Að hætta við að .....

Í yfirlýsingu sinni í dag nefndi Ólafur Ragnar tvö atriði, sem hefðu breyst síðan hann ákvað að hella sér í forsetaslaginn: að ólguna frá því fyrir mánuði hefði lægt - og að komnir séu fram frambjóðendur sem þekki og skilji forsetaembættið og verkefni þess.

Hann minntist ekki á þörfina á því að fá víðsýnan forsetaframbjóðanda sem með framtíðarsýn í takt við tröllaukin verkefni allra þjóða í umhverfis- náttúruverndar og smálefnum mannréttinda og lýðræðis.  

Forsetinn hætti við að vera í framboði í nýjársræðu en hefur endurskoðað það tvisvar.

Hugsanlega átti hann einhvern þátt í að lægja öldur fyrir mánuði með snöfurlegu og hárréttu inngripi í fyrirætlanir fyrrverandi forsætisráðherra.

En spurning er hvort hann hafi skapað fullar sættir.

 

Að sætta sig við sættir við að sætta

er sýn gild.

Að hætta við að hætta við að hætta

er hrein snilld?


mbl.is Ólafur var kominn í öngstræti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættir Davíð líka við?

Í yfirlýsingu sinni segir Ólafur Ragnar Grímsson að nú séu komnir fram frambjóðendur sem hafi þekkingu og skilning á eðli forsetaembættisinsn.

Þarna er hann að vísa til Guðna og Davíðs, en það er meira líklega meira virði fyrir Guðna að fá slíkan stimpil hjá forsetanum.

Hugsanlega hefur forsetinn byrjað að hugsa á þessum nótum þegar framboð Guðna kom fram og ólgan vegna aflandsfélaganna minnkaði, eins og Ólafur nefnir raunar í yfirlýsingu sinni.

En með framboði Davíðs leit út fyrir að það hefði ráðið úrslitum, sem túlka átti sem ákveðinn sigur fyrir hann.

En fari svo að fylgi Davíðs valdi honum vonbrigðum er ómögulegt að vita, hvort hann dragi framboð sitt til baka rétt fyrir lok framboðsfrests.

Það er í raun auðveldara eftir að Ólafur Ragnar er hættur við og getur ekki snúið til baka.

Davíð getur þá látið sér nægja að það líti þannig út, að framboð hans hafi ráðið úrslitum og að hann geti sagt eins og Jón sterki í leikritinu Skugga-Sveini:  "Sáuð þið hvernig ég tók hann?" 


mbl.is Ólafur Ragnar hættur við framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitík er hugsun, ekki aldur líkamsvefja.

Sterkasti fylgismannahópur öldungsins Bernie Sanders er unga fólkið af því að hugsun Sanders er fersk og ung og í samræmi við nýja tíma og ný, krefjandi og breytt viðfangsefni.

Hér á landi höfum við dæmi um allt of marga unga þingmenn og ráðamenn, sem eru með sömu hugsun og viðhorf og voru gild fyrir hálfri öld en eru orðin úrelt og úr takti við 21. öldina. Ungir líkamar, gömul og stöðnuð hugsun.  

Steingrímur J. Sigfússon er víkingur til verka þegar svo ber undir og sannaðist það í afköstum hans í miðjum brunarústum Hrunsins.

Skömmu fyrir Hrun skrifaði hann ágæta bók um pólitískar hugsjónir sínar, sem voru að ýmsu leyti býsna ferskar.  Steingrímur á heilmikið eftir og býr yfir afli og reynslu sem þörf er á að nýta.

En 2013 stóð hann fyrir því að veita stóriðju í kjördæmi sínu meiri ívilnanir og eftirgjafir miðað við stærð framkvæmda en nokkur ríkisstjórn Sjalla og Framsóknar hafði veitt.

Það hryggði marga sem höfðu mikið álit á honum.

Ef forsetakosningarnar núna hefðu snúist upp í hanaslag milli Davíðs Oddssonar og Ólafs Ragnars Grímssonar, hefði það orðið enn ein rimman á milli fulltrúa liðinnar aldar, sem eru að miklu leyti úr takt við tröllaukin og ný viðfangsefni þessarar aldar.

Þeir eru báðir fulltrúar og aðdáendur stjórnarskrár, sem að meginefni er dönsk, gerð til að þóknast dönskum kóngi fyrir 167 árum.

Danir gáfust upp á henni fyrir 62 árum og gerðu nýja.

Davíð og Ólafur eru andsnúnir því verkefni, sem Íslendingar með Jón Sigurðsson í broddi fylkingar hófu fyrir 165 árum, að gera sjálfir sína stjórnarskrá frá grunni, byggða á þvi að nýta sér það besta sem nútíminn hefur upp á að bjóða og í samræmi við nýja tíma.

Saman lögðu þeir Davíð og Ólafur Ragnar nöfn sín við Kárahnjúkavirkjun, langstærstu mögulegu umhverfis- og náttúruspjöll á Íslandi.

Ólafur Ragnar má þó eiga það og hafa þökk fyrir að hafa sýnt lofsvert víðsýni og mikinn dugnað við að koma á átaki þjóða á norðurslóðum vegna áhrifa manna á loftslag og náttúru og að opna augu manna fyrir því að á þessari öld verður sólarlag olíualdarinnar.

En hlutirnir gerast hratt í heimi, sem er á hverfanda hveli. Því fyrr sem ung, ný og fersk hugsun raunsæis og kjarks tekur við, því betra.

Aldur líkamsvefjanna skiptir þá ekki máli heldur hugsunin.   

 

 


mbl.is Steingrímur áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. maí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband