Myrkvanum lokið.

Sólmyrkvinn skóp ástand, ansi dimmt

og enginn vissi hvar það myndi lenda.

Er fólk tók kipp og fé sitt lagði inn grimmt

var fjárhagslegi sólmyrkvinn á enda.


mbl.is Komið nóg fyrir skuldinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Eitthvað annað" var lykillinn.

Allan fyrsta áratug þessarar aldar var af hálfu ráðandi afla talað með fyrirlitningartóni um "eitthvað annað" en stóriðju sem grunn undir betri kjörum.

Nú liggur fyrir að á undra fáum árum hefur "eitthvað annað" í formi ferðaþjónustu og skapandi greina skapað tugi þúsunda nýrra starfa og uppgang í efnahagslífinu.

Stórlækkun eldsneytisverðs hefur líka verið drjúg búbót og hækkun gengis krónunnar er fyrst og fremst hægt að þakka þessu tvennu auk þeirrar handstýringar sem gjaldeyrishöftin hafa falið í sér, en getur reynst varasöm og hemill á efnahagslífið til lengdar.


mbl.is Kaupmáttur aukist um 11,6% á einu ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jafnan grunnt á gullæðinu.

Gullæði er jafngamalt mannkyninu. Ísraelsmenn dönsuðu í kringum gullkálf og tilbáðu hann í árdaga, en vægari útgáfa var hugmynd Egils Skallagrímssonar um að dreifa silfri sínu yfir Alþingi að störfum og skemmta sér yfir því þegar allur þingheimur myndi berjast um það.

Í Reykjavík varð gullæði fyrir rúmlega öld þegar fréttist af gullfundi í Öskjuhlíð.

Ghaplin gerði fræga kvikmynd um gullæði sem malaði gull fyrir hann.

Fyrir 25 árum var gerður leiðangur til Sördalen syðst á Blosserville-ströndinni á austanverðu Grænlandi gegnt Vestfjörðum, lögð lendingarbraut þar og flogið þangað frá Ísafirði. 

Þangað fór ég meira að segja fréttaferð fyrir sjónvarp og ekki voru fáar fréttaferðirnar á Svínafellsfjöru á Skeiðarársandi á fyrstu árum níunda áratugarins til að lenda þar og fylgjast með umfangsmikilli leit af gullskipinu svonnefnda, Het Vapen van Amsterdam.

Síðar fór ég að minnsta kosti eina fréttaferð vestar á sandana og flaug á vélknúnum svifdreka í leit að hinu mikla gullskipi eftir að í ljós kom að gullskipið á Svínafellsfjöru var flak af þýskum togara.

Allan tímann voru gamlir menn í Öræfasveit sem bentu á að gullskipið hefði farist við Skaftafellsfjöru en ekki Svínafellsfjöru, og síðasta leitin eystra var langt vestan við báðar fjörurnar.

Fyrir um 20 árum var leitað að gulli við Þormóðsdal austur af Reykjavík.

Nú á að leita að gulli á Tröllaskagasvæðinu og virðist af fregnum, að leitarsvæðið sé afar stórt.

Ekkert gullæði mun þó enn komast í hálfkvisti við gullæði peninganna sem heltók þjóðina í aðdraganda Hrunsins og loforðanna um gull og græna skóga nokkrum árum eftir það.

Og nú gengur eins konar gullæði yfir ferðaþjónustuna, þar sem gullæðishugsunin birtist í drullusvaði og kúki og pissi á ferðamannastöðum, ferðamenn eru varaðir við göróttu íslensku kranavatni, en það sama kranavatn sett á flöskur og selt dýrum dómum.

Og enn og aftur er hafin leit að gullskipinu á Skeiðarársandi, en ekki fer sögum af því hvort farið verði eftir ábendingum öldunga um að það liggi á Skaftafellsfjöru en ekki Svínafellsfjöru.


mbl.is Gullleit á Norðurlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sól tér sortna...

Sól tér sortna,  -  /

sannlega´er lánið valt.  /

Sólmyrkvagleraugu gagnleg  /

gefin voru út um allt. /

 

Í basli með nýjungarbólu /

hins bjartsýna´og gjafmilda manns  /

sortnaði fyrir sólu /

og svart varð bókhaldið hans.

 

 

 


mbl.is Gjaldþrot vegna sólmyrkvagleraugna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. maí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband