Valdataka hers er oftast slæm frétt, en ekki alltaf.

Valdarán hers þar sem lýðræðislega kjörnum stjórnum er steypt af stóli, er oftast slæm frétt.

Valdarán hersins í Grikklandi, sem stóð frá 1967-74 fór illa með efnahag Grikkja og stöðu þeirra út á við.

Þrívegis, 1938, 1939 og 1944 munaði ekki miklu að þýski herinn steypti Hitler. Hitler komst að vísu til valda í upphafi á lýðræðislegan hátt, umdeildan að vísu, en vék lýðræðinu í burt á sama ári. Það hefði sennilega verið gott ef honum hefði verið steypt með valdaráni hersins 1938 eða 1939 eða með tilræðinu 1944, sem var á vegum afla innan hersins.

Sovéski herinn lék lykilhlutverk í því að koma Gorbatsjov og Yeltsín aftur til valda eftir að klíka herðlínukommúnista hafði steypt Gorbatsjov af stóli. Í því tilfelli var þátttaka hersins til góðs þegar upp var staðið.

Valdarán Pinochet í Chile var hins vegar hræðilegt.

En þegar herinn í Egyptalandi reis gegn lýðræðislega kjörinni stjórn þar í landi, létti mörgum, því að í óefni stefndi hjá stjórninni, sem tók við eftir uppreisnina gegn Mubarak og reyndist stjórn öfgamúslima.

Þetta breytir því ekki, að valdarán eða valdaránstilraun er yfirleitt til ills eins.

Ef tyrkneski herinn er klofinn núna gæti blóðbað í stríði andstæðra fylkinga innan hans orðið skelfilegt og endað með borgarastríði, en slík stríð eru oft þau verstu sem háð eru.

Þyrpist fólk út á götur verður drápsgeta hervéla enn meiri en ella.  

Í múslimsku löndunum eru veður válynd, ástandið oft flókið og ekki allt sem sýnist. Enginn veit nú, hvernig þetta fer og ekki heldur hvort er skárra, að Erdogan hafi það af, eða að hernum eða hluta hans takist valdaránið.

Sé þetta hins vegar aðeins hluti hersins, sem hefur gert uppreisn, er vonandi að sú tilraun renni út í sandinn sem fyrst. Eins og er bendir ýmislegt til þess að þannig fari nú.

Erdogan hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir valdafíkn og ólýðræðislega tilburði, en erfitt er að sjá hvort hann forherðist eða fer varlegar ef hann hefur það af núna.

Núverandi stjórn er að vísu umdeild en lýðræðislega kosin og varla svo slæm, að hægt sé að réttlæta stórfelld átök og mannfall í hernaðarátökum.


mbl.is „Við komumst í gegnum þetta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Fíflagangurinn" hér um árið.

,Fyrir tæpum sjö áratugum viðraði Jóhannes Kjarval það í blaðaskrifum að hætta mætti hvalveiðum og skoða hvalina í staðinn.

Eftir frétt af fyrsta hvalaskoðunarbátnum á Hornafirði fyrir aldarfjórðungi fékk ég orð í eyra fyrir svona fréttaflutning um fíflagang, sem byggðist á "geimórum."

Þetta voru dæmi um það, sem menn hneyksluðust yfir eða hentu dár að varðandi "fíflagang".

Hallór Laxness setit fram þá sýn 1970 að sú tíð myndi koma að mokað yrði ofan í allar þær þúsundir kílómetra af skurðum, sem þá var verið að grafa um allt land á kostnað skattgreiðenda.

Margir hentu gaman að þessum "fíflagangi" hjá skáldinu og nefndu sem dæmi um ruglið í umhverfis- og náttúruverndarfólki.

Ef myndin af forsetanum, umhverfisráðherrum og forstjóra Landgræðslu Íslands, sem nú birtist í fjölmiðlum, hefði verið sýnd jafnframt þessum orðum skáldsins hefði það verið talið sem merki um "óra" eða í besta falli sérlega einkennilegt skopskyn viðkomandi.  

Fyrir 14 árum flaug ég með Hrafn Gunnlaugsson út á land til myndatöku fyrir mynd hans "Ísland í öðru ljósi" og meðal þess sem við tókum myndir af, var af skurðgröfu að grafa nýja skurði í Skagafirði, en öðru jarðvinnslutæki að moka ofan í skurði á öðrum bæ þar skammt frá.

Ennþá fyndnari mynd af "fíflagangi."


mbl.is Hófust handa við verkið á Bessastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ein tegund frelsis; - frelsi frá ótta.

Frelsi frá ótta var ein af fjórum tegundum frelsis sem Roosevelt Bandaríkjaforseti setti fram sem takmark mannkyns í einni af merkustu ræðum sínum, í þann veginn sem hann var að hefja setu sína sem forseti, þriðja kjörtímabilið í röð.

Pæruna hélt hann í janúar 1941 þegar Bandaríkin voru enn samkvæmt alþjóðalögum hlutlaus í Heimsstyrjöldinni, þótt Roosevelt væri í óða önn að styrkja tengslin við Breta í baráttu þeirra við Öxulveldin.

Ræðan var í raun upptaktur á þátttöku Bandaríkjamanna í stríðinu þar sem ástæðurnar fyrir henni voru settar fram á skýran og einfaldan hátt.

Frelsi Roosevelts var fjórþætt: Tjáningar- og skoðanafrelsi, trúfrelsi, frelsi frá ótta og frelsi frá skorti.

Nú, 75 árum síðar, virðist frekar miða afturábak en áfram í þessum efnum.

Það er helst að um þessar mundir séu þeir sem líða algera neyð í skorti færri en áður.

Varðandi óttann vitnaði Roosevelt í setninguna um það, að það eina sem þyrfti að óttast, væri óttinn sjálfur.

Og hann leynist víða og er lúmskur, því hann eitrar út frá sér. Markmið Hitlers með loftárásunum á breskar borgir í orrustunni um Bretland, var að skapa svo mikinn ótta að hann leiddi til sundurlyndis, ringulreiðar og uppgjafar.

Þetta tókst þó ekki.

Óttinn getur samt orðið yfirþyrmandi þegar ódæðum er beitt eins og hryðjuverkamenn hafa gert síðustu ár.

Á einu bloggi dagsins má sjá þau orð að það hafi verið bara "venjulegur múslimi" sem myrti 84 í gærkvöldi í Nice, og að þar af leiðandi sé eðlilegt að umgangast og tala um múslima sem mögulega hryðjuverkamenn, líka ósköp venjulegt fólk sem eru múslimar.

Annar staðar mátti sjá þvi velt upp að fjöldamorðingi gærkvöldsins hefði verið ungur múslimi og allir sæju hve mikill munur væri á slíkum manni og kristinni franskri ömmu.

Ekki fylgdi þessari sögu hvað gilti um múslimska franska ömmu, sem hefði kannski verið raunhæfari samanburður.  

Og mín eyru var sagt í dag, þegar nafn Andreas Lubitz kom upp í umræðunni, en hann drap 150 manns þegar hann lokaði sig inn í stjórnklefa farþegaþotu og stýrði henni á fjall í febrúar í fyrra, að kannski hefði það verið þaggað niður eða því leynt að hann hefði eftir allt verið múslimi eða hryðjuverkamaður á vegum ISIS en ekki sálsjúkur þunglyndissjúklingur í sjálfsmorðshugleiðingum þar sem sjálfsvígið tæki með sér heila þotu, fulla af farþegum.

Þannig getur óttinn stigmagnast og breiðst út og um leið bitnað á öllum tegundum frelsis, líka þeim tveimur fyrstu sem Roosevelt nefndi í tímamótaræðu sinni.

 


mbl.is Blóðbað í paradís
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Markmið brjálæðinga. Fjöldamorð í 800 metra fjarlægð.

Markmið brjálæðinganna, sem standa fyrir ISIS-samtökunum og öðrum hryðjuverkahópum og létu til skarar skríða í Nice eru skýr: Að valda sem mestu tjóni á samfélögum lýðræðis og eyða einkennum þeirra.Brussel,Helga, hermenn

Fyrir hreina tilviljun vorum við Helga stödd í aðeins 800 metra fjarlægð frá lestarstöðinni í Brussel í vor, þegar sprengja hryðuverkamanna sprakk þar og drap fjölda fólks. Við vorum með töskurnar okkar í höndum að leggja af stað út á flugvöll þar sem enn fleiri voru drepnir.

Næstu fimm daga á eftir vorum við strandaglópar vegna hryðjuverkanna, innan um fólkið í Brussel sem tókst á við afleiðingar ódæðanna og ég var kominn í það gamla hlutverk frá fréttamannsferlinum að senda skilaboð frá borgurunum til umheimsins, æðruleysi og andóf gegn fyrirætlunum kaldrifjaðra glæpamanna.Brussel, Helga, herbíll

Myndirnar eru frá þessum dögum í Brussel þar sem fólk þyrptist saman til að sýna samstöðu gegn voðaverkunum og fyrir því að láta ódæðisfólk ekki komast upp með að eyðileggja árangur langvinnrar baráttu fyrir þjóðfélagi farsældar og friðar.(Afsakið að neðri myndin birtist tvisvar vegna tæknilegra mistaka)

Brussel, Helga, herbíll

Tjónið, sem hryðjuverkamennirnir  standa fyrir, er margþætt:

1. Að drepa sem flesta og særa í sem villimannlegustum árásum.

2. Að eyðileggja gleði fólks á stórum hátíðum og fylla það ótta og tortryggni, gera þjóðfélagið þrungið spennu og dimmu í stað frelsis og birtu.

3.  En ekki síst að kalla fram sem hörðust og víðtækust viðbrögð við hryðjuverkunum, sem auki á hörkuna á báða bóga og kalli yfir friðsöm samfélög frelsis andstæðu þeirra, lögregluríki og stjórnarfar þrúgandi stjórnlyndis og vænisýki, takmarkalausra persónunjósna í anda STASI og KGB.

Takist þetta síðasta, er aðal takmarki brjálæðinganna náð, að eyðileggja samfélög vestræns lýðræðis, frelsis, mannúðar og jafnréttis.

Því að hið íslamska ríki þessara ofstopamanna er langt aftur í miðöldum fordóma, valdbeitingar, kúgunar og misréttis, forneskjuríki sem þeir vilja að rústi nútíma samfélagi vestræns lýðræðis.


mbl.is Æðislegt kvöld breyttist í martröð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband