Sem betur fer ekki sjálfskiptur.

Ég hef 15 ára reynslu af því að eiga fornbíla, og reynsla mín er sú, að því einfaldari, sem þeir eru, því betra.

Allt rafmagnsdrasl, afsakið orðbragðið, og vökvakerfi, eru allt of oft ávísun á vandræði.

Henry Ford sagði, að það sem ekki væri í bílnum, bilaði aldrei, og á þeim forsendum hafði hann ekki vatnsdælu, bensíndælu eða startara í fyrsta Ford T bílnum, gírarnir voru tveir og fjaðrirnar aðeins tvær, ein þverfjöður að framan og ein að aftan.

Ford tregðaðist við að setja vatnsdælu og bensíndælu í bíla sína, tafði í mörg ár að taka vökvahemla í notkun og frestaði í 14 ár við að taka upp sjálfstæða gormafjöðrun að framan og hætta við að þverfjöðrina að aftan.

Það er kostur við að bílar séu beinskiptir, að það er hægt að ýta þeim í gang, ef ekki er hægt að ræsa þá með startara, og sem betur fer, er gamli forsetabíllinn, árgerð 1942, ekki sjálfskiptur, þótt fyrstu bandarísku sjálfskiptingarnar kæmu fram í Oldsmobile tveimur árum fyrr.


mbl.is Ýttu forsetabílnum af stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mesta draumalið ævinnar.

Landslið Ungverjalands á árunum 1950-56 er mesta draumalið, sem ég hef upplifað, og sá ég það þó aldrei spila nema í örstuttum úrklippum úr erlendum fréttamyndum, sem stundum voru sýndar sem aukaefni á bíósýningumm.

Aldrei hefur jafn frægt landslið og lið Englendinga verið auðmýkt eins svakalega eins og þegar Ungverjar burstuðu Tjallana á Wembley, 6:3 í "knattspyrnuleik aldarinnar" eftir að enska landsliðið hafði ekki tapað leik þar í 90 ár. Hefðu rétt úrslit þó átt að verða 7:3, því að eitt mark Ungverja var ranglega dæmt af þeim vegna meintrar rangstöðu.

Í þeirri sókn sóttu Ungverjar svo hratt mað hröðum hnitmiðuðum sendingum og þríhyrningaspili, sem var aðall þeirra og bylting, "total football", að línuverðir og dómari rugluðust. Nöfnin Puscas, Koscsis og Hidegkuti hljómuðu eins og yndisleg tónlist í eyrunum þegar sagt var frá þeim í gamla útvarpstækinu í sveitinni í Langadalnum.

Ungverjar auðmýktu Englendinga aftur 1954 með 7:1 sigri og ekkert landslið í heimi hefur átt eins langan taplausan feril í landsleikjum, heil sex ár.

Ungverjar kjðldrógu Vestur-Þjóðverja á HM 1954 í fyrsta leik sínum, 8:3 en töpuðu óvænt fyrir þeim í úrslitaleik 3:2. Í uppreisninni í Ungverjalandi 1956 tvístraðist liðið, og Puscas fór til Real Madrid á Spáni og varð þar að goðsðgn.

Tvð gullaldarlið voru uppi á sama tíma á þessum árum, þegar unglingurinn er hrifnæmastur, því að spilið, sem Ríkarður Jónsson kom með til Akraness frá meginlandinu rétt fyrir 1950, umbylti íslenskri knattspyrnu á þann hátt, að lið Skagamanna var mesta innlenda draumalið, sem ég hef upplifað.

Þegar Skagamenn spiluðu við aðra en Framara, hélt maður alltaf með gullaldarliði þeirra, sem á tímabili skipaði meirihluta landsliðsins með föstum landsliðsmönnum á borð við Ríkarð Jónsson, Þórð Þórðarson, Donna, Þórð Jónsson, miðjumennina Guðjón Finnbogason og Svein Teitsson og Helga Daníelsson markvörð.  

Það þurfti ekki að spyrja mig tvisvar að því, sem hef þó verið skráður Framari frá því fyrir fæðingu, að gera textann "Skagamenn skoruðu mörkin."  

 


mbl.is Stórveldið sem breytti knattspyrnunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt erindi fyrir börnin í "Gekk ég yfir sjó og land"?

Nú eru börn byrjuð í vöggum að vefa viðskiptafléttur í aflandsfélögum, og það minnir mig á það, að strax og Panamaskjölin voru birt datt mér það í hug, hvað það hefðí verið skemmtilegt það hefði gerst í byrjun desember.

Því að þá hefði ég tekið lagið "Gekk ég yfir sjó og land" á litlu jólunum á Sólheimum, og bætt við nýju lokaerindi:

 

"Ég á heima´á aflandi,

aflandi,

aflandi, -

ég á heima´á aflandi,

aflandinu góða."

 

Og síðan notað þennan söng til að detta fram af sviðinu og axlarbrjóta mig í fallinu í stað þess að gera það eins og ég gerði í raun undir erindi um Gluggagægi:

 

"...glápir hann alla glugga á, -

gott ef hann ekki brýtur þá.."

 

En sennilega var hinn raunverulegi gerningur flottari, að stíga óvart fram af myrkvuðu sviðinu þegar ég ætlaði að sýna hvernig Gluggagægir brýtur glugga, en vegna gluggaleysisins að falla niður á´salargóflið og brjóta öxlina í staðinn við gríðarlegar undirtektir og hlátur.


mbl.is Dagsgamalt barn lánaði aflandsfélagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband