina?

Mikið hefur verið skrafað og skrifað um þá loftsteina, sem fallið hafa á jörðina í milljóna og milljarða ára rás, og áhrifin af árekstrum þeirra við jörðina.

Meðal annars giskað á að risaeðlurnar hafi dáið út af völdum falls stórs loftsteins á jörðina.

Allt eru þetta þó smámunir miðað við það sem menn velta nú fyrir sér varðandi áhrif gríðarlegs flykkis sem fallið hafi á haf, sem hafi verið á mars fyrir 3,4 milljörðum ára og valdið 120 metra hárri flóðbylgju, "Tsunami".

Þar sem mikill meirihluti yfirborðs jarðar er þakið sjó, yrðu mestar líkur til að ofurloftsteinn félli í haf ef hann rækist á jörðina.

120 metra há flóðbylgja er ekkert smáræði. Kæmi slík flóðbylgja við Ísland myndi nánast öll byggð á landinu lenda í henni. Öll íbúðahverfi á höfuðborgarsvæðinu eru í minni en 120 metra hæð yfir sjávarmáli og sama er að segja um öll þéttbýlissvæði landsins.

Svipað er að segja um meirihluta byggðar í heiminum. Lönd eins og Holland og Bangladesh myndu drukkna alveg og meginhluti þéttbýlis í flestum löndum.

En á móti kemur að það er með sanni hægt að nota orðið "stjarnfræðilegur" niður á við um líkurnar á því að svona flóðbylgja geti orðið til á jörðinni.

En sama má auðvitað segja um mars, og þar gerðist þetta sennilega samt ef kenningar þar um eru réttar.


mbl.is 120 metra öldur eyddu ströndum Mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. maí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband