Trump á ótrúlegustu aðdáendur hér á landi.

Ekki dettur mér í hug að þær konur, sem segjast hafa fengið tölvupóst frá Donald Trump með beiðni um fjárstuðning, ætli að styrkja hann.

En hitt veit ég að hann á hina ótrúlegustu aðdáendur hér á landi, sem sumir hverjir hafa komið mér á óvart með því að mæra hann. 

Ég ákvað að hlusta á eina af nýjustu ræðu hans á netinu, alls 35 mínútna langa til að reyna átta mig á því, hvað það væri, sem aflaði honum fylgis.

Ekki vantaði að hann flytti hana vel og skýrt, en hann hefði auðveldlega getað stytt hana niður í um 80 prósent eða meira og samt átt ekkert ósagt.

Hann gætir þess að fjalla inni í ræðu sinni un einstök mál sem falla mjög mörgum vel í geð, svo sem gagnrýni á fátækt og á stefnu Bandaríkjamanna í Írak síðan 2003.

Sýn hans er sérstaklega róttæk varðandi múslima. Þar vill hann leyniþjónusturannsókn á hverjum einasta innflytjanda og ekki bara það: Vegna þess að börn og barnabörn slíkra innflytjenda verði oft róttæk, skal líka hafa þau undir nákvæmu eftirliti og njósnum.

Trump gagnrýndi það harðlega að fjöldamorðinginn í Orlando skyldi hafa komist yfir stórvirka hríðskotabyssu en í kvöld berst sú frétt að vestan, að þingið hafi fellt tillögu um að ekki sé gefið leyfi fyrir að kaupa slíkar byssur nema kanna feril væntanlegs kaupanda.

Væntanlega er hér átt við það ef kaupandinn er ekki múslimi. Og Trump er einlægur andstæðingur takmarkana á byssueign.

Og Sara Phalin segir að breska þingkonan, sem myrt var á dögunum, hafi verðskuldað að vera skotin af því að hún vildi ekki samþykkja almenna byssueign.

Það var sem sagt henni sjálfri að kenna hvernig fór! Og svo virðist, sem byssuaðdáendur vestra telji eðlilegt og sjálfsagt að fólk eigi öflugustu hríðskotabyssur til þess að verja sig.

Eftir að hafa fylgst í rúma viku með málflutningi Söru þegar ég var í Bandaríkjunum 2008, kemur mér reybdr fátt á óvart sem sá frambjóðandi til varaforsetaembættis hjá öldruðum forsetaframbjóðanda 2008, segir eða gerir.

En setur að mér hroll við tilhugsunina um að slíkur frambjóðandi sem hún hefði átt möguleika á að verða leiðtogi öflugasta lýðræðisríkis heims.


mbl.is Trump vill styrki frá Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðskulduð verðlaun, - kalla á samt á bragarbót hér heima.

Forseti okkar hefur fengið verðskulduð verðlaun fyrir drjúgt framlag sitt varðandi orku- og umhverfismál heimsins.

Hann gaf þann tón strax í nýjársávarpi í kjölfar sjónvarpsþáttar, sem ég gerði um þá áhættu sem tekin væri með stórfelldu inngripi í samsetningu lofthjúpsins.

Ég sauð þann þátt upp úr dönskum þætti með nafninu "Hið kalda harta hafanna".

Daginn áður hafði Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, haldið sína áramótaræðu og blásið á allt tal um loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra.

Þar væri verið að mála skrattann á vegginn. Og hann klykkti út með orðununm: "Skrattinn er leiðigjarnt veggskraut."

En fyrr eða síðar verðum við Íslendingar að horfast í augu við það, að við verðum gera bragarbót varðandi þá fullyrðingu að öll okkar innlenda orkuvinnsla sé úr "hreinum og endurnýjanlegum orkugjöfum" og standist alþjóðlegar kröfur um sjálfbæra þróun.

Í vinnslu jarðvarma til raforkuframleiðslu er að afar miklu leyti stunduð rányrkja vegna ágengrar orkuvinnslu sem tæmir orkuhólfin neðanjarðar.

Á því sviði verðum við Íslendingar að taka forystu meðal þjóða í stað þess að leyna þessum "óþægilega sannleika."


mbl.is Veitt bandarísk heiðursverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dásamleg atlaga að "íslenskri skrílmenningu".

Eftir 60 ára reynslu af því að kynnast því fyrirbæri, sem má kalla "íslenska skrílmenningu" á þúsundum skemmtana og fleiri sviðum þjóðlífsins um allt land er dásamlegt að sjá hvernig íslenskir áhangendur knattspyrnulandsliðsins og landsliðið sjálft hafa orðið að fyrirmynd annarra þjóða um það hvernig eigi að taka þátt í erlendum viðburðum.

Ekki þarf annað en að minnast þess hvernig lögreglustöðin í Reykjavík var grýtt á hverju gamlárskvöldi fram yfir miðja síðustu öld og líta á fréttaflutning af skrílæði á útisamkomum frá þeim tíma og æ síðan, auk þess að kynnast fylleríi og slagsmálum á helgarsamkomum til að sjá, hve hegðun, framkoma og skipulagning í sambandi við þátttöku okkar í EM hefur varpað ljóma á land okkar og þjóð.

Þótt svo kunni að fara að lið okkar komist ekki áfram á morgun hefur Ísland þegar unnið stórsigur, ekki bara sem íþróttaþjóð, heldur sem menningarþjóð.


mbl.is Ísland unnið sér inn mikla virðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

200 mílna ferðamannalögsaga?

Frá Hornströndum til Grænlands eru 285 kílómetrar í beinni loftlínu, eða 154 sjómílur.

Ef maður hugsar sér 200 mílna ferðamannalögsögu Íslands myndi hún ná 46 sjómílur inn á land á Blosseville-ströndinni grænlensku, en ströndin sjálf og jökullinn og fjöllinn upp af henni eru svo stórbrotin náttúrusmíð, að þegar komið fljúgandi þaðan til baka og kemur yfir Vestfirði og Norðurland, liggur við að sagt sé: "Hornbjarg úr djúpinu rís" - hvað.

Hæstu fjöllin inn af grænlensku ströndinni ná upp í 3700 metra hæð, en Hornbjarg er 432 metra hátt og hæsta fjall á Vestfjörðum 998 metrar.

Jarðfræði Íslands og sérstaða hins eldvirka hluta lands okkar á að vísu engan sinn líka á þurrlendi jarðar, en hrikaleiki Grænlands einn og sér er óviðjafnanlegur.

Grænland er meira en tuttugu sinnum stærra en Íslands og nær algerlega óplægður akur varðandi ferðaþjónustu, sem við Íslendingar vegna nálægðar, ættum mesta möguleika að nýta.


mbl.is „Horft til norðurslóða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband