Roosevelt var fatlaður forseti.

Franklin Delano Roosevelt var forseti Bandaríkjanna meira en fjórum sinnum lengur en nokkur annar forseti og er talinn með merkustu forsetum Bandaríkjanna og merkustu þjóðarleiðtogum síðustu aldar.

Þegar Roosevelt fékk ungur lömunarveiki og varð að vera í hjólastól, töldu nær allir að stjórnmálaferill hans væri á enda.

En hann lét ekki bugast þótt alla sína forsetatíð þyrfti hann helst að vera í hjólastól eða að í spelkum og láta styðja sig ef hann staulaðist um í þeim.

Roosevelt komst áfram á verðleikum sínum og stjórnmálaafrekum og annað skipti ekki máli.

Þannig á það að vera.     


mbl.is Helgi Hjörvar finnur fyrir fordómum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þið hafið aldrei haft það jafn gott."

"Þið hafið aldrei haft það jafn gott" (You´ve never had it so good) var þekktasta slagorð Harolds Macmillans forsætisráðherra Breta og formanns Íhaldsflokksins í Bretlandi á uppgangstímunum á Vesturlöndum í kringum 1960.

Macmillan vissi um þá tilhneigingu kjósenda að "kjósa með buddunni", það er, láta efnahagslega stöðu sína ráða mestu hverju sinni í kjörklefunum, og nýtti sér það.  

Á Íslandi tók Viðreisnarstjórnin við völdum 1959 og naut þess allt til 1967 að Íslendingar höfðu aldrei áður haft það jafn gott. 

1967 hafði efnahagspólitík íhaldsmanna í Bretlandi étið undan sér og breska pundið riðaði til falls með miklum afleiðingum hér á landi auk þess sem verðfall á mörkuðum og hrun hins stóra síldarstofns stefndi íslenskum efnahag í mesta vanda sinn síðan 1948. 

En Viðreisnarstjórninni tókst að halda góðærissjó fram yfir kosningarnar 1967 þannig að slagorðið "þið hafið aldrei haft það jafn gott" virkaði, enda þótt tvær gengisfellingar og mikil og augljóslega óhjákvæmileg kjararýrnun dyndi yfir strax eftir kosningar. 

En nógu stór meirihluti kjósenda horfði ofan í veskið í kosningunum fyrr á árinu og lét "hrakspár" lönd og leið. 

Fólk þyrptist í siglingar með skemmtiferðaskipum sem sigldu frá Íslandi og hefur viðlíka fyrirbæri aldrei komið upp aftur.

Slagorðið byggir á því að meirihluti kjósenda taki það til sín. Þá skiptir litlu þótt kjör þeirra, sem minna mega sín, svo sem aldraðra og öryrkja og margra af ungu kynslóðinni séu jafnvel síðri en fyrr. 

Ein skýringin á fylgi Pírata kann að vera óánægja með ungu kynslóðarinnar sem hefur að mestu farið varhluta af góðærinu í kjölfar ferðaþjónustusprengingarinnar og lækkaðs olíuverðs. 

Í haust er hugsanlegt og jafnvel líklegt að Panamaskjölin og aukin misskipting verði gleymd og meirihluti kjósenda muni kjósa eftir buddunni. 

Svipað hefur oft gerst áður.


mbl.is Mótmælin haft þveröfug áhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útskýrir varfærnina eftir umferðarslys um daginn.

"Ef fyrir liggur að höggin, sem lemstrað hafa fólk, sem hingað kemur, hafa verið mjög þung, skoðum við og myndum sérstaklega ítarlega alla líkamshluta." 

Þetta sagði læknir á bráðamótttöku Landspítalans  við mig þegar ég var tekinn í myndatöku eftir umferðarslys fyrir tæpum þremur vikum. 

Ég hafði verið á reiðhjóli á gangbraut þegar bíl var ekið þvert á mig vegna þess að bílstjórinn blindaðist á örlagaríku augnabliki af lágri kvöldsól, ég hafði kastast upp á framrúðu bílsins og brotið hana með hlífðarhjálminum og síðan kastast af bílnum og lent harkalega á malbikinu. 

Sjúkraflutningamenn höfðu greint frá brotinni framrúðu og vitnisburði sjónarvotta og á grundvelli þess var farið út í svo ítarlegar myndatökur á bráðadeildinni, að mér fannst nóg um. 

"Þú þarft nú varla að taka myndir af brjóstholinu og lungunum" sagði ég í hálfkæringi við lækninn. "Þú finnur ekkert nema svifryk þar." 

En þá svaraði hann mér á þá leið, sem sagt var frá í upphafi þessa pistils.

Og hann bætti við: "Miðað við frásagnir vitna er ótrúlegt að þú skulir hvergi vera beinbrotinn þótt það sýnist tæpt á einstaka stað. Það er vegna þess að innvortis og útvortis meiðsli allt frá ökklum og hnjám upp í öxl og herðar sýna, að höggið hefur dreifst yfir allan líkamann. Og þau meiðsli samanlagt sýna tvö mikil högg,fyrst á vinstri hlið þína við áreksturinn sjálfan, og síðan á alla hægri hliðina eftir flugið af þaki bílsins og þetta gerir það að gera það að verkum að við viljum hafa þig hérna í nótt."

Mér sýnist, að breski ferðamaðurinn, sem kom á bráðadeild um helgina, hafi verið svo óheppinn að í upphafi hafi tilfelli hans sýnst frekar lítilvægt eins og langflest slysin eru, sem koma þangað inn á borð.

Í þeim efnum geta fyrstu vitnisburðir orðið afdrifaríkir, svo sem ef viðkomandi virðist einfaldlega aðeins hafa hrasað eða dottið um sjálfan sig á jafnsléttu.

Ef vegfarendur hefðu komið að mér þar sem ég lá eftir að hafa, að því er virtist, aðeins hrasað á hjólinu,er ekki víst að viðbrögð allra hefðu orðið á þá lund, sem raun bar vitni, umsvifalaust kallað á sjúkraflutningamenn og lögreglu og greinargóð lýsing sjónarvotta legið fyrir þegar á bráðadeild var komið.  

Við slíkar aðstæður getur skilið á milli feigs og ófeigs og hinn heppni getur þakkað forsjóninni fyrir að ekki fór verr. 


mbl.is Ferðamaðurinn var sendur heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. maí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband