"Ekki spurning um hvort, heldur hvenær sæstrengur kemur."

Þessi orð lét forstjóri Landsvirkjunar falla á fundi hennar fyrir nokkrum misserum.

Oftar en einu sinni hefur hann sagt stefnuna þá að tvöfalda orkuframleiðslu landsins á næstu tíu árum, sem þýðir fjórföldun orkuframleiðslu landsins á fyrsta fjórðungi aldarinnar.

Stefnan er skýr, samkvæmt þessu, hvort sem það er stóriðja eða sæstrengur sem gleypir rafaflið í aðför að náttúru landsins, eða "hernaðinum gegn landinu" eins og Nóbelskáldið orðaði það 1970. 

Í upphafi aldarinnar stóð til að "bjarga Íslandi" með 120 þúsund tonna álveri á Reyðarfirði og 250 megavatta Fljótsdalsvirkjun.

Síðan leiddi "rannsókn" í ljós að álverið þyrfti að verða þrisvar sinnum stærra og virkjunin einnig til þess að arður fengist.

Nú leiðir rannsókn í ljós að það þarf að virkja sem svarar öllum virkjununum á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu plús ígildi Kárahnjúkavirkjunar til þess að sæstrengur geti orðið að veruleika.

Sem smellpassar við fyrrnefndar yfirlýsingar forstjóra Landsvirkjunar.

Þegar Fljótsdalsvirkjun reyndist ekki nógu arðbær, var kostnaður, sem hafði fallið til við að kanna hagkvæmni hennar, orðinn nokkrir milljarðar, og var það notað sem röksemd fyrir margfalt umhverfisverri virkjun, svo að þessi kostnaður hefði ekki verið til einskis.

Allt eins má búast við að ný rannsókn síðar meir geti stimplað inn enn frekari aðför að íslenskri náttúru en þegar hefur verið lýst yfir sem takmarki.


mbl.is Engin ákvörðun tekin strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að finna svæði utan vatnsins fyrir hótel og þjónustu.

Hið eldvirka svæði frá Vatnajökli norður fyrir Gjástykki er í raun risavaxin og einstæð landlagsheild, mótuð af samspili íss Vatnajökuls annars vegar, en hins vegar eldvirkni, sem er afleiðing af hreyfingum meginlandsflekanna hvor frá öðrum og sést hvergi betur á þurrlendi jarðar en í Gjástykki, norður af Mývatni.

Þróun í þjóðgörðum erlendis, sem kalla má hliðstæður þessa stóra íslenska svæðis, sem tekur langt fram öllum öðrum eldvirkum svæðum að fjölbreytni og mikilleik, hefur verið sú að mannvirkjum og umsvifum manna, þar á meðal ferðaþjónustu, hefur verið vikið eins og verða má út fyrir mörk þessara svæða.

Sem dæmi má nefna að í Yellowstone er að vísu gamalt hótel á Old Faithful-svæðinu, sem hefur fengið að standa ásamt hófstilltum þjónustumannvirkjum á tveimur öðrum svæðum, aen þjóðgarðsgestir gista að öðru leyti utan marka þjóðgarðsins.

Nú þegar er nóg komið af hótelum við Mývatn og brýnt að huga að því að skapa þjónustumannvirki utan vatnsins, til dæmis vestan þess eða við Grímsstaði á Fjöllum.

Meira en þrjár milljónir gesta árlega í Yellowstone sætta sig fyllilega við það að þurfa að fara 10-50 kílómetra leið frá náttstað inn í þjóðgarðinn og það er kominn tími til þess að hér á landi séu gerðar ráðstafanir til að koma þessum málum í lag hér heima.    


mbl.is Hafna nýju hóteli við Mývatn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laugavegurinn er einstæður og samt er ítala í erlenda keppinauta hans.

Það svæði á norðurhveli jarðar, sem helst er hægt að bera saman við Laugaveginn, er Yellowstone í Wyoming í Bandaríkjunum. Í þeim þjóðgarði eru 1600 kílómetrar af göngustígum og eftir tvær könnunarferðir þangað er óhætt að segja að enginn þeirra kemst í neinn samjöfnuð við Laugaveginn hvað snertir dýrð lita og landslags, að ekki sé minnst á jarðfræðilegt gildi.

Í Yellowstone gera ferðamenn kröfu um frið og kyrrð til þess að fá að njóta ósnortinnar náttúru. Einnig er gerð krafa um að stígarnir séu ekki útsparkað drullusvað í rigningatíð.

Þess vegna er fyrir mörgum áratugum komin ítala í gönguferðir um stígana, öflugt eftirlit og viðhald viðhaft til að fylgja henni eftir og tekið gjald fyrir aðgang.

Ég geymi enn náttúrupassa, sem við Helga keyptum 2002 og hef áður sagt frá honum hér á síðunni.

Í þessu landi frelsisins, sem Bandaríkin eru oft kölluð af aðdáendum þeirra hér á landi standa áletrunirnar "proud partner" og "discover your America" á passanum, en hér á landi var hins vegar rekið upp mikið ramakvein vegna hugmynda um náttúrupassa og talað um "auðmýkingu og niðurlægingu" ef náttúrupassi yrði að veruleika.

Langir biðlistar eru vestra eftir því að fá að ganga stígana eða að sigla niður ár eins og Koloradofljótið, þar sem þurfti að bíða í 14 ár eftir leyfi til siglingar þegar við Helga vorum þar.

Hvað ætlum við að lata líða marga áratugi áður en sendur verður, þótt ekki sé nema einn maður, til að skoða og kynna sér til hlítar svæði erlendis, þar sem helst er hægt að læra af margra áratuga reynslu umsjónarmanna svæðanna? 

 


mbl.is Laugavegur sprunginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það þarf mikið til að deyfa París. "Við ilm af rósum".

París hefur alla tíð verið sveipuð sérstökum ljóma í huga mér, eða allt frá því er þeir Gunnar Hansen leikstjóri og Einar Pálsson leikari leiddu mig í Iðnó, 12 ára gamlan, inn í veröld Vesalinganna eftir Victor Hugo, og franskrar byltingarsögu.

Þótt Karl Lagerfeld kvarti yfir því að ekki sé sami glamúrinn yfir borginni og hér í den tid þegar amerískar kvikmyndir vörpuðu ljóma á gleðilífið sem beið þeirra útlendinga sem þangað komu, eru sögustaðirnir alls staðar og gefa borginni einstakan blæ.

Fyrir meira en aldarfjórðungi reyndi ég að túlka þetta með því að gera svohljóðandi texta um París við lagið La vie en rose.

 

VIÐ ILM AF RÓSUM.

 

Man ég frá bernsku lítið ljóð

við lag sem minnir mig á þjóð

sem elskar lífsins ástaróð

og æskufjör með funheitt blóð: 

 

Lifnar mynd um lygna á,

um langanir og þrá

og ilm af rauðum rósum.

Signubakka bárust frá

svo blíðir ómar þá

frá frönskum þokkadrósum.

 

Man ég kaffihúsaklið

og kyrrð um lágnætti

og ilm af lokkum ljósum.

Frönsk rómantík veitti fró, engu lík,

og færði´okkur allt sem við þráum og kjósum.

 

Man ég æ þann ástarfund

og unaðslegu stund á franskri grund.

 

Heyri ég harmonikkuseið

hvar sem ég fer á lífsins leið.

Þeir frönsku tónar titra enn

og töfra bæði fljóð og menn.

 

Ó, þú ástarinnar borg

með ærsl og gleði´og sorg

og ilm af rauðum rósum,

glaða götulistamenn,

sem ganga´um strætin enn

með frönskum þokkadrósum.

 

Engin borg er eins og þú

sem okkur veitir nú

það allt, sem helst við kjósum.

 

Ósk ef mér veittist í síðasta sinn

er siglir mitt lífsfley að ævinnar ósum,

vildi´ég eiga ástarfund

og eyða ljúfri stund

á franskri grund, -

 

lalalalalala, lalalalalala, lalalala.  


mbl.is Karl Lagerfeld segir París hreina martröð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband