Allt lygi og uppspuni, líka að ég sé ég?

Skondin umræða fer nú fram hér á blogginu um tvennt, sem sagt er að sé uppspuni og lygi.

Annars vegar að Panamaskjölin séu ekki til, heldur hreinn tilbúningur, og þess vegna ljóst að Reykjavík Media og RUV hafi logið öllu aflandsfélagamálinu upp.

Ef Panamaskjalamálið er allt tilbúningur eins og fullyrt er í þessum skrifum, eru væntanlega fréttir um aflandsfélög sem tengjast Íslendingum og erlenda ráðamönum, svo sem David Cameron og forsetum Úkraínu og Rússlands líka tilbúningur.

Já, mikill er máttur RUV að fá þessa menn í lið með sér í "svindlinu"!

Er þetta ekki dásamlegt?

Í athugasemdum á bloggsíðu minni í dag  er nú ítrekuð sú grunsemd eins athugasemdarmannsins, að ég og Steini Briem séum sami maðurinn.

Þorsteinn Briem er einn þeirra fjölmörgun sem hafa gert athugasemdir á bloggsíðu minni.  

En það að ég og hann séum sennilega sami maðurinn þýðir á mannamáli að ég falsi þau meginatriði síðunnar hver ég sé og hvað ég skrifi.

Og jafnframt þýðir þetta samkvæmt orðanna hljóðan, að hugsanlega sé höfundur þess, sem ég er skráður höfundur fyrir, Þorsteinn Briem en ekki ég, - og hins vegar að höfundur þess, sem Steini Briem er skrifaður fyrir, sé ekki hann heldur ég!

Og að þessar falsanir mínar gangi svo langt að ég sé í sumum málum ósammála manninum, sem ég þykist vera!  Eða að hann sé ósammála manninum, sem hann þykist vera!  

Raunar hefur Þorsteinn Briem áður upplýst um hver hann sé og að hann sé höfundur athugasemda undir nafninu Steini Briem, en það virðist ekki tekið trúanlegt, heldur látið ítrekað að því liggja að hann sé ég og ég sé hann.

Og svo að áfram séu notuð rökin um það að skjöl, sem einhver hefur ekki undir höndum, séu ekki til, heldur tilbúningur, má maður kannski búa sig undir það að ekkert sá að marka höfundarupplýsingar í bráðum 10 þúsund bloggpistlum á síðunni minni, af því að ég geti ekki framvísað fæðingarvottorðum okkar Þorsteins Briem.

Og af því að ég framvísi ekki fæðingarvottorði, sé ég hreinlega ekki til, heldur bara uppspuni, tilbúningur og lygar eins og Panamaskjölin!

Þetta er í fyrsta skipti á ævinni sem ég er vændur um að falsa opinberlega nafn annars manns  og í þessu tilfelli að ljúga til um það sem ég og aðrir skrifa.

Að ég sigli undir fölsku flaggi á bloggsíðu minni og misfari með höfundarnöfn, bæði mitt og annars manns.

Já, það er bara heilmikið um að vera í dag.

Panamaskjölin eru uppspuni RUV og ég er ekki ég.

Hvað næst?    


mbl.is Seðlabankinn ekki óskað eftir gögnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bara hálf myndin, - það er skortur á konum í dreifbýli.

Þegar fréttir eru fluttar af því að flytja þurfi unga erlenda karlmenn til landsins til að viðhalda landsmönnum, gleymist alveg, að þetta var aðeins hálf myndin.

Víkingarnir vissu alveg hvað þeir voru að gera þegar þeir fluttu konur frá Bretlandseyjum til Íslands. Án kvenna á barnaeignaaldri var landnámið og byggðin í landinu vonlaus.

Svo afkastamiklir voru landnámsmennirnir í þessu að þriðjungur þjóðarinnar rekur ættir sínar til landnámskvenna frá Bretlandseyjum.

Hér á landi kann að vera skortur á vinnuafli karlmanna í þéttbýli, en á landsbyggðinni er víða sár skortur á ungum konum.

Í eina skiptið sem margar konur voru fluttar erlendis frá út í íslenskt dreifbýli var þegar flóttakonur frá Þýskalandi komu hingað eftir lok Heimsstyrjaldarinnar síðari.

Þær reyndust nýtir þjóðfélagsþegnar og hleyptu víða lífi í sveitirnar, þar sem víða var mikil og varanleg fólksfækkun.  


mbl.is Ekkert fyrir að kvænast íslenskum konum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sama fyrirbrigðið og við Skógafoss fyrir tveimur árum.

Fyrir tveimur árum kom upp lík staða við Skóga undir Eyjfjöllum og nú er uppi við Reykjahlíð við Mývatn.

Athafnamaður hugðist reisa stórt hótel ofaan við þjóðveginn, sem væri þannig staðsett, að það skyggði á útsýni til Skógafoss frá veginum og styngi gersamlega í stúf við aðrar byggingar á staðnum, en veitti hins vegar hótelgestum forgangsútsýni að fossinum.

Þá sagði sveitarstjórnarfólk hið sama og nú, að "ferlið væri komið of langt" og ekki væri hægt að breyta ákvörðuninni um hótelið, en "að sjálfsögðu yrði tekið tillit til óánægjuradda."

Í sveitarstjórninni hafði verið sami meirihlutinn svo lengi sem elstu menn mundu, og þar af leiðandi aldar hefð fyrir því að svona mál rynnu í gegn.

En sem betur fór, voru sveitarstjórnarkosningar á dagskrá, og sérstakur listi var borinn fram, sem gerði þetta mál og lýðræðið í hreppnum að aðalmáli.

Einungis örfá atkvæði skorti í kosningunum til að fella hinn gróna meirihluta þegar talið var upp úr kössunum og það fór um fulltrúa meirihlutans, sem á endanum tók ekki málamyndatillit til "óánægjuradda", heldur féll frá hugmyndinni um hið stóra hótel, sem átti að njóta forréttinda vegna þess að hóteleigandinn tilvonandi gerði tilboð, sem ekki var talið hægt að hafna: Annað hvort fáið þið hótel þarna eða ekkert hótel.

Allir sem þekkja til Skóga sjá, að eðlilegast er að nýjar byggingar á staðnum, ef reistar verða, séu upp við brekkuna austan við fossinn þar sem aðrar byggingar hafa risið.

Ég minnist þess með ánægju, að vegna mikillar viðveru minnar við Hvolsvöll á árunum 2010-14 lagði ég nýja listanum lið, enda kemur öllum landsmönnum það við hvernig umgangast á náttúru landsins. Í þessu máli urðum við Björn Bjarnason samherjar og var það sérstaklega ánægjulegt!

Við Mývatn er margfalt mikilvægara að breyta um stefnu í þessum endalausu hótelmálum, þar sem troða á þessum byggingum niður í borg og sveit, hvar sem fjáraflamönnum dettur í hug.

Ljóst er, að það er ekki einungis mjótt á munum milli fjölda fylgismanna hótels og andófsfólks í Mývatnssveit, heldur mikill meirihluti íbúa sem áttar sig á mikilvægi þess að stefnubreyting verði, alger stefnubreyting en ekki málamyndatillit eins og oddviti hreppsins telur nægja.  

Ég vísa í fyrri pistil um þau efni, nauðsyn þess að hernaðinum gegn Mývatni linni.  


mbl.is Óánægjuraddir með í reikninginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað segir og sagði KSÍ?

Talsmenn KSÍ segjast statt og stöðugt hafa sagt fólki, bæðí opinberlega og beint, að eingöngu með því að kaupa miðaa leiki beint í gegnum sambandið, sé tryggt að fólk fái þá í hendur.

En svo er að sjá á vandaræðamálinu í París, að þegar mikil ásókn er í miða af stórviðburðum, sé fyrir hendi fólk, sem taki að sér að útvega miða, og virðast allir hinir tilgreindu tölvupóstar benda til þess að þarna geti verið um fleiri en einn millilið að ræða utan við miðasölu á vegum KSÍ, úr því að sambandið afneitar ítrekað og ævinlega að koma nálægt þessu né öðru miðabraski.

Svona mál skapast vegna eftirspurnar sem stundum virðist blossa upp sem eins komar hjarðhegðun; hundruð og jafnvel þúsundir fólks finnst að það bókstaflega verði að kaupa miðana og heilu ferðina til viðburðarins og aftur til baka.

Ljóst virðist af fréttum um þetta að allt þetta fólk hefði átt að vita fyrirfram að tekin væri áhætta með miðaviðskiptum framhjá KSÍ. 

Þeir sem töpuðu áhættuspilinu töpuðu ekki aðeins miðunum, heldur varð ferðin að öðru leyti að miklu eða öllu leyti ónýt.

Það eru margir fletir á málinu og ef engir eru tilbúnir að kaupa frá mönnum utan KSÍ myndu engir töluvpóstar fljúga á milli fólks, sem hefur sérhæft sig í því að sinna eftirspurn, sem samkvæmt þessum fréttum virðist byggð á því að taka áhættu.

Hugsanlega vegna þess að miðabröskurunum hefur áður oftast tekist að afhenda umbeðna vöru.  

Og hljóta að stunda þetta aftur og aftur vegna þess að það sé hægt að græða á því.


mbl.is Hefði ekki fórnað öllu með svindli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband