Blær átakastjórnmála hjá Davíð.

Davíð Oddsson naut sín vel þegar svonefnd átakastjórnmál voru algeng við stjórn landsins og sveitarfélaganna.

Á ferli sínum hefur hann fært rök að því að nauðsynlegt sé að stjórnmálamenn tali skýrt og ákveðið í málflutningi sínum og leyfi ólíkum og mismunandi sjónarmiðum og skoðunum að vegast á.

Á þann hátt geti kjósendur helst myndað sér skoðanir og stjórn ríkisins og sveitarstjórnir komist að niðurstöðum sem byggjast á því að meirihlutinn ráði.

Ýmsir hafa gagnrýnt stjórnmálastarfsemi af þessu tagi og notað orðið "skotgrafir" til að lýsa göllum þessarar aðferðar í lýðræðislegu ferli.

Málflutningur Davíðs fyrir forsetakosningarnar bera svolítið keim af þessu. Hann skýtur föstum skotum á köflum að helsta mótframbjóðanda sínum og er óragur við að viðra ákveðnar skoðanir sínar.

Þótt Davíð hafi oft notið sín vel í átakastjórnmálum á fyrri tíð með leiftrandi kímni og rökfimi oft á tíðum, virðist þessi aðferð hans og heitra fylgismanna hans ekki enn hafa breytt miklu um fylgi hans eða annarra frambjóðenda enn sem komið er ef marka má nýjustu skoðanakannanir.

Með aldrinum hættir Davíð og fylgismönnum hans stundum til þess að gera mótframbjóðendum sínum upp skoðanir með því að taka einhver atriði út úr og alhæfa um þau, - og í framhaldinu að berjast síðan við þær af miklum krafti.

Má sem dæmi nefna að fullyrða að Guðni Th. hafi barist hart fyrir inngöngu Íslands í ESB og gert lítið úr baráttu Íslendinga í þorskastríðunum, jafnvel talið hana vera þjóðsögu.

En það verður ekki skafið utan af því að þátttaka Davíðs hleypir heilmiklu fjöri í kosningabaráttuna. Það er aldrei lognmolla þar sem Davíð er.


mbl.is Guðni með 57% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þegar jörðin þiðnar koma ormarnir upp."

Ofangreint máltæki kemur upp í hugann þegar hlustað er á frétt dagsins varðandi söluna á ríkisbönkunum og fleiri ríkisfyrirtækjum fyrir hálfum öðrum áratug.

Ríkisfyrirtækjajörðin þiðnaði og ormar gróðaafla komu upp.

Ég verð sífellt hrifnari af þessu rússneska máltæki, sem varfærnir íbúar Sovétríkjanna vitnuðu í þegar þeir voru spurðir við upphaf Glasnost og Perestrojku um álit þeirra á þessum ráðstöfunum Gorbatjofs.

Sovétmenn höfðu myndað sér hentuga aðferð til að neita að segja skoðanir sínar með því að svara: "Ég hef enga skoðun á þessu, en það er til rússneskt máltæki sem segir:...

Og síðan mæltu þeir máltækið af munni fram án þess að segja neitt annað.

Það er sagan endalausa að þegar los kemur á þjóðfélagið vanmeti menn þau öfl, sem þá ryðja sér til rúms.

Hindenburg forseti Þýskalands og Von Papen vanmátu Adolf Hitler gróflega þegar hann braust til valda. Hindenburg hafði afar lítið álit á "austurríksa liðþjálfanum" og Von Papen taldi það verða létt verk og löðurmannlegt að hafa hemil á honum.

Annað kom í ljós.  

Gandhi var gróflega vanmetinn lengi vel í baráttu hans fyrir sjálfstæði Indlands. Haft er eftir honum: Fyrst láta þeir sem þú sért ekki til, síðan gera þeir gys að þér og tala um þig af lítilsvirðingu, síðan vinnur þú.

Winston Churchill vanmát stórlega hug bresku þjóðarinnar í stríðslok og treysti á það að frábær forysta hans í gegnum stríðið myndi gera annað óhugsandi en að hann sigraði í fyrstu þingkosningunum eftir stríð.

En meirihluti kjósenda var dauðfeginn að stríðinu var lokið og uppteknari af umbótum í innanlandsmálum.

Aðeins níu árum eftir að Churchill hafði talað í frægri ræðu um "stærstu stund Bretlands og heimsveldisins í þúsund ár, hafði Indland fengið sjálfstæði og lönd breska heimsveldisins á hraðri leið til sjálfstæðis.

Á Atlantshafsfundi Roosevelts og Churchills 1941 hafði Roosevelt gefið það sterklega í skyn við Churchill að Bandaríkjamenn myndu að vísu styðja Breta gegn Öxulveldunum eftir megni, en þó ekki veit stuðning í því að koma í veg fyrir lönd breska samveldisins gæti fengið sjálfstæði.

Bandaríkjamenn og Vesturveldin vanmátu Mao og baráttu Víetnama fyrir sjálfstæði og lögðu hvað eftir annað rangt mat á ástandið í Írak, fyrst varðandi upphaflegan stuðning þeirra við Saddam Hussein og síðar varðandi seinna varðandi innrásin í Írak 2003.

Þeir vanmátu líka ástandið í Íran þegar þeir héldu, að með því að ryðja burtu Mossadek eftir stríðið og styðja keisara, sem gæti orðið þægur bandamaður.

En Resa Palevi varð æ firrtari eftir því sem valdatími hans lengdist uns honum var steypt af öflum, sem nýttu sér svipaða óánægju og Mossadek hafði leyst úr læðingi 30 árum fyrr.

Bæði Sovétmenn og Bandaríkjamenn vanmátu möguleika sína í Afganistan, Sovét menn þó sýnu meira.

Síðustu ár hefur formúlan fyrir "arabísku vori" í framhaldi af "frelsun" Íraks, Líbíu og Sýrlands reynst óraunhæf og valdið meira tjóni en gagni.

Rússneska máltækið um það sem tæki við eftir að sovétfrostinu lyki reyndist eiga við þegar allt fór þar úr böndunum eftir fall Sovétríkjanna og ormar olígarkanna og ósvífinna gróðapunga spruttu upp og sölsuðu mestöll auðæfi landsins undir sig.

Og ef marka má skoðanakannanir er af sú tíð, að "fjórflokkurinn" svonefndi njóti fylgis allt að 90 prósent kjósenda, því að þetta fylgi hefur ekki verið samanlagt nema rúmlega 60% í meira en heilt ár.     

 

 


mbl.is „Ég vanmat óstöðugleikaöflin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árgangar eins og í þorskinum?

Fyrir nokkrum árum náði íslenska unglingalandsliðið tímamótaárangri í alþjóðlegri keppni og þá var hægt að spá því hér á síðunni, að ef rétt væri haldið á spilum, gæti hér verið að skapast nokkurs konar gullaldarlið í íslenskri knattspyrnu.

Sú varð raunin, að aðeins það eitt að hafa spilað sig af öryggi inn í lokakeppni EM og velgt sjálfum Hollendingum undir uggum er nægilegt útaf fyrir sig og allt meira en það aðeins bónus.

En hvað svo? Er í sjónmáli nýrri árgangur sem getur tekið við kyndlinum?

Það er ekki svo að sjá svo óyggjandi sé, og margt í umgerð íslenskrar knattspyrnu gefur tilefni til að krefjast úrbóta, því að annars getur komið bakslag þegar´núverandi landslið fer að eldast.

Að einu leyti hrjáir svipað íslenska knattspyrnu og þá ensku: Of margir erlendir leikmenn eru hjá félögunum og þetta bitnar á landsliðunum.

Mikill fjöldi erlendra leikmanna veldur því að heimamenn eiga erfitt með að komast lengra en að sitja á bekknum, og verða of oft jafnvel að víkja fyrir gömlum erlendum leikmönnum, sem hingað koma í lok keppnisferils síns.  

Í öllum íþróttum er næg keppnisreynsla í krefjandi alvöru leikjum forsenda fyrir framförum.

Allt of margir ungir og efnilegir íslenskir leikmenn fá ekki tækifæri til þess að öðlast þessa ómetanlega reynslu, ekki einu sinni þeir, sem eru jafnvel valdir efnilegustu leikmenn síns aldursflokks.

Sumir neyðast til að fara of ungir til útlanda í örvæntingarfullri von til að bæta þetta íslenska ástand upp, - of ungir til þess að vera búnir að öðlast þroska til þess að standast það álag sem framandi umhverfi og ungur aldur leggja á þá.

Mistekst kannski og koma heim vonsviknir eftir að hafa misst úr dýrmæt ár til náms og undirbúnings fyrir lífið.

Rétt eins og í þorskstofninum þarf að rækta og vernda uppvaxandi árganga og sjá til þess að skilyrði þeirra til vaxtar verði sem best.

Núna njótum við einstaks árgangs á knattspyrnuvellinum, en framantaldir annmarkar varðandi árgangana sem eiga að taka við eru áhyggjuefni, ástand sem krefst aðgerða.


mbl.is Breytingar í íslenska fótboltanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. maí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband