Ótal vel geymd leyndarmál. Mörgum ógnað.

"Ég hélt eins og þjóðin að Eyjabakki væri gata í Breiðholtinu" sagði forsætisráðherra í sjónvarpi skömmu fyrir síðustu aldamót, þegar það var einbeittur vilji ráðamanna að sökkva Eyjabökkum í miðlunarlón fyrir Fljótsdalsvirkjun. 

Í þessum orðum kristallast margt varðandi hálendi Íslands. 

Í fyrsta lagi hve mörg "leyndarmál" það geymir, staði og slóðir sem eru aðeins örfáum kunnug. Fyrir bragðið eru þetta fjársjóðir sem geyma möguleika á því að upplifa það, sem er svo mörgum dýrmætt á okkar tímum, friður, kyrrð og fegurð. 

Í öðru lagi væri hægt að dreifa ferðamannastraumnum betur ef markvisst væri unnið að því að auka umferð um áður óþekktar slóðir án þess þó að úr verði of mikil örtröð og ónæði.

Í þriðja lagi sjá virkjanafíklar sér leik á borði að eyðileggja þessi náttúruundur með því að umturna þeim á fjölbreyttan hátt, af því að svo fáir vita hvað um er að ræða og leggja trúnað á síbylju um að þetta sé bara urð og grjót. 

Örfá nöfn i umræðunni þessa dagana: Svartá, Krókdalur, Hvalá, Skrokkalda, Skatastaðavirkjun, Kjalölduveita, Búlandsvirkjun.

Til að rugla fólk enn meira, felst alls ekki í flestum nöfnunum í hverju virkjanirnar felast.

Kjalölduvirkjun ætti að heita Þjórsárfossavirkjun, Búlandsvirkjun Skaftárvirkjun, Hrafnabjargavirkjun Skjálfandafljótsvirkjun og Skrokkölduvirkjun Köldukvíslarvirkjun.

Í fjórða lagi samtvinnast þessi þrjú atriði á þann hátt, að á sama tíma sem rætt er um nauðsyn þess að bregðast við of hraðri fjölgun ferðamanna með því að dreifa henni, er sótt í það að eyðileggja þau svæði með virkjunum, sem gætu opnað ferðafólki nýjar leiðir um slóðir, sem færa því það, sem það sækist mest eftir; fegurð einstæðrar náttúru, friður og kyrrð.  

 

 


mbl.is „Óvíða jafntignarlegt víðerni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Köngulær, - haturs/ástarsamband. Koma við sögu í komandi bók.

Um daginn var ég að að morgni dags á ferð í nokkuð þröngu skoti milli þriggja bíla, sem ég get lagt í tvö bílastæði, af því að tveir bílanna eru svo litlir. Þá var þar allt iðandi af flugum, - sumarið var brostið á. 

Ég sá, að utan í gömlum Fox-jeppa mínum hafði köngulló vafið stóran og fallegan vef. 

Þetta fannst mér ekki gott að sjá, því að þessi jeppi var um allangt skeið úti í grasi á Ljónsstöðum í Flóa, og eftir að hann kom þaðan úr viðgerð, var hann allur morandi í köngulóm. Þær höfðu komist inn í bílinn og ekki var við þetta búandi. 

Við tók herferð, sem endaði eftir að búið var að drepa alls 30 köngullær. 

En köngullóin sem nú var komin utan á jeppann var þegar búin að veiða eina flugu í net sitt, svo að ég ákvað að ljúka erindi mínu við bílana án aðgerða í skordýramálum. 

Þegar ég kom aftur þangað síðdegis voru allar flugur horfnar en net köngullóarinnar fullt af flugum eða leifum af þeim. 

Daginn eftir þurfti ég að aka þessum jeppa og í þeiri ferð hvarf köngullóin og hefur ekki sést til slíkra kvikinda þarna síðan. 

Þetta sýndi vel hvað þessi frábæru kvikindi geta verið mögnuð og nytsöm. Hvað mig snertir er gallinn hinsvegar sá, að síðan ein risakönguló vakti mig um miðja nótt þegar ég var ungur drengur í Kaldárseli, skríðandi yfir andlitið á mér, hef ég alla tíð verið hræddur við köngullær. 

Á allra síðutu árum hefur óbeitin dofnað og sótt að aðdáun á þessum verkfræðisnillingum náttúrunnar. Núverandi ástand er eins konar ástar/haturssamband.

Ég hef nýlokið við að skrifa bók þar sem köngullær leika all stórt hlutverk.

Einkum það orð, sem fer af kvendýrinu, sem ku éta hinn væskilslega karl, þegar hann hefur lokið sínu hlutverki til viðhalds stofninum.   

 


mbl.is „Köngulær eru aldrei plága“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdaránstilraun, sem vekur ugg, þótt liðin sé hjá.

Allt frá tímum Ataturks, "föður Tyrklands", hefur þetta land, sem er að hluta til í Evrópu, verið land andstæðna mismunandi trúar og menningarheima á mörkum Evrópu og Asíu.

Tyrkjaveldi teygði arma sína langt inn í Evrópu alveg fram eftir 19. öldinni, þegar halla fór undan fæti, þannig að lokum áttu Tyrkir aðeins lítið horn af Balkanskaga við Bosporus-sundið.

Afleiðingarnar eru enn að birtast okkur í sundurlyndi og óróa, sem brýst út í einstökum átökum og styrjöldum, Balkanstyrjöldunum skömmu fyrir upphaf Heimsstyrjaldarinnar fyrri, og síðan nýjum átökum þegar Júgóslavía liðaðist í sundur í lok síðustu aldar.

Balkanskagi er enn "órólega hornið" í Evrópu eins og fyrir rúmri öld, - á honum var framið morðið í Sarajevo 1914 sem varð neistinn sem kveikti í púðurtunnunni og varð að heimsstyrjöld, þar sem við Gallipoli mistókst innrás Breta og eyðilagði tilraun þeirra til að ljúka Heimsstyrjöldinni mun fyrr en ella varð.

Tyrkneska þjóðin er enn klofin á milli tveggja menningarheima.

Í upphafi valdaránstilraunarinnar núna héldu margir að herinn vildi taka völdin til þess að flýta fyrir því að gera Tyrki betur hæfa til að taka þátt í samstarfi við Vesturlönd, en nú er komið í ljós að þessi valdaránstilraun kom úr svipaðri átt og þegar Íranskeisara var steypt 1979.

Sem betur fer virðist tilraunin ekki hafa heppnast, en hún vekur samt ugg, ekki aðeins vegna þess að hún skuli hafa verið möguleg og að svipað geti vofað yfir síðar, heldur einnig vegna þess að hætta er á að Erdogan muni eflast í valdasókn sinni með tilheyrandi alræðistilburðum, skerðingu frelsis og mannréttinda og nota hættuna á múslimskri byltingu sem afsökun.


mbl.is 104 uppreisnarmenn látnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband