Rasismi fyrr og nú.

Rasismi var fullgilt hugtak og meira en það fyrir 80 árum, - en aldrei heyrði maður því haldið fram að andóf Winstons Churcills gegn rasisma Hitlers væri rasisma af Churchills hálfu.

Því síður að rasismi væri "ónýtt hugtak", svo mikill örlagavaldur sem hann varð fyrir þær ca. 50 milljónir manna sem fórust í heimsstyrjöld af hans völdum.

Aldrei í sögu mannkyns hefur rasismi orðið að eins svakalegum ógnvaldi gagvart þjóðum og mannkyni öllu og á árunum 1933-45. Heil heimsstyrjöld, lang mannskæðasta stríð allra tíma, var háð vegna þessa uppgang rasisma, sem gaf sér þá forsendu, að aðeins einn skilgreindur kynþáttur, kynþáttur svonefndra aría, væri æðri og merkari til sálar og líkama en aðrir kynþættir, svo sem slavar í austanverðri Evrópu.

Því gegnir furðu að lesa skrif og heyra ummæli þess efnis nú, að rasismi sé "ónýtt" orð eða hugtak í umræðunni, sem ekki sé hægt að nota og eigi því ekki að nota.

Rasisminn sem fór hamförum 1933-45 byggðist á því að einn kynþáttur bæri svo mjög af öðrum, að nauðsynlegt væri að hann drottnaði yfir heimsbyggðinni eða í það minnsta Evrópu.

Aðrir kynþættir skyldu vera undirokaðir og nokkurs konar þrælar fyrir "ofurmennin".

Grundvallaratriði rasismans er skýrt:  Kynþættir eru misjafnlega vel gerðir og sé kynþáttur betur gerður en annar, á hann að drottna en hinar lakari manneskjur að þola það að vera niðurlægðar, éta skít úr hnefa og gera sig ekki breiðar.  

Nú má heyra ýmsa snúa þessu á haus og tala um rasisma þegar því er andæft að sumir kynþættir séu svo miklu lakari en aðrir að líf þeirra sé miklu minna virði en líf hinna æðri kynþátta.

Það er gegn þessu sem blökkumenn og fleiri hafa risið í Bandaríkjunum með því að segja að líf svartra skipti máli, alveg eins og líf hvítra.

En þá rísa gagnrýnisraddir meðal hvítra sem telja að með þessu stundi blökkufólkið sjálft rasisma.

Tilgangurinn getur varla verið annar en sá að drepa umræðunni á dreif og leggja andófið gegn mismunun svartra og hvítra að jöfnu við ofríkið sem stundað er.

Þetta er augljóslega órökrétt, þegar gerður er samanburður á átökum nasista og þeirra sem andæfðu rasisma Hitlers, því að sé andófsfólk nú stimplað sem rasistar, hafa andstæðingar Hitlers væntanlega verið það líka, svo sem Winston Churchill. 

   

 


mbl.is „Rasískt“ að segja svört líf skipta máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkennileg erum við, þjóð Árna Magnússonar

Árni Magnússon þurfti á sinni tíð að berjast við skilningsleysi margra á varðveislugildi bóka og handrita. 

Öld síðar opnuðust augu Dana á því gildi, sem menningarminjar hafa fyrir tilvist og sjálfsímynd þjóða og ein birtingarmynd þess fólst í þeirri einstæðu staðreynd, að helstu sjálfstæðishetju Íslendinga var kleyft að berjast fyrir sjálfstæði Íslendinga vegna þess að "herraþjóðin" gat ekki án hans verið vegna yfirgripsmikillar þekkingar hans á uppruna og gildi menningar Dana og Norðurlandaþjóða. 

Í ferð til Murmansk í Sovétríkjunum 1978 skar í augu ömurlegt þjóðfélagsástand hins kommúníska ríkis með vöruskömmtun, skorti og lélegum byggingum og innviðum, sem birtist hvervetna, meðal annars í malargötum og illa smíðuðum húsum. 

En annað vakti ekki síður athygli, sem stakk í stúf við það að manni fannst maður vera kominn meira en 30 ár aftur í tímann: Söfnin, sem við skoðuðum í Murmansk voru alger andstæða þessa ástand, afar vönduð og gerð af metnaði. 

Rússarnir gátu réttilega verið stoltir af þeim, en íslenskur aðkomumaður fór hjá sér þegar hann hugsaði til íslenskra safna. 

Á Íslandi, landi einstæðrar náttúru, er og hefur verið þjóðarskömm hvernig búið hefur verið að náttúruminjum og fleiri atriðum, sem skapa heiður, sóma og sjálfsmynd þjóðar. 

Örlög Tónlistarsafns Íslands er enn eitt dæmið um sinnuleysi þjóðar Árna Magnússsonar um verðmæti, sem rík þjóð vanvirðir. 

Þjóð Árna Magnússonar var bláfátæk þegar hún var á leið með að eyðileggja verðmæti, sem Danir sjálfir sögðu í handritadeilunni að væru þau mestu sem þeir ættu. 

Nú hefur þjóð Árna Magnússonar enga slíka afsökun. Hún geyumir að vísu þjóðskjöl til öryggis á tveimur stöðum á landinu, sem langt er á milli, en gullkistan stóra, myndasafn sjónvarpsstöðvanna, er enn undirorpin langvarandi skilningsleysi ráðamanna.

Einkennileg erum við enn, þjóð Árna Magnússonar. 


mbl.is Ganga út hokin með kökk í hálsinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband