Þið munið hann Lúkas.

Að mörgu leyti hafa svonefndir samfélagsmiðlar gert umræðu í þjóðfélaginu gagnsærri og oft á tíðum fært fólki betri upplýsingar og markvissari og réttari meðhöndlun mála en þegar kjaftasögur og slúður grasseruðu undir yfirborðinu.

En furðu oft hefur hraðinn á umfjöllun og umræðum haft þveröfug áhrif og er Lúkasarmálið á Akureyri hér um árið gott dæmi um það.

Hundurinn Lúkas hvarf og smám saman blossuðu upp æ svakalegri sögur um það að honum hefði verið rænt og hann drepinn á kvalafullan hátt.

Voru lýsingarnar af því hroðalegar.

Síðan kom hundurinn fram og málið var dautt en ekki Lúkas.

Gísli Marteinn Baldursson tekur afar skynsamlega á málum í afsökunarbeiðni sinni á Twitter varðandi það, að of fljótt hefði verið dæmt í ummælum hans og fleiri varðandi ákveðið nauðgunarmál. Og hann bætir við: "Meðferð nauðgunarmála þarf að breytast, en þetta var ekki rétt leið."


mbl.is Gísli Marteinn biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á ekki að standa við skuldbindingarnar frá Ríó og Ramsar?

Tvennum sögum fer af ummælum Sigrúnar Magnúsdóttur umhverfisráðherra varðandi það að ástand Mývatns sé ekki af mannavöldum.

Hér á mbl.is er það haft eftir henni að rannsókn hafi leitt í ljós, að ástandið sé ekki af mannavöldum.

En í viðtali á Bylgjunni nú í hádeginu sagði hún að ekki hefði verið sannað að ástandið sé af mannavöldum.

Á þessu tvennu er grundvallarmunur.

Með fyrra orðalaginu er því slegið föstu, að ástandið sé ekki af mannavöldun, heldur af náttúrulegum vðldum.

En síðari ummælin, sem ég heyrði sjálfur, fela í sér að ekki hafi heldur verið afsannað að hrun lífríkisins sé af mannavöldum.

Íslendingar undirrituðu Ríósáttmálann fyrir 24 árum, en eitt meginatriði hans er að ef einhver vafi leiki á umhverfisáhrifum, eigi náttúran að njóta vafans.

Íslendingar hafa líka skuldbundið sig til þess að hlíta þeim skilmálum Ramsar samkomulagsins að standa vörð um lífríki vatnsins.

Vonandi verður því ekki haldið áfram að láta iðnað, landbúnað og ferðaþjónustu ævinlega njóta vafans um breytingar á lífríki Mývatns.

Vonandi er hægt að reikna með því að orðalagið í frétt mbl.is hafi verið ónákvæmt.   

  

 


mbl.is Mývatnsmál litið alvarlegum augum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. maí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband