Kárahnjúkavirkjun afturkræf framkvæmd og með undirskrift Vigdísar? NEI.

Davíð Oddsson sagði í umræðuþætti forsetaframbjóðenda á Stöð 2 í kvöld að stærð mála og það, hvort þau væru afturkræf, skiptu miklu máli þegar forseti stæði frammi fyrir því að skrifa undir lög frá Alþingi.

Vel hefði mátt ræða þetta frekar í ljósi þess, að á sínum tíma sagði Vigdís Finnbogadóttir, að í upphafi forsetaferils síns hefði hún ákveðið með sjálfri sér, að sitt prinsip skyldi vera að undirrita ekki lög, sem fælu sér mikilvæga óafturkræfa gerninga eins og Kárahnjúkavirkjun.

Best er að vísa orðrétt í bókina "Kárahnjúkar - með og á móti", sem kom út árið 2004. Þar segir orðrétt neðst á blaðsíðu 79 í kaflanum "Mesta afsal og missir lands í Íslandssögunni", og staðfesti Vigdís eftirfarandi texta þegar þessi kafli var borinn undir hana við samningu bókarinnar: 

"Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, hefur sagt opinberlega, að hið eina sem hún hefði örugglega ekki skrifað undir sem forseti væri lögleiðing dauðarefsingar, ef svo ólíklega hefði viljað til að slíkt hefði komið til hennar kasta, og afsal á landi. Það vekur athygli að hvort tveggja er óafturkræft. Hinn dauði verður ekki vakinn til lífsins og eyðilagt land verður ekki endurheimt. Skilaboðin eru skýr. Það liggur ljóst fyrir að Vigdís hefði ekki undirritað frumvarp um Kárahnjúkavirkjun hefði það verið lagt fyrir hana sem forseta. ÞAÐ HEFUR HÚN NÚ STAÐFEST." (Leturbreyting mín)

Vigdís minnist ekki orði á undirskriftir, - þetta var einfaldlega prinsipmál fyrir hana.

Erfitt er að skilja þau orð Davíðs í umræðuþætti á Stöð 2 í kvöld að Vigdís hefði skrifað undir lög um Kárahnjúkavirkjun næstum sjö árum eftir að hún lét af embætti.

Kannski er þetta sérkennilegt minnisleysi varðandi svo stóran og afdrifaríkan atburð með mestu mögulegu óafturkræfu neikvæðum umhverfisáhrifum og spjöllum Íslandssögunnar.

Kannski tengt ómeðvitaðri þrá eftir því að Vigdís hefði verið þæg og góð og undirskrift hennar gæðastimpill

Eða að treysta á vanþekkingu þáttarstjórnenda og áhorfenda, sem sæu á þessu, að jafnvel Vigdís hefði ekkert haft við Kárahnjúkavirkjun að athuga. 

En það er gott að Davíð hefur bryddað upp á tali um stórar og óafturkræfar ákvarðanir, því að það vekur spurninguna sem ekki hefur verið spurt en þarf að spyrja fyrir þessar forsetakosningar:

Hvaða frambjóðendur núna hafa í heiðri sama prinsip og Vigdis Finnbogadóttir hafði?  

 

P.S. Með því að skoða ummæli Davíðs orðrétt má sjá, að hann orðar þetta það ónákvæmt að með góðum vilja má skilja það sem svo að hann sé að vitna í skoðanir Vigdísar 2004. Hann hefði þurft að orða þetta skýrar, svo að engin tvímæli væru um þetta.  


mbl.is Mikilvægt að meta hvert mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löngu tímabært framfaraskref.

Loksins, eftir að áratuga draumur um millidómstig hefur ræst, hillir undir einhverja mestu framför, sem möguleg er í meðferð dómsvaldsins á Íslandi.

Lýðræði við stjórn landsins og löggjöf og réttlæti í dómskerfinu fæst ekki ókeypis.

Hvort tveggja er dýrt og kostar mikið fé, enda er um að ræða grundvöll fyrir réttlátu nútíma samfélagi.

Hinn kosturinnn, að reyna að komast ódýrt fram hjá því að rækta þessi svið, verður dýrari ef ókostir skorts á lýðræði og réttlæti fá að valda tjóni.

Jón Steinar Gunnlaugsson hefur réttilega bent á ókosti þess að auka álag á Hæstarétt úr hófi fram. Það hefur ekki einasta kostað hættu á því að rétturinn fái ekki tíma og aðstöðu til að kryfja erfið mál til mergjar, og aukið þannig hættu á röngum dómum, heldur er það afleitt fyrir stöðugleika í dómum og mótun fordæma, að skipun dómara í málum sé vegna álags og fjölgunar hæstaréttardómara, undirorpið miklum breytingum.

Það skapar til dæmis hættu á því að það verði áhætta falin í því að sækja mál fyrir réttinum og veðja á það að vera heppinn með það í hlut hvaða dómara kemur að skipa réttinn í einstaka málum.

Auk millidómstigs kæmi fyllilega til greina að setja á stofn sérstakan stjórnlagadómstól svipaðan þeim sem eru í mörgum öðrum löndum.

Sú afsökun, að vegna smæðar þjóðarinnar sé of dýrt að hafa millidómstig og stjórnlagadómstól, er hættuleg, því að ef Ísland ætlar að keppa við önnur lönd um góða stjórnsýsluhætti, verður það að vera á öllum mikilvægustu sviðum þjóðlífsins.  


mbl.is Dómsmál munu fá vandaðri meðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíu sinnum fleiri en í stóriðju en samt ekki "atvinnuuppbygging"?

Á þeim 50 árum sem liðin eru síðan stóriðjustefnan var nánast lögfest hér á landi sem eins konar trúarbrögð, samanber kristnitökuna árið 1000, hefur hún fengið á sig gæðastimpilinn "atvinnuuppbygging" sem helst er aldrei notuð um önnur störf en þau sem felast í framleiðslu, sem hægt er að mæla í tonnum.

Sömuleiðis hefur stóriðjan fengið annan gæðastimpil, svonefnd "afleidd störf", sem aldrei er notaður á atvinnugreinar eins og ferðaþjónustuna.

Það er auðvitað ekki sanngjarnt, rétt eins og að til dæmis þjónusta við viðhald og þjónustu við tugþúsundir bíla, sem ferðamenn aka, geti ekki talist afleidd störf.

Enda skapa allar atvinnugreinar afleidd störf, þannig að ef hver og ein þeirra fengi að bæta við starfsmannafjölda sinn afleiddum störfum, yrðu störfin 7-800 þúsund, allt að þrisvar fleiri en nemur öllum íbúum landsins.  

Ævinlega þegar ætlunin er að reisa álver eða stóriðjufyrirtæki (heavy instustri) er þeim möguleika stillt upp sem einu leiðina til "atvinnuuppbyggingar" en þjónustugreinar á borð við ferðaþjónustuna afgreiddar sem andstæða þess  og gildi þeirra afneitað.

Þótt öll orka landsins yrði virkjuð fyrir stóriðju, myndu innan við 2% vinnuaflsins fá störf  í stóriðjuverunum, en núna er þessi tala í kringum 1% eða einn tíundi hluti af störfunum í ferðaþjónustunni.  

 


mbl.is 22 þúsund vinna í ferðaþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mýtan um hreinu borgina.

Vinur minn einn á bíl erlendis, sem hann notar þegar hann fer til meginlands Evrópu. Hann segist geta treyst því að bíllinn sé ávallt hreinn þegar hann kemur að honum eftir að hann hefur staðið kyrr í talsverðan tíma.

Þessu sé þveröfugt farið í Reykjavík. Þar sem stórum bílum sé ekið úr skítugum svæðum eins og húsgrunnum erlendis, séu hjól þeirra þvegin þegar þeir fara út í umferðina.

Aldrei sést neitt slíkt gert hér.

Ein algengasta leiðin, sem ég hjóla, er um Malarhöfða. Sú gata ber nafn með rentu, en enn betra væri að kalla hana Sandstormshöfða eða moldrokshöfða.

Stórir malar-og sandflutningabílar aka um þessa götu, bera sand og leir inn á hana og þeyta síðan óhreinindunum upp ásamt fleiri þungaflutingabílum, sem fara títt um þarna um

En geta skal þess sem jákvætt er. Smám saman fara hjóla- og gangstígar batnandi og almennt eru hjóla- og gangstígar mun betri en áður var, enda ekki úr háum söðli að detta.

Það er ekkert smáræðis munur á nýjustu stígunum og þeim gömlu. Dæmi er nýr hjóla- og göngustígur meðfram Háaleitisbraut frá Miklubraut að Bústaðavegi.

Að sjálfsögðu vel malbikaður en ekki með hrjúfum steypuklumpum eins og allt of víða er ennþá.

Dekkin á reiðhjólum eru miklu viðkvæmari og þynnri en dekk á bílum og fjöðrunin að aftan engin á flestum reiðhjólum og því er slétt malbik lágmarkskrafa.  


mbl.is „Þetta er bara hættulegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. maí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband