Hvernig væri að klára þetta mál?

Síðustu áratugum hefur þeim hvítabjörnum fjölgað sem ganga á land á Íslandi, en fyrir 1988 voru þeir ekki á ferðinni í áratugi.  

Sýnist það við fyrstu sýn vera skrýtið, því að útbreiðsla hafíssins hefur minnkað.

En ástæðan kann að vera sú að lífsskilyrði úti á ísnum séu ekki jafn góð og áður var og þess vegna leggist dýrin í leiðangra í fæðuleit.

Í fréttum af máli bjarnarins á Skaga kemur fram að hvorki hafi verið lokið við að gera sem besta föngunaráætlun vegna þessara óboðnu gesta né að fjármagn hafi verið veitt til þess.

Það kann að sýnast lítilsvert mál að skjóta eitt og eitt bjarndýr, en það getur samt þvert á móti orðið að miklu stærra máli en ella að skjóta þau alltaf þegar þau birtast, því að eðli málsins samkvæmt eru hvítabirnir hér á landi stórfrétt og út á við lítur það ævinlega illa út að drepa sjaldgæf dýr, sem eru í útrýmingarhættu.

Hvernig væri nú að klára þetta mál almennilega?  Meðan það er ekki gert er alltaf hætta á því að það verði afflutt gagnvart umheiminum og það er ekki gott fyrir orðspor okkar, þjóðar sem þarf sem ferðamanna- og viðskiptaþjóð á góðu orðspori að halda  


mbl.is Ólíklegt að hvítabirnir verði fangaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Elsta Íslandsmetið loksins fallið , naumlega þó.

Ein ógleymanlegasta minning mín frá íþróttakeppni er að hafa átt þess kost að sjá Hilmar Þorbjörnsson setja Íslandsmet á Melavellinum 1957, sem hefur staðið í 59 ár.

Þetta met var sett á sérstöku móti sem Glímufélagið Ármann hélt og stóðst hvað formlega framkvæmd og aðdraganda allar kröfur um gilt mót.

Hilmar fékk enga keppni í þssu hlaupi, - næsti maður í mark var um 10 metrum á eftir honum í mark.

Á þessu mót var Hilmar í besta formi íþróttaferils síns og þau eins og knúinn með eldflaug á þessum þeysispretti.

Tíminn var tekinn handvirkt, 10,3 sekúndur, og jafngilti 10,54 sekúndum með rafrænni tímatöku.

Nýja metið er 0,02 sekúndum betra og Ari Bragi Kárason á heiður skilinn fyrir að gera atlögu að þessu meti og á góða von með að bæta sig enn meira og metið þar með.

Ég var eitt sinn beðinn um að nefna sprettharðasta mann Íslandssögunnar og nefndi nafn Hilmars.

Í því mati mínu var ekki aðeins litið á hráan tíma í hlaupinu heldur einnig á aðstæður, sem voru allar miklu lakari en nú er.

Hlaupið var á malabraut en ekki á sérhannaðri gerviefnisbraut eins og 1977 og 1996 þegar Vilmundur Vilhjálmsson og Jón Arnar Magnússin jöfnuðu tíma Hilmars.

Þar að auki voru vísindalegar þjálfunaraðferðir, mataræði, tækni og ekki síst læknisfræðileg og lyfjafræðileg atriði enn á sama stigi og höfðu verið í áratugi, en allt þetta átti eftir að taka stórstígum framförum á sjöunda áratugnum.

Nú er elsta Íslandsmetið í frjálsum íþróttum þrístökk Vilhjálmsson Einarsosnar 1960, 16,70, og síðan þá hefur enginn Íslendingur komist í námunda við það mikla 56 ára gamla afrek.

Að lokum: Til hamingju Ari Bragi og gangi þér vel við að bæta þetta nýja met.


mbl.is Ari Bragi með nýtt Íslandsmet
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andspæni, sem líður ekki úr minni.

Fyrir útivistarfólkið, sem sat flötum beinum í Gálgahrauni 13. október 2013, og horfði á stærsta skriðbeltadreki Íslands, 40 tonna jarðýtu, stefna að því með sína risastóru ýtutönn, líður minningin um það aldrei úr minni.

Þetta var eitthvað svo óraunverulegt, skriðdrekinn og 60 manna víkingasveit búin handjárnum, úðabrúsum og kylfum andspænis 25 eftirlaunaþegum, smágerðum konum, listamönnum og viðlíka fólki, sem aldrei hafði lent í neinu misjöfnu.

Svipað andspæni er þekkt úr nútímasögu:

Skriðdrekinn á Torgi hins himneska friðar andspænis smágerðum kínverskum stúdent.

Skriðdrekarnir í Búdapest 1956 andspænis vopnlausum borgarbúum.

Skriðdrekarnir í Prag 1968 andspænis borgarbúum.

Skriðdrekarnir í Moskvu andspænis Yeltsín.  

Og nú, skriðdrekarnir í Tyrklandi andspænis vopnlausum borgurum.

Ofangreindur samanburður leggur að sjálfsögðu ekki að jöfnu þá, sem stilla skriðbeltatækjum upp gegn óvopnuðu fólki heldur einungis hinu tæknilega atriði. 

Hugsunin á bak við slíka uppstillingu nakins valds, skriðdreka sem er 600 sinnum þyngri en mannveran fyrir framan hann, virðist oftast vera sú, að gefa rækilega til kynna að það sé auðveldara en að stíga ofan á pöddu að kremja hinar smáu og aumu lífverur framundan undir ferlíkinu.

Og yfirburðirnir, sem stillt er upp, verða enn augljósari þegar ferlíkið fer loks af stað með urrandi brauki og bramli eins og fíll í glervörubúð eftir að fólkið hefur verið borið burtu, og mylur kletta og klungur mélinu smærra á gervölllu fyrirhuguðu vegstæði fyrir kvöldið, - kemur bara í hraunið þennan eina dag og veldur mestu mögulegu umhverfisspjöllum á sem skemmstum tíma.

Þetta var eitthvað sem engan hafði órað fyrir að gæti gerst. Ekki í landi, þar sem í lögum eru fyrirmæli um að gæta meðalhófs. 

Og samt gerðist það.

En hafði þó verið stillt upp á svipaðan hátt 14 árum fyrr.

Þá hefði andspænið getað birst á flugbannsvæði yfir hálendi Íslands í formi eins mikilvirkasta drápstækis okkar tíma, F-15 orrustu-og sprengjuþotu andspænis 50 sinnum léttari og hægfleygari óvopnaðri smáflugvél, TF-FRÚ.

En til þess kom ekki, af því að FRÚnni var flogið framhjá bannsvæðinu.

Enda full ástæða til: Bannsvæðið vegna heræfingarinnar Norður-Víkingur var sett til þess að F-15 þoturnar gætu æft sig í því að ráðast á náttúruverndarfólk á hálendinu í boði íslenskra ráðamanna.

Við slíkar aðstæður var þá ekki hægt að láta nægja að falla bara á annað hnéð í hlýðni og auðmýkt, heldur að falla á bæði hnén.     

 

 

 


mbl.is Hræddust ekki skriðdrekana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband