Jafntefli hjá nokkuð jöfnum liðum.

Það passar ekki inn í ummæli Ronaldos að aðeins örþjóðir og smælingjar fagni jafntefli.

Ungverjar fögnuðu jöfnunarmarki, þar sem engu máli skipti hvort það var sjálfsmark eða ekki, því að ef Birkir hefði ekki reynt að koma í veg fyrir að boltinn bærist beint fyrir fætur Ungverjans, hefði Ungverjinn skorað.

Íslendingar áttu fleiri góð færi en Ungverjar en löng pressa Ungverjanna var auðvitað líkleg til að enda með marki.

Það er engin skömm að þessum úrslitum, og Gummi Ben átti góða setningu í lokin: Ísland er eina þjóðin í heiminum sem hefur ekki tapað leik á stórmóti.


mbl.is Ungverjar jöfnuðu í lokin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengið of langt of oft.

Fyrir þá, sem horfðu á Áramótaskaup Sjónvarpsins 2002 var sláandi að sjá myndirnar í upphafi af hátíðahöldum þjóðhátíðardagsins þá og bera þær saman við hörmungina, sem búið er að koma þeim í nú.

Í íslenskum lögum eru ákvæði sem skylda yfirvöld og stofnanir til að gæta meðalhófs.

Stundum verða valdsmenn að sýna hugkvæmni og viðleitni til þess að hafa þetta í heiðri, en þeim ber lagaleg skylda til þess.

Einu sinni voru óeirðir fyrir framan lögreglustöðina og grjótkast að henni árlegur viðburður á Gamlárskvöld.

Þessu var mætt með hugkvæmni, með því að halda áramótabrennur víðs vegar um bæinn og síðar með því að hafa eins aðlaðandi og vandaða dagskrá í sjónvarpi og unnt var eftir að íslenskt sjónvarp varð að veruleika.

Ekkert meðalhóf er fólgið í aðgerðum lögreglunnar á Austurvelli 17. júní og ekkert farið að vilja þeirra fulltrúa almennings sem standa að hátíðahöldunum.

Það blasir við að það þarf að halda í hemilinn á lögreglunni varðandi aðgerðir hennar.

Það þurfti til dæmis ekki stærsta skriðdreka landsins, 40 tonna jarðýtu, og 60 víkingasveitamenn, vopnaða kylfum, úðabrúsum og handjárnum til þess að fjarlægja nokkra hreyfingarlausa náttúruunnendur og bera burtu, sem sátu og höfðust ekki að í Gálgahrauni í október 2013.

Það þurfti heldur ekki sérstaka æfingu langöflugasta herveldis heims, NATO, til þess að æfa sig á því að murka niður hugsanlega náttúruunnendur á hálendi landsins í júlí 1994 með F-15 árásarþotum, öflugustu drápstækjum okkar tíma.   


mbl.is Undrast lokanir lögreglu á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill munur á hátíðarræðum.

Fyrir þremur árum flutti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, hina fyrstu af sínum þremur þjóðhátíðarræðum.

Ræðan skóp tilefni til bloggpistlaskrifa og skrifa bókar hjá mér vegna þeirrar fullyrðingar SDG að í okkar landi hefði aldrei verið nein stéttaskipting né sami mismunur á kjörum fólks og í öðrum löndum.

Ég hef aldrei, fyrr né síðar, fengið jafn sterk viðbrögð á bloggskrif hjá mér, því að glansgylling forsætisráðherrans fór yfir öll mörk.

Ég rakti hve stutt væri síðan að afi minn var í raun þræll húsbónda síns, fór gangandi og óð yfir óbrúuð vatnsföll allt austan úr Skaftafellssýslu vestur í Garð á Suðurnesjum, hætti þar lífi sínu í vosbúð og kulda á vertíð, og gekk síðan til baka austur til að færa húsbónda sínum afraksturinn og þiggja í staðinn húsnæði og fæði.

Ég rakti það hvernig amma mín var í raun seld sjö ára gömul frá Hólmi í Landbroti austur yfir Skeiðarársand sem vinnuhjú og faðir hennar leiddi belju til baka í skiptum fyrir dóttur sína.

Í bloggskrifunum og í bókinn Manga með svartan vanga - sagan öll, rakti ég sögu Margrétar Sigurðardóttur, húskonu, niðursetnings og förukonu á bænum, þar sem ég var í sveit, sem þráði frelsi en var í raun í ánauð lengst af ævi sinni.

"Það er ekki lengra síðan" var meginþráðurinn hjá mér, og í bloggpistlinum var minnt á ölmusubiðraðir fátæks fólks fyrir hver jól, sem er skammarblettur á þjóðinni.  

Nú ber svo við að núverandi forsætisráðherra heldur hina ágætustu þjóðhátíðarræðu af allt öðrum toga, sem er á allt öðrum og þekkilegri nótum en ræður forvera hans voru.

Ég játa, að mér fannst Sigurður Ingi Jóhannsson ekki standa sig vel þann stutta tíma sem umhverfisráðherra, en mér finnst hann á hinn bóginn hafa vaxið mikið í embætti forsætisráðherra og bera með sér allt annan og betri þokka sem stjórnmálamaður en forveri hans.

Ræða hans í dag var hófstillt, yfirveguð og orð hans mælt af ólíkt meiri skilningi og raunsæi en tíðkast hefur í þjóðhátíðarræðunum undanfarin ár.  

Væri gott ef Framsóknarmenn skoðuðu vel sinn gang varðandi þann, sem leiða á flokkinn í næstu kosningum.


mbl.is Hátíðarhöld í miðbænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband