Óréttlátar afleiðingar.

Það er gömul og ný saga að kjaradeilur bitni misjafnt á þeim sem tengjast þeim, bæði beint og óbeint.

En það er sláandi hvernig afleiðingar kjaradeilu flugumferðarstjóra og Isavia bitna hlutfallslega langmest á einni tegund flugrekstraraðila.

Það hlýtur að vera hægt að finna skaplegri leið við aðgerðir en þá sem hefur bitnað svona miklu meira á flugskólunum en öðrum greinum flugrekstrar og svona miklu meira á einni tegund flugmanna en öðrum.


mbl.is Yfirvinnubannið olli miklum skaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki spurning um tilvist gagna, heldur varðveislu og notkun.

Deilur borgaryfirvalda í Nice og sáksóknarans í París snúa að grundvallaratriði varðandi gagnaöflun og miðlun frétta.

Svona atriði hafa komi upp hér á landi og raunar eru viðfangsefni af þessu tagi oft til skoðunar þegar fjölmiðlarnir sjálfir skoða þau gögn, sem þeir búa yfir.

Eftir að hafa verið á vettvangi allra stærstu hamfara- og hörmungaratburða hér á landi síðan á Norðfirði 1972 er það niðurstaða mín, að afla beri allra gagna og varðveita þau tryggilega, en sýna vandvirkni,tillitsemi og trúnað í hvívetna vegna hugsanlegrar birtingar.

Þegar snjóflóð féllu á Súðavík 1994 var öll myndataka á vettvangi bönnuð lengst af sem og návist fjölmiðlafólks.

Af þessum sökum væru engar myndir til ef einn einstaklingur hefði ekki tekið ófullkomnar og takmarkaðar myndir.

Það, að engin gögn séu til um aldur og ævi um svona viðburði bitnar á möguleikum til að rannsaka atburði og læra af þeim og einnig verður þetta til þess að um aldur og ævi verða engin gögn til.

Þetta snýst um það hvort gögnin verði nokkurntíma birt og þá hvernig.

Sem betur fór lærðu menn af þessu í Súðavík, og á Flateyri féngu einn kvikmyndatökumaður og einn ljósmyndari að fara með björgunarmönnum í land til að taka myndir, sem allir fjölmiðlarnir gætu haft aðgang að að uppfylltum loforðum um að gæta fyllstu varfærni við notkun og birtingu.

Ég minnist komu minnar að hörmulegum slysstað fyrir nokkrum áratugum, þar sem ég tók myndir í samræmi við þessa vinnureglu mína.

Þegar ég kom með þær til fréttastjóra míns settumst við yfir þær og völdum vandlega úr þeim. Myndirnar voru teknar mismunandi langt frá myndefninu og númeruðum þær; 1 þá mynd, sem var næst, 12, þá sem var fjærst.

Í stað þess að velja þær myndir sem sýndu myndefnið best, númer 1-4, völdum við myndir númer 5 og númer 9.

Oft er hringt inn á fjölmiðla til að kvarta yfir tillitslausri myndbirtingu. Í þetta sinn kom engin athugasemd.

Mynd númer 5sýndi þeim sem á horfðu, að gætt hafði verið varfærni og tillitssemi við myndbirtinguna.

Eftir sem áður vöru allar myndirnar geymdar á tryggum stað, aldrei að vita nema að vegna rannsóknar eða seinni tíma umfjöllunar, segjum eftir 75 ár, yrði þeirra þörf.

Um er að ræða hluta af sögu þjóðar þegar ár og aldir líða.


mbl.is Vilja eyða upptökum af árásinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Örnólfur útigangsmaður...", tákn vanda ferðaþjónustunnar.

Í  tilefni af nýggerðu bannskilti á ferðamannaslóðum, sem framtakssamur maður hefur gert og lýst er í  tengdri frétt á  mbl.is,,er sjálfsagt að  blanda sér í umræðuna:

Dugar ei bull eða blaður. /

Burtrekinn er  /

Örnólfur útigangsmaður  /

og útlægur ger.

 

Umgengnin skánar með sóma´og sann, /

svona´á þetta hér að vera. /

Á skiltinu´er alveg skýrt boð og bann: /  

Burt með skítakaraktera!

 

Áður fyrr hér ánægjunni spillti  /

að ösla drulluna á skónum fínum.  /

Því á að breyta, upp er komið skilti  /

að enginn þurfi´að ganga´í hægðum sínum.  / 

 

En ástandið í raun, það er til ama,  /

um það virðist blöðum ekki´að fletta  /

að ansi mörgum er víst drullusama   /

og engu að síður gefa skít í þetta.

 

Hugarfar úr þessu skilti skín  /

og skrýtín rómantík hjá vorri þjóð: /

"Sestu hérna´á hækjur, ástin mín;

horfðu´á sólarlagsins roðaglóð."


mbl.is „Örnamaður“ ekki í trássi við reglugerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband