Stærsta misréttið ósnertanlegt?

Að umfangi er það, að hið mikla uppeldisstarf íslenskra barna er metið einskis í peningum, að undanteknu fæðingarorfofi, líklega stærsta misrétti íslensks þjóðfélags.

Ég heyrði nýlega, að gerð hefði verið könnun, sem fólst í því að gert var atvinnutilboð með lýsingu á því í hverju starfið fólst, og prófað að kanna, hvernig fólki litist á þetta tilboð.

Þegar skilyrðin voru rakin vakti það að sjálfsögðu vonir hjá þeim sem lásu þau, að svo virtist sem um mikið hálaunastarf hlyti að vera að ræða, svo ríkar voru kröfur um kunnáttu og þar á ofan rakið hvernig vinnutíminn var óheyrilegur, dag og nótt ef svo bar undir,án nokkurra fastra frítíma eða orlofs.

En auðvitað var þetta húsmóðurhlutverkið, ólaunað en ómetanlegt.

Þegar ég færi þetta í tal við fólk, brestur á þögn, sem þýðir, að það sé gersamlega vonlaust að hrófla við þessu misrétti, sem fylgir þeim, sem það bitnar á, til æviloka, líka fram á lífeyrisaldurinn.

Vinnuframlag kvenna, sem hafa alið upp mörg börn í stórfjölskyldu og þurft að takast á við hjúkrun af vandasömustu gerð árum saman, er ekki metið til krónu.

Og tækniþjóðfélag nútímans finnur ekkert ráð til að takast á við þetta ranglæti.

 

 


mbl.is Borgaralaunum hafnað í Sviss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hagsmunamál allra á Norðurlandi" eru því miður "eitthvað annað."

Fyrir löngu, jafnvel fyrir áratug, hefði verið hægt að koma samgöngumálum beggja vegna nyrsta hluta Jökulsár á Fjöllum í viðunandi horf ef fjárveitingavaldið hefði haft skilning á því, sem í ályktun Ferðamálasamtaka Norðurlands eystra er sagt vera "hagsmunamál allra á Norðurlandi".

Sömuleiðis er ömurlegt að horfa upp á að í stað þess að aka grjóti og möl úr Vaðlaheiðargöngum rakleitt í stækkað flughlað Akureyrarflugvallar, er því slegið á frest með þeim augljósu afleiðingum að síðar meir verður þessi bráðnauðsynlega framkvæmd miklu dýrari en ella.

En því miður hafa samgöngubætur til hagsbóta fyrir ferðaþjónustuna fallið undir hugtakið "eitthvað annað", þ.e. eitthvað annað en stóriðju, hugtak, sem hefur falið í sér fyllstu fyrirlitningu og vantraust á því að neitt annað en stóriðjan geti falið í sér "atvinnuuppbyggingu."

Því augljósara er þetta í ljósi þess að hinn dæmalausi vöxtur ferðaþjónustunnar hefur skapað tífalt fleiri ný störf síðustu fimm ár en stóriðjan og þessi stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar hefur nánast einn og sér skapað þann hagvöxt og aukningu kaupmáttar sem stjórnvöld hæla sér af, stjórnvöld sömu afla sem hafa talað niður "eitthvað annað" og tíma ekki að sjá af broti hagnaðarins af henni til þess að búa í haginn fyrir hana og koma í veg fyrir stórfelld vandræði af völdum þessarar nísku.

 


mbl.is Hagsmunamál allra á Norðurlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband