Tórtóla og fleira rifjast upp við sýningu Áramótaskaupsins 2009.

Við það að horfa á Áramótaskaupið 2009 í sjónvarpinu í kvöld kom vel í ljós hvað atburðir undanfarinna vikna, einkum þó Panamaskjölin, eru náskyldir atburðum áranna 2008-2009, svo sem fræg spurningu Egils Helgasonar um Tortólu í þætti hans.

Einstaka atriði eru þó eðlilega gleymd flestum eins og ummæli Margrétar Tryggvadóttur.

2009 og 2016 kallast á, mótmælafundir, Tortóla, Icesave, loforð SDG, forsetinn, stjórnarsamstarf Sf og Vg o. s. frv.

Meira að segja þyrluslys fyrir nokkrum dögum tengist atburðum Hrunsins.

Örstutt atriði með þjónustufulltrúum í banka lýsti upp það, sem nú hefur komið enn betur fram en fyrr, að á meðan forréttindafólkið bjargaði sínum eignum óskertum og vel það til aflandsfélaga, sáu bankarnir skilmerkilega um að skuldum heimilanna í bönkunum væri "bjargað", það er að borga þyrfti þær, ekki bara að fullu, heldur miklu hærra verði.

Og frammistaða Páls Óskars og annarra í lokalaginu var hrein snilld og texti þessa lags á eins vel við í dag og 2009.    


mbl.is Í þyrlu á meðan aðrir greiði bílalán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðferð Kárahnjúkabókarinnar eða ekki?

Sum deiluefni geta verið svo heit að sú ætlan að reyna að snerta á þeim má líkja við það að reyna að snerta glóandi hlut með töngum. 

Rétt er að taka það fram, að þessi pistill er aðeins skrifaður almennt um ákveðna tæknilega útfærslu við að snerta á heitum deilumálum í fjölmiðlum, ræðu eða riti, og tekið eitt íslenskt dæmi.

Deilur um Kárahnjúkavirkjun voru ákaflega heitar í aðdraganda byggingar hennar og á meðan hún var gerð.

Með útgáfu bókarinnar "Kárahnjúkar - með og á móti" var reynt að varpa ljósi á það flókna og viðkvæma mál með útgáfu bókar, staðreyndir og mismunandi sjónarmið, þar sem á hverri opnu vógust á rök með og á móti, - rökin með vinstra megin á opnunni og rökin á móti hægra megin, líkt og gert er í málflutningi í réttarsal.

Til þess að tryggja sem að bestu rök og mikilvægustu staðreynir kæmu fram, var fulltrúa frá náttúruverndarfólki boðið að lesa yfir sín rök og gera athugasemdir við kaflana vinstra megin, og fulltrúa og helsta talsmanni virkjana á þeim tíma boðið að lesa yfir kaflana sem settu fram rök meðmælenda virkjunarinnar á síðunni hægra megin á hverri opnu.

Þetta tókst og þessi efnistök og útkoman vöktu ekki deilur á sínum tíma.

En margir mánuðir liðu reyndar, þar sem illa gekk að leysa þetta mál farsællega.

Og útkoman hefur vonandi orðið betri og aðgengilegri við það að fá þetta allt fram í einni bók heldur en í tveimur eða fleiri mismunandi bókum.

En reynslan af því að skrifa þessa bók gefur til kynna, að ekki megi mikið út af bregða til þess að sérstakar deilur geti skapast um einstakar bækur, sem skrifaðar eru á þennan hátt. ð8 

 


mbl.is Íhuga kæru vegna Mein Kampf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misjöfn reynsla af kosningabandalögum og samstarfi flokka.

Reynsla af kosningabandalögum hefur verið misjöfn í áranna rás og formið líka misjafnt. Í bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík 1938 stilltu kratar og kommar upp sameiginlegum lista, sem fékk mun minna fylgi en flokkarnir tveir fengu samanlagt í kosningum á undan og eftir.

Í Alþingiskosningunum 1956 mynduðu Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur kosningabandalag sem byggðist á því að flokkarnir ætluðu að ná meirihluta á Alþingi út á rúmlega þriðjung atkvæða með því að nýta sér galla þáverandi kjördæmaskipunar.

Þeir buðu ekki fram sameiginlega lista, heldur var ætlunin að Framsóknarmenn bygðu ekki fram lista í þéttbýliskjördæmum  heldur kysu lista Alþýðuflokksins, en í dreifbýliskjördæmum byðu kratar ekki fram heldur kysu lista Framsóknarflokksins.

Bandalagið fékk nafnið Umbótabandalagið, en öflugir andstæðingar þess klíndu á því heitinu Hræðslubandalagið, sem svínvirkaði greinilega, því að þessi tilraun krata og Framsóknar mistókst.

Eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hafði fengið meirihluta í bæjar- og borgarstjórnarkosningum í Reykjavík samfellt alla öldina að undanteknum kosningunum 1978 tóku andstæðingar Sjalla sig saman og buðu fram sameiginlegan lista, Reykjavíkurlistann eða R-listann 1994 með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem borgarstjórnarefni og höfðu sigur.

Listinn bauð aftur fram 1998 og 2002, en ekki 2006, eftir að samstarfið hafði rofnað, og eftir kosningarnar 2006 mynduðu Sjallar og Framsókn meirihluta.

Það virðist mest fara eftir samhug og heilindum í svona samstarfi hvernig það gengur.

Stundum gefst betur að lofa ákveðnu samstarfi fyrirfram frekar en kosningabandalagi eins og Viðreisnarstjórnin gerði 1963, 1967 og 1971.

Það gekk upp 1963 og 1967, en þegar Samtök frjálslyndra og vinstri manna voru stofnuð og buðu fram 1971, laskaðist Alþýðuflokkurinn það mikið að Viðreisnarstjórnin féll.


mbl.is Samstarf en ekki kosningabandalag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ég tek hundinn!" Kötturinn Kalli.

Gæludýr geta orðið jafnokar mannlegra meðlima í fjölskyldum og miklu meira virði en dauðir hlutir.

Ég reyndi að lýsa þessu í textanum "Ég tek hundinn!" og kynntist þessu sérstaklega vel þegar kötturinn Carl Möller var einn af fjölskyldunni meðan hún bjó í parhúsi.

Þegar við fluttum síðan í blokk var það tilfinningaþrungin kveðjustund þegar Kalli, eins og kötturinn var alltaf kallaður, fékk athvarf hjá miklu sómafólki og dýravinum á bænum Skriðulandi í Langadal.

Vegna þess að engin leið var að Kalli nyti síns þráða frelsis uppi á 9. hæð í blokk og ætti enga leið út og inn nema í gegnum sameign, varð þetta niðurstaðan.

Öðru máli finnst mér gegna ef dýrið fer eingöngu beint út og inn úr húsi án þess að trufla eða ónáða nokkurn.

Kalli var einstæður persónuleiki. Þegar kom að því að flytja hann nauðungarflutningi kom það í minn hlut að sjá um það.  Ég útbjó kassa úr þykkum pappa og lokkaði hann inn í kassan með því að setja inn í hann eftirlætis rétt hans, rækjur.

Bóndinn á Skriðulandi, sem var í Reykjavíkurferð, fékk síðann kassann í hendur og fór af stað með hann norður með Norðurleiðarútunnni.

Kalli trylltist í kassanum þegar honum voru ljós svik mín og hamaðist svo mjög, að þegar rútan stansaði við Ferstikluskála, var hann búinn að klóra gat á kassann og tróð sér hvæsandi í gegnum gatið og hljóp út úr rútunni.

Bóndinn hélt að þar með væri kötturinn horfinn, en þegar síðasti farþeginn gekk inn í rútuna kom Kalli hlaupandi, stökk inn í rútuna og fór beint til bóndans.

Klappaði fótum hans með kattarrófunni eins og katta er siður og gerði sér dælt við hann, stökk upp í fang honum, lagðist þar og malaði.

Þetta var gáfaður köttur, sá að taflið var tapað og kom sér umsvifalaust í mjúkinn hjá nýjum og betri húsbónda.

Nokkrum árum síðar áttum við Helga leið um Langadalinn og fórum að Skriðulandi til að heilsa upp á Kalla, sem hafði verið hvers manns hugljúfi á bænum.  

Hann var með aðsetur í horni í skemmu, og þegar ég kom í dyrnar, fitlaði ég við dyrastafinn eins og ég hafði gert á Háaleitisbrautinni, en þá hafði Kalli ævinlega komið hlaupandi og farið að leika við mig.

En hann sýndi engin viðbrögð.

Ég kallaði þá nafn hans, en hann lá áfram sem fastast og rótaði sér ekki.

Helga nefndi nú nafn hans, og þá kom hann hlaupandi og stökk upp í fang henni en virti mig ekki viðlits.

Að sjálfsögðu, ég hafði svikið hann í tryggðum og greinilegt að hann myndi aldrei gleyma því.

Kalli varð fjörgamall og hrumur. Eitt fagurt og hlýtt sumarkvöld hökti hann hægt inn í eldhús að Skriulandi þar sem fólk sat að snæðingi.

Hann gekk á milli fólksins, nuddaði sér upp við fætur hvers og eins og haltraði síðan rólega út.

Út um gluggann sást hvernig hann dróst hægt upp á smá þúfu fyrir utan, settist rólega, horfði í sólarátt upp til himins og hneig síðan hægt niður, örendur.

Þannig kvaddi þetta yndislega dýr þennan heim og þá, sem honum voru kærastir, með stæl.

Er furða að maður geti komist við þegar maður rifjar upp minningar um slíkt.

Kalli virðist hafa tileinkað sér nokkurs konar austrænt æðruleysi, kannski ekki ólíkt því sem ég var að setja inn í formi langs á facebook síðu minni: "Það er ekki annað í boði".


mbl.is Selja ef hundurinn þarf að fara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. maí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband