Rós í hnappagatið: Við vorum ofan við EM-meistarana i riðlakeppninni.

Úrslit kvöldsins færði íslenska knattspyrnulandsliðinu rós í hnappagatið: Ísland gerði jafntefli við Evrópumeistarana í riðlakeppninni og var ofan við þá í riðlinum.

Öskubusku EM-ævintýri Íslands lauk því á síðustu mínútum framlengingar úrslitaleiksins.

Engan óraði fyrir þessu ævintýri þegar lagt var af stað til Frakklands.

Og Portúgalir verðskulduðu sigur á mótinu af einfaldri ástæðu, að standast einu kröfuna sem gerð er til sigurliðsins: Að tapa engum leik eftir að riðlakeppninni er lokið, sigur í fjórum síðustu leikjum sínum á mótinu.  


mbl.is Portúgal Evrópumeistari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrri tíma mat á umhverfisáhrifum.

Þegar fóstbræðurnir Ingólfur Arnarson og Hjörleifur Hróðmarsson numu land á Íslandi litu þeir landnámið ólíkum augum.

Ingólfur var trúmaður mikill og í trú frumbyggja Ameríku og ásatrú norrænna manna var það sameiginlegt, að landið, náttúran, var sjálfstæður "lögaðili" eins og það myndi orðað nú, varið af landvættum, og því varð að biðja um sérstakt leyfi landvætta til þess að nema land.

Hjörleifur gerði þetta ekki þegar hann settist að og Ingólfur taldi það trúleysi hans og virðingarleysi við landið og landvættina að kenna þegar þrælarnir drápu hann.

Ingólfur hélt hins vegar ákveðna fórnarathöfn þegar hann fylgdi öndvegissúlunum á land í Reykjavík, bar þær líklega inn að blótstað nokkurn veginn þar sem Fógetagarðurinn, gamli kirkjugarðurinn er núna.

Í öndvegissúlunum bjuggu heimilsgoðin, sem séra Þórir Stephensen, fyrrum dómkirkjuprestur og staðarhaldari í Viðey telur líklegt að hafi verið Þór og Freyr.

Sonur Ingólfs hét Þórsteinn, svo að átrúnaðurinn á Þór er líklegur, og af því að ætlunin var að raska náttúrunni með akuryrkju og kvikfjárrækt, hefur Freyr sennilega verið í hinni súlunni.

Allt var þetta hluti af virðingu frumbyggja Ameríku og norrænna manna fyrir náttúrunni sem uppsprettu allra gæða.

Hún er enn er við líði á Grænlandi, þar sem engir landeigendur eru, heldur á náttúran sig sjálf.

Í utanverðu Hegranesi í Skagafirði var nýr vegur færður til fyrir um þremur áratugum þegar mikil óhappaalda reið yfir í byrjun framkvæmda.

Þar láðist að taka tillit til álfa og huldufólks, og vegarstæðið varð með mun minna raski en ella, þegar búið var að færa veginn og semja við álfana.

Þetta var í norðaustanverðu nesinu, en núna eru vandræðin hinum megin.


mbl.is Jarðboranir í álfabyggð í uppnámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar virðingin sigraði óvirðinguna.

Umhugsunarvert er að fylgjast með neikvæðum viðbrögðum undramargra við því kjörorði EM í knattspyrnu að sýna mótherjum virðingu. Það nýjasta, úr herbúðum þjóðernissinnaðs flokks í Danmörku, þar sem íslenska landsliðið er nýtt í áróðri flokksins gegn hörundsdökkum Evrópubúum, vekur upp gamlan draug frá því fyrir 80 árum.

Þegar slíkt gerist er hollt að minnast nokkurrra tilvika þegar ólíkir íþróttamenn sýndu hver öðrum virðingu og einstaka vináttu.

Í tveimur tilfellum var um að ræða annars vegar afreksmenn, sem Hitler og nasistarnir hófu upp til skýjanna til þess að sýna fram á yfirburði hins hvíta "aríska" kynþáttar gagnvart "óæðri kynþáttum" eins og Gyðingum, Slavneskum þjóðunum og blökkumönnum, - en hins vegar bandaríska blökkumenn. 

Þegar Max Schmeling rotaði öllum að óvörum blökkumanninn Joe Louis 1936 var Schmeling hafinn upp til skýjanna og báru Hitler og Göbbels hann á höndum sér við heimkomuna.

Max var ekki mikið um þetta gefið en fékk ekki rönd við reist frekar en Íslendingar og íslenska landsliðið nú gagnvart notkun danskra þjóðernissinna á myndum af íslenska knattspyrnulandsliðinu til þess að amast við hörundsdökku fólki í Evrópu.  

En gæfuhjól Max Schmelings snerist heldur betur við 1938 þegar Louis gersigraði Þjóðverjann.

En milli þeirra tókst náin vinátta og virðing sem entist meðan báðir lifðu.

Á Ólympíuleikunum 1936 tókst vinátta á milli langstökkvaranna Lutz Long og Jesse Owens sem entist líka meðan báðir lifðu.

Long var þýskur og tók forystunna í langstökkskeppninni, Hitler og nasistunum til mikillar ánægju.

Owens var í vandræðum með atrennuna og Long gaf honum góð ráð. Hvort það skipti miklu máli eða ekki var söm gerðin hjá Long, Owens tók forystuna, setti glæsilegt Ólympíumet og varð stjarna leikanna með fern gullverðlaun.

Owens var frá Suðurríkjum Bandaríkjanna og þrátt fyrir einstæð afrek hans bauð Roosevelt honum ekki í Hvíta húsið.

Suðurríkin voru þá enn eitt helsta vígi Demokrata og takmörk fyrir því hvað mætti styggja forsprakka kynþáttaaðskilnaðar í Suðurríkjunum.

Owens mátti þola kynþáttamismunum í heimalandi sínu og gista til dæmis á lakari hóteldum en hinir hvítu, þegar hann var á ferð í Bandaríkjunum, þótt hann fengi að vera í jafngóðu hóteli og hinir hvítu í Þýskalandi nasistanna! 

 


mbl.is „Knattspyrna snýst um virðingu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Daninn vill ráða því hvernig íslenskt þjóðarstolt eigi að vera.

Á fjórða áratug síðustu aldar barst hingað til lands stjórnmálaskoðun, sem gaf út "rétta" formúlu um það hvernig íslenskt þjóðarstolt ætti að vera.

Þá  var lika sagt eins og nú að "Íslendingar ættu að skammast sín fyrir það hvernig þeir litu á sig sem þjóð, af því að hér á landi væri verið að skemma hinn arfhreina íslenska kynstofn með því að blanda inn í hann innflytjendum, sem væru til dæmis Gyðingar, verstu úrhrök heimsins. 

Þegar Walther Gerlach var ræðismaður Þjóðverja kvartaði hann til yfirboðara sinna í Þýskalandi yfir því að íslenskur hugsunarháttur væri úrkynjaður og hefði valdið sér miklum vonbrigðum.

Fyrir 65 árum var maður að vona að aldrei aftur myndi svona lagað gerast hér á landi, og hefði klipið sig í handlegginn ef einhver hefði sagt að það myndi samt gerast og þessi boðskapur kæmi frá Danmörku.

Fyrir 65 árum var maður að vona, að afrek Jesse Owens og Joe Louis myndu opna augu manna fyrir því að enginn einn húðlitur eða kynþáttur gerði það að verkum að viðkomandi væri talinn "óæðri" en annar og jafnvel fyrirlitleg úrhrök.

Fyrir 50 árum var maður að vona að boðskapur Martins Luthers King um jafnrétti og spá Sammy Davies jr um þeldökkan Bandaríkjaforseta yrði að veruleika.

En Daniel Carlsen formaður Danskernes Parti þykist nú þess umkominn, eins og hinn nasíski Gerlach á sinni tíð, að setja ofan í við okkur fyrir það hvernig við lítuum á þjóðarstolt okkar, og eins og Gerlach telur hann að við eigum við væntanlega að skammast okkur fyrir það að láta ekki nægja að rækta menningararf okkar svo sem með starfrækslu Árnasafns og Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, heldur beri okkur að reka af höndum okkar og fyrirlíta alla, sem ekki eru af hinum hvíta arfhreina víkingakynstofni.

Hann fullyrðir að við skömmumst okkar fyrir að landsliðið okkar sé "íslenskt". Já, við skömmuðumst víst okkar svo mikið fyrir það hér á Arnarhóli um daginn? 


mbl.is Segir Íslendinga skammast sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensku "æðin", m.a. hótelæðið um allt land.

Þótt neyslusamfélag nútímans byggist á því að koma af stað einhvers konar "æði" varðandi ákveðnar vörur eða fyrirbæri, er líklega leitun að þjóð eins og okkur, sem rennur "æði" á með stuttu millibili á ýmsum sviðum.

Hið stærsta var líklega "gróða-og lántökuæðið" sem skóp Hrunið, en þegar fram í sækir munu afleiðingar "stóriðju- og virkjanaæðisins, sem hófst í aldarbyrjun og hefur staðið síðan, skilja eftir sig miklu meiri áhrif og afleiðingar í stórfelldum óafturkræfum umhverfisspjöllum og rányrkju að stórum hluta hvað varðar nýtingu háhitans til raforkuframleiðslu.

Fram að Eyjafjallajökulsgosinu var stóriðjuæðið meðal annars knúið áfram með því að gera ekkert úr neinum öðrum möguleikum til verðmætasköpunar og þeim líkt við fjallagrasatínslu.

Annað kom á daginn og hagvöxtur og aukinn kaupmáttur undanfarinna missera hefur verið nær eingöngu skapaður að ofsavexti ferðaþjónustunnar.

Og þá er eins og við manninn mælt að nýtt gróðaæði rennur á þjóðina og er hótelbyggingaæðið eitt mest áberandi dæmi þess, ekki aðeins í miðborg Reykjavíkur, heldur einnig í einstökum byggðarlögum úti á landi, svo sem í Vík í Mýrdal, þar sem ruðningsáhrifin hafa verið látin afskiptalaus og sumar byggðirnar rændar því þjóðlífi og yfirbragði, sem flestir ferðamennirnir vilja upplifa.

Fær aldagamalt kirkjugarðsstæði vestan við Austurvöll ekki einu sinni að vera í friði fyrir þessu hótelaæði.

Þetta er svo sem ekkert nýtt hér á landi. Þegar stríðinu lauk 1945 rann hrikalegt eyðslufyllerí á þjóðina, sem eyddi upp feiknarlegumm stríðsgróða á aðeins rúmum tveimur árum á svo svakalegan hátt, að hér varð að taka upp vöruskömmtun á öllum hlutum og segja sig nánast til sveitar meðal Evrópuþjóða með því að taka til okkar mestu Marshallaðstoð allra þjóða miðað við íbúafjölda, og var Ísland þó eina landið í Evrópu sem stórgræddi fjárhagslega á stríðinu.

Á árunum 1946-47 ríkti Willysjeppaæði, því að þessir bílar vorum með stórfelldum afslætti á innflutningsgjöldum af því að þeir voru skilgreindir sem landbúnaðrtæki.

Þessir jeppar voru eyðslufrekir miðað við stærð en fólksbílar af svipaðri þyngd áttu ekki möguleika á móti þeim hvað snerti kaupverð.

Eitt fyndnasta æðið var svokallað "Bronkó-æði" sem greip landsmenn á árunum 1966-75.

Þannig vildi til að ráðandi flokkar, Sjallar og Framsókn, héldu uppi stórfelldum ívilnunum varðandi bílainnflutning til handa atvinnustarfsemi og landbúnaði.

Sendibílar voru með mikinn afslátt, og jeppar,sem voru styttri á milli fram- og afturöxla en 2,40 metrar, voru skilgreindir sem landbúnaðartæki og fengu stórfelldan aflátt á innflutningsgjöldum.

2,40 metrarnir voru miðaðir við það að Willys, Land-Rover, og Rússajeppar féllu inn í þennan flokk, en hinn ágæti Scout, sem kom á markað 1961, og bar á þeim tíma af jeppum á markaðnum, sem fjölskyldufarartæki, átti enga möguleika vegna þess hvað hann var dýr.

Hann var 2,54 á milli öxla og því útilokaður.

En 1966 kom Ford Bronco fram á sjónarsviðið, amerískur gæðabíll, með 2,33 metra í hjólhaf, gormafjöðrun að framan, mjúka blaðfjöðrun að aftan og fólksbílalegt útlit, og fáanlegur með þessum fínu sexstrokka og V-8 vélum.

Ég var meðal þeirra sem tók tilboði, sem ekki var hægt að hafna hjá manni, sem var kominn með stóra fjölskyldu og átti Bronkó á tveimur tímabilum, 1966-68 og 1973-77.

Þaö brast sem sé á þetta dæmalausa Bronkóæði. Bronkóarnir voru svo miklu eyðslufrekari en fólksbílar af svipaðri stærð, sem ekki gátu keppt við þá í verði, að í raun stórtapaði þjóðin á þessu æði.

Í meira en 30 ár eftir stríðið blómstraði mikill iðnaður hér við að breyta sendibílum og jeppum og gera þá sem líkasta fólksbílum.

Willysarnir voru til dæmis lengdir og smíðuð á þennan smábíl ekki nein smáræðis hús.

Enn muna margir eftir "fótanuddstækja-æðinu" sem heltók þjóðina fyrir ein jólin og með hverri nýrri gerð af snjallsímum og smátölvum fylgir kaupaæði.

Nú er það ferðaþjónustuæðið á sama tíma og vegakerfi landsins og margir innviðir eru að grotna niður, af því að allir verða að græða sem mest og við tímum ekki að undirbyggja hinn stórvaxandi atvinnuveg. 

Ef stefnubreyting verður í þessum efnum á að vera hægt að komast hjá því að Reykjavík verði full af tómum hótelum og sum þorpin út á landi sneydd íslensku mannlífi.

Því veldur orðstír hinnar einstæðu náttúru landsins. Sem dæmi um gildi slíks má nefna að ferðamannastraumurinn í Yellowstone þjóðgarðinn í Bandaríkjunum hefur vaxið hægt og bítandi í marga áratugi.

Náttúra hans er hliðstæð því sem er aðdráttarafl fyrir Ísland, þótt náttúra Íslands sé mun magnaðri og Ísland miklu nær Evrópu en Yellowstone, þar sem helmingur ferðamanna er frá öðrum heimsálfum en Norður-Ameríku.

En í Yellowstone er vel hugað að náttúruvernd, stýringu og skipulagi og engum hótelum hrúgað þar niður, heldur verða ferðamenn að gista utan þessa 9000 ferkílómetra svæðis.

Og það gera þeir með glöðu geði, því að þeir eru ekki komnir inn í þjóðgarðinn til þess að upplifa þétta byggð hótela og hliðstæðra ferðamannamannvirkja, heldur aðeins ósnortna náttúru.


mbl.is Reykjavík verður full af tómum hótelum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband