Látinn ljúga tómri steypu fyrir framan þjóðina.

Sjónvarpsmaður, sem þarf að stilla sér upp í fréttasetti til að segja aðalfrétt dagsins, er í þeirri stöðu að hann greini frá mikilvægum sannleika af öllum þeim trúverðugleika, sem hann á til.

Þetta þurfti að gera tvívegis í Geirfinnsmálinu, fyrst að horfast í augu við þjóðina og segja frá hrikalegri atburðarrás í Dráttarbrautinni í Keflavík þar sem glæpamenn réðust á Geirfinn Einarsson og drápu hann.

En síðar, nokkrum mánuðum seinna, að setjast aftur í sama fréttasettið með sama svip trausts og trúverðugleika og flytja svo gerólíka lýsingu á málinu, að allt það, sem sagt hafði verið nokkrum mánuðum fyrr var augljóslega haugalygi.

Aðeins þessi tvö átriði í Geirfinnsmálinu eru nóg til að sýna fáránleika málsins, enda skorti allan tímann lík, morðvopn og önnur hlutgerð sönnunargögn.

Eftir situr skömmin hafa látið hafa sig alveg grandalausan að þvílíku fífli að aldrei gleymist þeim, sem fyrir slíku verður.

Samanburður við sakamál vegna Hrunsins eru hins vegar út í hött. Í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu skorti öll hlutgerð sönnunargögn, lík, morðvopn o.s.frv., en í bankahruninu höfðu menn lík bankanna og þau tæki, sem notuð voru í höndunum.

Sýndarveruleikinn, sem sveif yfir vötnunum, var slíkur, að Sigurður Einarsson sagði að afskipti Seðlabankans og stjórnvalda hefðu falið í sér "bankarán aldarinnar."


mbl.is „Að koma sök á saklausa menn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórkostleg stund.

Það er einstaklega ánægjulegt að vera viðstaddur fyrirlestur Jane Goddall í smekkfullu Háskólabíói, ekki aðeins troðfullum sal, heldur fullu anddyri líka.DSC00746

Þessi samkoma hefur allt sem hægt er að óska sér, stórkostlega og nánast hátíðlega stemnningu, helgaða mikilvægasta verkefni og áskorun mannkynsins á þessari öld óhjákvæmilegra umskipta og byltingar.

Ekki minnkaði hrifningin við að hlusta á tvær afbragðs íslenskar konur, Vigdísi Finnbogadóttur og Guðrúnu Pétursdóttur.

Þetta er sannkallaður gleðidagur sólskins, bæði utan og innan dyra.  


mbl.is Goodall svarar fyrir Vísindavefinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mjög sérstakt mál.

Það hlýtur að teljast mjög sérstakt mál að menn séu handteknir og yfirheyrðir vegna "morðmáls" fyrir 42 árum.

Ég set gæsalappir utan um orðið "morðmál", því að það eina tæknilega, sem er í hendi, er hvarf Guðmundar Einarssonar 29. janúar 1974.

Í því máli, eins og máli Geirfinns Einarssonar, skorti bæði lík, morðvopn eða önnur hlutgerð sönnunargögn, gagnstætt því sem var varðandi það þegar Gunnar Tryggvason leigubílstjóri var skotinn sex árum fyrr og fyrir lá lík, stolið morðvopn í höndum grunaðs manns og hugsanleg ástæða.

En hinn grunaði var sýknaður vegna þess að hann neitaði staðfastlega sök.

Mál Guðmundar Einarssonar verður enn sérkennilega vegna þess að hvarf Geirfinns Einarssonar tæpum tíu mánuðum seinna var spyrt saman við það og meintir morðingjar beggja dæmdir til hörðustu mögulegu refsinga.

Ekki er að sjá af fréttum að sams konar rannsókn með tilheyrandi handtökum og yfirheyrslum eigi sér stað varðandi Geirfinnsmálið, en það er ekki óhugsandi að stutt verði í að eitthvað nýtt komi fram varðandi það mál.


mbl.is Handteknir vegna Guðmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband