Skáld hefði ekki komist upp með að skrifa svona handrit.

Auðvitað hafa flestir haldið að það væri í meginatriðum hægt að ímynda sér hvernig "strákarnir okkar" gætu komist áfram á EM.

En lokamínútur leiksins var enginn leið að sjá fyrir, og ef skáld eða rithöfundur hefði skrifað þá atburðarás inn í handrit að skáldsögu, hefði útgefandinn sennilega rekið hann til baka með skipun um að skrifa eitthvað, sem væri líklegra.

Að minnsta kosti að skrifa eitthvað líklegra en það að markvörður andstæðinganna væri komin yfir endilangan völlinn til að skerpa á sókn andstæðinganna og að hann þyrfti síðan að hlaupa árangurslaust til baka eftir endilöngum vellinum til að reyna að koma í veg fyrir að Íslendingar skoruðu sigurmark, sem fleytti þeim upp í annað af tveimur efstu sætunum og að þar með væri íslenska landsliðið enn það eina í heiminum, sem tekið hefði þátt í stórmóti án þess að tapa leik.

Nei, svona skrifa menn ekki, því að oft er sannleikurinn miklu ótrúlegri en nokkur skáldsaga.


mbl.is Atkvæði falt fyrir miða á leikinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Því betur vopnum búinn hver maður, því betra?

Á úrslitum byssumála í bandaríska þinginum má sjá það ofurvald, sem samtök byssueigenda, byssuframleiðendur og byssutrúarmenn hafa yfir þingmönnum, enda nýta þeir sér það, að enginn þingmaður vestra kemst hjá því að eyða meirihluta vinnutíma síns í að ná sér í fjárhagsstuðning hagsmunaafla til að geta haldist á þingi.

Á sínum tíma tóku hvítir menn landið af indíánunum í krafti yfirburða í vopnaeign og það er því ekkert skrýtið þótt trúin á mátt vopnanna eigi sér langa hefð vestra.

Í gangi er eins konar vítahringur, sem hefur leitt af sér miklu fleiri byssumorð en í sambærilegum löndum eins og Kanada og Ástralíu, sem líka eru landnemaþjóðir.

Eina ráðið sem ríkjandi öfl sjá, er að mæta þessu morðæði með því að hver maður vígbúist sem best til að efla "sjálfsvörn" sína.

Sem leiðir það af sér að það þykir eðlilegt að bandarískur borgari geti keypt hríðskotabyssu af öflugustu gerð líkt og notaðar eru í stríði.

Sem aftur þýðir það að fjöldamorð verða æ algengari og stærri og að varnarviðbúnaður hvers borgara þarf að vera æ öflugri.

Og Sara Phalin, fyrrum varaforsetaframbjóðandi, dregur þá ályktun af morðinu á bresku þingkonunni um daginn að segja, að hún hafi átt það skilið ("she deserved it") að vera drepin, af því að hún hafi ekki verið hlynnt almennri byssueign.

Vegna byssuástar svo margra vestra og allra glæpamyndanna fá margir þá bjöguðu mynd af Bandaríkjunum sem birtist í átökum glæpagengja í undirheimum stórborganna.

Það er alröng mynd, því að um allt landið eru stór samfélög með löghlýðnum, friðsömum, öguðum og kurteisum borgurum, sem rækja vel siðræna menntun í skólum sínum og stofnunum. 

Fyrir nokkrum árum sögðu íslensk hjón, sem höfðu átt heima um hríð vestra, að þau væru komin á fremsta hlunn með það að flytja aftur til Bandaríkjanna, vegna þess hve miklu meiri agi, regla og kurteisi ríkti en í skólanum hér heima.  


mbl.is Hélt að barnið væri að grínast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hve lengi á að fresta framtíðinni?

Við getum gefið þjóðinni nýja stjórnarskrá og stóran þjóðgarð á miðhálendi Íslands.´Við getum komið á jafnrétti allra í bráð og lengd og skapað öllum tækifæri til að njóta sín til hagsbóta fyrir alla.

Eitthvað á þessa leið ættu kjörorð núlifandi Íslendinga og jarðarbúa allra að hljóða þegar siglt er inn í 21. öldina, sem óhjákvæmilega mun færa þjóðum heims í fang ný og tröllaukin verkefni sem skapast hafa vegna skammsýni og sjálfgræðgi.

Í samræmi við þetta vil ég sjá og heyra forsetaframbjóðendur ekki aðeins lýsa því yfir, að þeir vilji beita sér fyrir því að farið sé oftar beint eftir vilja þjóðarinnar, heldur einnig verið samkvæmir sjálfum og beiti sér fyrir því að farið verði eftir vilja þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012, þegar 67 prósent vildu að loforð landsfeðra frá 1944 um nýja stjórnarskrá, samda af Íslendingum, yrði efnt á grundvelli frumvarps stjórnlagaráðs.

Andri Snær Magnason er næstur forsetaframbjóðenda til þess að birta framtíðarsýn í anda upphafs þessa bloggpistils.

Hann vill setja kúrsinn með framtíðina í huga en ekki fresta því endalaust að takast á við nýja öld með nýjum stórbrotnum viðfangsefnum.

Þess vegna ætti kosningabaráttan núna ekki að vera dauf heldur sprellfjörug.

En svo er að sjá endurtekin upphlaup og lætin í Ástþóri Magnússyni trufli menn svo, að annað og miklu mikilvægara falli í skuggann.

Með slíku er verið að reyna að fresta framtíðinni og brýnum verkefnum hennar og koma þeim yfir á afkomendur okkar. Það er ekki jafnrétti kynslóðanna heldur frekja okkar.


mbl.is Daufur kosningaslagur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband