Gamall hrollur tekur sig upp.

Þegar horft er yfir aðstæður í Sveinsgili á myndunum í kvöldfréttum Sjónvarpsins fer um mig gamall hrollur frá sumrinu 1966.

Þá átti ég nýjan Bronco og við Helga fórum á honum upp í Kerlingarfjöll.

Þetta var snemmsumars og stór skafl huldi gil, sem þurfti að fara yfir á leið okkar upp á Keis.

Mér tókst að komast yfir skaflinn en þegar komið var upp, datt mér það í hug að gaman væri að aka niður hann endilangan eftir miðju hans þótt brattinn væri mikill.

Sjálfur fór ég aldrei á skíði á þessum árum en sagði við Valdimar Örnólfsson að ég þyrfti ekki skíði, ég gæti alveg eins notað jeppann og jafnvel orðið fljótari en skíðamaður, af því að þegar skaflinum sleppti gæti ég brunað á fullri ferð áfram, en skíðamaður hins vegar ekki.

Þetta gerði ég áfallalaust þrátt fyrir geigvænlegan hraða og hafði enginn gert þetta áður, og ekki síðar heldur að sögn Valdimars.

Síðan fórum við til Reykjavíkur en afar mikil hlýindi og leysing næstu vikuna urðu til þess að á einum stað, þar sem ég hafði ekið á miklum hraða niður skaflinn, myndaðist stórt gat í hann, sem sýndi, hvað hefði gerst ef hann hefði brostið undan jeppanum.

Hugsanlega var það hinn mikli hraði jeppans sem bjargaði málum, en ef skaflinn hefði brostið undan jeppanum á þessum stað, hefði hann fallið niður í gilið og hugsanlega oltið þar eftir læknum í því og undir skaflinn.

Að minnsta kosti hafði ég ekki hugmynd um það fyrir þessa þeysireið hve djúpt var undir skaflinum því að þetta var fyrsta ferð mín í fjöllin.

Þá voru engin bílbelti í bílum og hefði vart þurft um að binda.

Ef ég hefði verið fáum dögum síðar á ferð hefði getað farið illa.

Þetta sýnir að það er oft að mörgu að hyggja í ferðum á hálendi Íslands.


mbl.is Barst með ánni undir ísdyngjuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það hefur ekki fundist skárra fyrirkomulag.

Hún er margtuggin, setningin um að lýðræðið sé að vísu meingallað og ófullkomið, en engu að síður hafi ekki fundist skárri aðferð við að stýra málefnum þjóðfélagsins.

Á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar var lýðræðið gagnrýnt mikið og í staðinn hafið til skýjanna nokkurs konar afbrigði af "menntuðu einveldi" átjándu aldarinnar, þ. e. afburða "leiðtogar" og "foringjar" í einræði og alræði, sem tryggðu því betri stjórnun og gott gengi þjóðfélagsins sem þeir réðu meiru og stjórnuðu betur.

Það, að fela einvaldi allt vald er að sjálfsögðu toppurinn á fulltrúastjórnun, að fela einum fulltrúa þjóðarinnar allt vald.

Þetta beið skipbrot og á okkar tímum hefur bætt samskiptatækni gert það mögulegt að auka beint lýðræði samhliða því að hafa nauðsynlegt fulltrúalýðræði.

En nú er hafinn söngur þeirra, sem andæfa beinu lýðræði sem mest þeir mega, mæra að vísu þau úrslit þjóðaratkvæðagreiðslna sem hafa fallið þeim í geð, svo sem Icesave og Brexit, en hamast gegn því að enn ótvíræðari úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána 2012, sem var eins og Brexit, ráðgefandi, verði virt og vilja hvorki heyra né sjá beint lýðræði.  

Það skondnasta hjá þessum mönnum er, að í öðru orðinu er sagt að að sjálfsögðu eigi að virða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi Brexit, þótt mjótt hafi verið á munum, en hins vegar sé af og frá að það megi virða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um íslensku stjórnarskrána, þótt þar hafi úrslitin verið mjög afgerandi.


mbl.is Sagði löndum sínum að örvænta ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

70% brautarinnar eru innan brautakerfis hinna brautanna.

70% NA-SV brautar Reykjavíkurflugvallar liggur innan kerfis flugbrauta og akbrauta hinna brautanna. Þennan meginhluta brautarinnar er tæknilega ekki hægt að afmá. Reykjavíkur-flugvöllur, kort

Eftir standa 30% sem eru suðvestan við brautarkerfið eins og sést á meðfylgjandi mynd.

Þar er Valssvæðið og nýr vegur sem kominn er milli þess og vallarsvæðisins merkt með rauðum hring og punktalínu.

Ástæða þess að taka þarf brautina úr notkun er sú, að byggingarkranar og síðar blokkir á versta hugsanlega stað fyrir brautina, eins nálægt enda hennar og hægt var, gera NA-enda hennar ónothæfan fyrir aðflug úr norðaustri.Höfuðb.sv. kort

Á móti kemur, að með því að skekkja brautina til um 2-3 gráður og lengja hana til suðvesturs, eins og sýnt er á myndinni, er hægt að taka hana í notkun að nýju, svo framarlega sem ákafinn í að ráðast að flugvellinum er ekki svo mikill að vaðið verði í að reisa hið snarasta hverfi þar sem rauða punktanlínan er.

Bygging slíks hverfis er í óþökk íbúa Skerjafjarðarhverfisins, og á meðan flugvöllurinn verður þarna er engin leið að réttlæta uppbyggingu þarna með því að hún sé nálægt miðju höfuðborgarsvæðsins.

Frá þessu hverfi eru 6,5 kílómetrar að miðju byggðar höfuðborgarsvæðisins innarlega í Fossvogi og 2,5 kílómetrar til Reykjavíkurtjarnarnar, sem taldist vera miðja höfuðborgarbyggðarinnar árið 1938 þegar bæjarstjórn Reykjavíkur ákvað að hefja byggingu flugvallarins.

En síðan þá eru liðin 72 ár og íbúum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað um meira en 160 þúsund, úr 45 þúsund upp í 210 þúsund. nær öll fjölgunin austan við Snorrabraut.  

Ekki bólar neitt á því að NA-SV braut Keflavíkurflugvallar verði tekin í notkun, sem sett var sem forsenda fyrir lokun NA-SV brautarinnar.

Enda er það því miður oft svo hér á landi, að ekki er ráðist í öryggisráðstafanir fyrr en svo og svo mörg mannslíf hafa tapast.

Dæmi af handahófi: Tvöföldun Reykjanesbrautar og Suðurlandsvegar, nú síðast banaslys á gatnamótum Hafnavegar og Reykjanesbrautar, vegrið við Hvalfjarðarveg á sínum tíma.   


mbl.is Neyðarbraut breytt í flugvélastæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband