Kaldársel, - ómetanlegur uppeldisstaður.

Eftir því sem árin líða verður mér æ ljósara, hve gagnger áhrif það hafði á mig sem dreng á aldrinum 7-9 ára að fá að vera þrjú heil sumur í sumarbúðum KFUM og KFUK í Kaldárseli.

Við ána sjálfa og þegar komið var yfir hana, var ævintýraland, sem svalaði þrá fyrir upplifun og þekkingu á náttúrunni á morgni lífsins.

Þarna varð ég hraunavinur fyrir lífstíð. Veran í Gálgahrauni meira en sextíu árum síðar var engin tilviljun. Ég var nýbúinn að læra að lesa fyrsta sumarið og landakort af Íslandi og Jörðinni í Símaskránni urðu til þess að þessi bók varð í raun áhrifamesta bókin, sem ég hef lesið.

Á vegg í skálanum í Kaldárseli hékk kort í skalanum 1:10.000 sem ég skoðaði á hverjum degi síðari tvö sumrin, sem ég var þar, og árbækur Ferðafélagsins hjá ömmu og afa voru náma fyrir ungan nörd.

Þegar aðrir feður gáfu sonum sínum leikföng, gaf pabbi mér íslensk landakort.

Það eru aðeins 6 kílómetrar frá byggðinni í Hafnarfirði suður í Kaldársel, og það sýnir mikla þröngsýni að láta svo stutta vegalengd koma í veg fyrir að börn fái að njóta þeirrar gersemi sem Kaldársel og nágrenni þess er.

Miðað við það að undir sjálfri ánni á yfirborðinu rennur stærsta bergvatnsá á svæðinu frá Hvalfjarðarbotni suður um gervallan Reykjanesskagann, er sorglegt að sjá hvernig Kaldá þornar oft upp á yfirborðinu vegna þess hve á hana er gengið af Vatnsveitu Hafnarfjarðar.

Þegar áin er vatnslaus fer stór hluti gildis Kaldársels út í veður og vind.

 


mbl.is Óánægð með lokun deildar í Kaldárseli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breiðholtið er nálægt Ártúnshöfða, Mjódd og Smára.

Breiðholtshverfi verður æ betur í sveit sett gagnvart verslun og þjónustu með hverju árinu sem líður. Hverfið liggur að viðskipta- og iðnaðarsvæði í Mjódd og Smiðjuhverfi í Kópavogi og liggur líka að Smárahverfinu í Kópavogi, sem fer vaxandi ár frá ári.

Til norðurs er ekki langt að fara yfir á Ártúnshöfða, sem á framtíðina fyrir sér vegna nálægðar sinnar við stærstu krossgötur landsins, þar sem þjóðleiðin frá öll landsbyggðarkjördæmunum liggur sker þjóðleiðina frá Suðurlandi allt vestur á Seltjarnarnes.

Hækkandi fasteignaverð í Breiðholti speglast af þessu.  


mbl.is Breiðholtið sker sig úr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagráð, - blessuð sé minning þess.

"Landið var ferlega flott  /

og fannhvítar kalskemmdasveitir. /

Hermann var heiður og blár, /

Hagráð var skínandi svart." /

 

Ofangreindar línur voru hluti af kersknisútgáfu af "Ísland farsælda frón" sem ég flutti í orðastað Gylfa Þ. Gíslasonar á sjöunda áratug síðustu aldar undir heitinu "Íslands síspælda stjórn."

Þarna er minnst á svonefnt Hagráð, sem eins og nafnið bendir til, átti að gegna svipuðu hlutverki og fyrirhugað Þjóðhagsráð nú.

Þetta var flutt á árunum 1967 og 68 þegar gengi krónunnar var fellt tvisvar all hressilega vegna stórfellds aflabrests og gengisfalls enska pundins og "Hagráð var skínandi svart".  

Af núlifandi Íslendingum man kannski Jóhannes Nordal best eftir þessu fyrirbæri, tilgangi, starfi og andláti. Gott ef hann var ekki í Hagráði.

Hagráð var kannski ágæt hugmynd út af fyrir sig og gerði svo sem engan óskunda, svo að ég muni eftir, var líklegast ágætis umræðuvettvangur.

En á fyrri hluta sjöunda árartugarins reyndist beint og náið persónulegt samband milli Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og Eðvarðs Sigurðssonar, formanns Verkamannafélagsins Dagsbrúnar kjölfesta og drifkraftur efnahagsstefnunnar og þurfti ekkert Hagráð til.

Tvisvar var gert svonefnt júlísamkomulag, 1964 og 65, sem voru tímamótagerningar og réðu lang mest um framvindu efnahagsmála á þessum árum.

Hagráð leið hljóðlega út af án þess að gera neitt ógagn eða sjáanlegt gagn, dó hægum og farsælum dauðdaga, og hafi farið einhver útför fram, fór hún fram í kyrrþey.

Blessuð sé minning þess.


mbl.is Greinir á um Þjóðhagsráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýru verði keypt?

Sigur Hillary Clinton í forkosningum Demókrata er sögulegur í sögu Bandaríkjanna og nú vantar aðeins þrjú atriði upp á að fjölbreytni bandarísks þjóðfélag hafi birst í öllum myndum sínum, kona forseti, svört kona forseti, svört kona en ekki kristinnar trúar forseti. 

Sammy Davis yngri talaði um svartan forseta fyrir hálfri öld og uppskar hlátur. Varð þó sannspár.

Hið eina, sem varpar vafa á þennan áfanga er það, að vegna þess að engin takmörk eru fyrir því hve miklum peningum má eyða í kosningabaráttu vestra, er hætta á að viðkomandi verði háður hinum ríku stuðningsmönnum sínum, einstaklingum, félögum og stórfyrirtækjum.

Það þarf þó ekki að vera regla. Það voru til dæmis ríkir menn í Louisville sem fjármögnuðu feril Muhammads Alis og hann lét slíkt aldrei hafa áhrif á sig.

Í frétt mbl.is segir, að Clinton hafi sigrað forkosningarnar í New Jersey. Lífseig málvilla og rökvilla virðist ódrepandi.

Ef einhver sigrar kosningar hafa kosningarnar beðið ósigur. Það gengur ekki upp.   

 


mbl.is Söguleg stund fyrir konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gildi leyndarinnar og niðurlægingarinnar.

Eitt mikilvægasta fyrirbærið í hernaðarlist felst í því að koma andstæðingnum á óvart, "the element of surprise" þannig að hann fipist og viti ekki sitt rjúkandi ráð.

Til þess að þetta sé hægt verður að koma í veg fyrir að andstæðingurinn viti hvað til stendur og þar af leiðandi verða til alls kyns dulmál og flóknar dulmálsvélar í nútíma hernaði.

Frægasta fyrirbærið í Seinni heimsstyrjöldinni var Enigma, dulmálskerfi Þjóðverja, sem Bretum tókst að lesa með þeim árangri, að jafnvel er talið að það hafi flýtt fyrir úrlitum og lokum styrjaldarinnar um allt að tveimur árum.

Japanir lögðu svo mikla áherslu á sitt dulmálskerfi, að heiður samúræjanna lá við, en hann var öllu æðri hjá japanska hernum.

Bandríkjamönnum tókst að lesa úr kerfinu, og þegar þeir fréttu, að Yamamoto hershöfðingi ætlaði í ferð á flugvél sinni, var freistingin mikil að nýta sér það og ráðast á hann með nógu öflugum flugflota til að granda honum.

Hins vegar var gallinn sá, að höfuðatriði var að andstæðinginn grunaði ekki að búið væri að lesa dulmálið, og urðu til dæmis Bretar að stilla sig um að nota vitneskju sína nærri því alltaf, heldur aðhafast jafnvel yfirleitt ekkert í flestum tilfellum.

Fyrir bragðið grunaði Þjóðverja aldrei að dulmál þeirra væri lesið af Bretum, enda hefði staðfestur grunur þeirra um slíkt eyðilagt þetta mikilvæga atriði í hernaðarlist Breta.

Bandaríkjamenn áttu harma að hefna varðandi Yamamoto og létu því slag standa, réðust á hann og drápu hann.

Ef þetta hefði verið þýskur hershöfðingi og þýskt dulmál, hefðu Þjóðverjar vafalaust áttað sig á því, að ómögulegt hefði verið að skipuleggja svona mikla hernaðaraðgerð gagnvart leynilegri ferð, nema að dulmálið hefði verið leyst, og brugðist við þessu með því að leggja dulmálið niður.

En Japanir gerðu þetta ekki vegna hins yfirgengilega stolts sem fólst í hugsun samuræjanna og gerði þeim ómögulegt að viðurkenna svona hræðileg mistök.

Þeir héldu áfram að nota dulmálið og það kom sér oft vel fyrir Bandaríkjamann, sem komust til dæmis oft á snoðir um áætlanir Japana varðandi herfleiðangra þeirra.

Hin yfirþyrmandi hugsun samuræja um hernaðarheiður gerði þeim ómögulegt að fallast á úrslitakosti Bandaríkjamanna haustið 1941, sem fólu í sér að Japanir drægju herlið sitt frá Kína.

Að þessu leyti fólu þessir úrslitakostir það í sér, að japönsku herforingjunum fyndist það óbærileg tilhugsun og niðurlæging að fallast á þá.

Þeir sáu því enga aðra leið en að hefja styrjöld, því að annars hefði japanski herinn orðið eldsneytislaus á aðeins örfáum mánuðum.


mbl.is Fundu hluta af dulmálsvél Hitlers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband